Thursday, May 13, 2010

Cleveland-menn vottuðu saklausum fanga virðingu sína - á sinn hátt


Raymond Towler sat saklaus í fangelsi í næstum þrjátíu ár. Honum var stungið í fangelsi fyrir hræðilega nauðgun sem hann kom hvergi nálægt árið 1981 en DNA-rannsókn síðar meir sannaði sakleysi hans.

Towler var veitt full sakaruppgjöf á dögunum og hann því frjáls ferða sinna í fyrsta skipti í þrjá áratugi.

Dómarinn grét þegar hann tilkynnti Towler niðurstöðu málsins, bað hann afsökunar og minnti hann á að hann ætti möguleika á að höfða skaðabótamál.

Towler, sem er listamaður, tók þessu öllu saman með æðruleysi. Fagnaði því að réttlætið hefði sigrað að lokum þó það hefði tekið tíma. Ætlaði að eigin sögn að fara út og fá sér flatbökusneið með fjölskyldunni.

Forráðamenn Cleveland Cavaliers höfðu eðlilega veður af þessari ótrúlegu sögu. Vildu gera sitt. Buðu honum á fimmta leik liðsins gegn Boston í úrslitakeppninni á þriðjudagskvöldið.

Hann fékk að standa niðri á vellinum með leikmönnum þegar þjóðsöngurinn var leikinn. Falleg stund. Við vitum hvað tók við hjá heimamönnum eftir það.

 Leikmenn Cleveland vottuðu honum virðingu sína með því að tapa með 32 stiga mun - sem er um það bil stig fyrir hvert ár sem Towler sat saklaus í fangaklefa.

Hvað ætli aumingja Towler hafi hugsað þegar flautað var af - ef hann var þá enn í sæti sínu?

Hlýtur að hafa upplifað nýfengið frelsið á dálítið ofurraunsæislegan hátt.