Saturday, May 15, 2010

Phil Jackson hagar sér eins og smákrakki


Phil Jackson, þjálfari LA Lakers, hefur þurft að punga út vænum summum í sektargreiðslur á vordögum.

Það er ekki langt síðan hann eitraði fyrir einvíginu gegn Oklahoma með því að lýsa því yfir að Kevin Durant fengi stjörnumeðferð hjá dómurum, en skömmu áður hafði hann hraunað yfir dómara undir lok deildakeppninnar.

David Stern tók fast í taumana þá og sektaði hann.

Jackson þurfti ekki á neinum svona yfirlýsingum að halda fyrir einvígið gegn Utah í annari umferðinni, en hann gat ekki stillt sig um að halda áfram þegar hann tjáði sig um einvígið við Phoenix í úrslitum Vesturdeildar.

Hann var spurður hvernig Lakers-liðinu gengi að undirbúa sig undir það að mæta Steve Nash.

"Það er erfitt að búa sig undir það. Við getum ekki leyft okkur að skrefa með boltann eins og hann," sagði Jackson.

Önnur yfirlýsing frá sigursælasta þjálfara í sögu NBA sem ber ekki beint vott um klassa.

Við biðum spennt eftir svari frá Phoenix. Eða öllu heldur engu svari. Svona yfirlýsingar eru ekki svaraverðar.

Nema þeim sé svarað fast til baka, líkt og Steve Nash sjálfur gerði í dag.

"Þið eruð að segja mér fréttir. Ég hef greinilega verið svona heppinn. Þetta hefur ekkert verið dæmt á mig hingað til. Besti þjálfarinn í deildinni fann ekkert athugavert við þetta í síðustu viku," sagði Nash og vísaði þar í Gregg Popovich, þjálfara San Antonio.

Líklega hefði verið best að sleppa því að svara þessu bulli frá Jackson, en við erum að meta svarið frá Nash.

Jackson má samt fara að sýna smá klassa. Ef hann á hann ennþá til. Þetta er orðið sorglegt.