Friday, May 14, 2010
Við hugsum upphátt um körfubolta meðan Cleveland fer til Benidorm
Ritstjórn NBA Ísland vill nota þetta tækifæri til að óska stuðningsmönnum Boston Celtics til hamingju með sætið í úrslitaeinvígi Austurdeildar eftir öruggan sigur á Cleveland í sjötta leik liðanna í annari umferð í gær.
Aðeins trufluðustu stuðningsmenn Boston og færustu miðlar hefðu þorað að spá fyrir um þessa niðurstöðu.
Það er óþarfi að skrifa langan pistil um þennan leik eftir hlemminn sem við skrifuðum eftir leik fimm.
Cleveland mætti tilbúið í þennan leik og sýndi baráttu og karakter í rúmar 46 mínútur, en liðið átti bara aldrei möguleika gegn sterkari liðsheild Boston. Hvorki í gær né í einvíginu öllu - og er því á leið til Benidorm.
Hvað stendur þá upp úr eftir þessa seríu?
Boston laug. Liðið er miklu betra en það var í deildakeppninni. Boston-liðið sem kláraði Cleveland núna er miklu líkara meistaraliði Boston frá 2008 en þessu drasli sem liðið var frá áramótum og fram á vorið.
Við bárum virðingu fyrir meistaraliði Celtics en sú virðing var að engu orðin þegar þessi úrslitakeppni byrjaði. Þess vegna spáðum við því að liðið félli úr leik gegn Miami í fyrstu umferð. Svona er lífið.
Cleveland er líka búið að fara illa með okkur í vetur. Við spáðum liðinu meistaratitli eins og mörg önnur fífl.
Cleveland er komið í flokk með liðum Phoenix og Dallas á undangengnum árum. Liðum sem stormuðu í gegn um deildakeppnina en strönduðu í úrslitakeppninni.
Þess ber að geta að við veðjuðum aldrei einu sinni á Dallas og Phoenix á sínum tíma. Stukkum ekki um borð í þá rútu. Þessi lið voru ekki nógu sterk varnarlið, höfðu ekki nógu öfluga "closera" (dæmi: Kobe Bryant), reynslu og drápseðli.
Cleveland var öðruvísi lið. Það rúllaði aftur í gegn um deildakeppnina í fimmta gír þrátt fyrir meiðsli og var spáð góðu gengi, en öfugt við Dallas og Phoenix hefur Cleveland verið mjög öflugt varnarlið, hafði mikla breidd og reynslu og er jú með einn LeBron James í sínum röðum - mann sem er besti leikmaðurinn á gólfinu í flestum seríum.
Þess vegna stukkum við um borð í Cleveland-lestina.
En hún fór nú út af sporinu annað árið í röð.
Og í þetta sinn virðast allir farþegar hafa týnt lífi.
Cleveland er búið að gera okkur að nógu miklum fíflum svo við förum að spá í hvað gerist hjá félaginu í sumar.
Liðið skeit á sig í úrslitakeppninni og leikmannamál eru óráðin, svo það er ótímabært að fara að spá í það.
LeBron James er auðvitað með lausa samninga og fjölmiðla-sirkusinn í kring um það mun yfirgnæfa allt annað fram í júlí.
Það eina sem er ljóst er að forráðamenn Cleveland þurfa að skoða sín mál mjög vandlega og byrja á því að reka Mike Brown. Hann er ekki maðurinn til að uppfylla metnað félagsins þó hann sé drengur góður. Það sýndi sig endanlega í einvíginu gegn Boston.
****
Það er ekki laust við að gæti timburmanna á ritstjórninni eftir þetta einvígi Cleveland og Boston.
Fjölmiðlasirkusinn og skrumið í kring um "endalok körfuboltans í Cleveland" var með þvílíkum ólíkindum að það mun taka fjölmiðla, sem og aðra, talsverðan tíma að gíra sig upp í að fara nú að fylgjast með aktúal körfubolta á ný.
Körfuboltinn er ekki dauður í Cleveland og LeBron James breyttist ekki í geimveru, flaug upp af blaðamannafundinum og sprakk í loft upp eins og margir áttu von á.
Það fór hinsvegar óstjórnlega í taugarnar á okkur að það eina praktíska sem James gerði á blaðamannafundinum eftir leikinn í gær var að hirða Gatorade-flöskurnar af borðinu og leggja þær niður á gólf.
James er með styrktarsamning við íþróttadrykkinn Vitamin Water og vildi því ekki láta mynda sig með Gatorade-flösku nálægt sér.
Hann var að tapa stærsta leik sínum á ferlinum, illa. Lið hans, sem hefur verið langbesta liðið í NBA í vetur, var tekið og rassskellt af gömlum hundum sem áttu ekki að eiga erindi í þessa seríu.
James svaraði engu á þessum blaðamannafundi. Vék sér fimlega undan öllu og svaraði í fyrirframákveðnum klisjum. Hafði ekkert að segja um hvernig stóð á því að liðið hans skeit á sig og hann gat ekkert gert til að aftra því. Það var ekkert passjón í honum. Hafi hann verið reiður eða tapsár - faldi hann það fullkomlega. Gaf ekkert.
Það eina sem hann passaði upp á var að láta nú ekki nappa sig á mynd með Gatorade-flösku nálægt sér.
Ef hægt er að finna eitthvað að LeBron James, er það nákvæmlega þetta.
Stundum er eins og hann sé uppteknari við að nostra við vörumerkið sitt en vinna í að verða einn af fimm bestu körfuboltamönnum allra tíma.
Við setjum ómannlega pressu á hann af því við sjáum að hann hefur hæfileikana til þess, en fram að þessu hefur hann ekki staðið undir væntingum okkar. Það er ekki auðvelt að vera LeBron James.
Flestir af bestu og sigursælustu körfuboltamönnum sögunnar voru létt geðveikir. Russell og Jordan eru gott dæmi um þetta. Þeir hefðu lamið ömmur sínar til að vinna - sama hvort það var í ólsen ólsen eða í lokaúrslitum NBA.
LeBron James hefur þetta ekki. Ekki enn að minnsta kosti.
En hann er nú bara 25 ára gamall. Ekki hengja hann alveg strax.
Við ætlum ekki að gera það.