Thursday, May 13, 2010

Verður aldrei aftur spilaður körfubolti í Cleveland?


Við höfum aldrei staðið frammi fyrir öðru eins verkefni eins og að reyna að skrifa eitthvað um fimmta leik Cleveland og Boston í gær.

Bara það að skrifa það aftur að Boston sé komið yfir 3-2 eftir 120-88 sigur í Cleveland, er nógu fáránlegt.

Það væri hægt að taka 1700 mis- munandi vinkla á þessi ótrúlegu úrslit.

Við höfum lesið allt sem skrifað hefur verið um þennan leik. Hvert einasta orð.

Enginn getur bent beint á hvað fór úrskeiðis hjá heimamönnum. Boston spilaði mjög vel en svona lagað á samt ekki að vera hægt. Boston átti fyrir það fyrsta aldrei að vinna leik í Cleveland og enn síður að vera með stöðuna 2-2 eftir fjóra leiki. Og alls, alls, alls ekki að vera yfir 3-2 eftir að hafa "gengið frá atvinnukörfubolta í Ohio-fylki" eins og sumir orða það (Cleveland tapar, LeBron fer til New York,  ekkert eftir nema loka Cleveland-sjoppunni og það allt saman).

Eins og búast mátti við, skiptist álit þeirra sem hafa skrifað um þessi ósköp í tvennt.

Þeir bjartsýnu segja benda á að einvígið sé auðvitað ekki búið, allir (LeBron) geti átt slæman leik og að heimavöllurinn skipti greinilega ekki öllu máli í þessari seríu.

Þeir eru eðlilega fleiri sem horfa á hálftómt glasið fyrir hönd Cleveland og LeBron James í framhaldinu. Og eins og þið ættuð að vera farin að sjá, er glasið ansi oft hálftómt í skrifum okkar hérna á síðunni. Hver ætlar að skamma okkur fyrir það í þessu tilviki? Það er ekki eins og Cleveland gefi nokkrum manni tilefni til bjartsýni með frammistöðu gærkvöldsins.

Flestir eru sammála um að það sé eitthvað að LeBron James.

Við tölum ekki um olnbogann á honum þó fjölmiðlar séu nú enn og aftur að reyna að búa til mál úr því hundleiðinlega atriði. Það er samt eitthvað að honum. James, meinum við.

LeBron átti ekki bara slæman leik - hann var ekki tengdur og hefur á tíðum ekki verið það í þessari seríu. Og þar tökum við stórbætta vörn Boston með í reikninginn.

James spilaði fimmta leikinn eins og hann væri með salmónellusýkingu eða eins og einhver hefði haldið fjölskyldu hans í gíslingu og hótað öllu illu ef Cleveland færi með sigur af hólmi.

-Er olnboginn á James í raun og veru í hakki eins og einhverjir fjölmiðlar héldu fram í kvöld?
-Er James búinn að ákveða framtíð sína og með hugann allan við brottför sína frá Cleveland?
-Er James meira með hugann við vörumerkið sitt en körfuboltaferilinn?

Sama hvernig á það er litið - þessi leikur fer ekki vel í ferilskrána hans ef Cleveland fellur úr leik. Og sérstaklega ekki ef þetta er síðasti heimaleikur hans í Cavs-búningi. Jæks!

En það er ekki bara James.

Allir eru sammála um að Mike Brown þjálfari Cleveland sé að skíta á sig í þessu einvígi.

Og því erum við hjartanlega sammála.

Það er ekki eitt, það er allt.

Hann er ekki að mótívera liðið. Sóknarleikurinn er í drasli (eins og allt of oft), skiptingarnar hjá honum eru fáránlegar og rótering hans á liðinu eftir að úrslitakeppnin byrjaði er öllum gjörsamlega óskiljanleg.

Það er líka grátlegt að með alla þessa sérfræðinga á hverju tré, skuli enginn geta komið út og sagt hvort Cleveland-liðið sé yfir höfuð lið sem sé nógu gott til að vinna titil eða ekki.

Við erum ekki sérfræðingar, en á lið sem vinnur 60 leiki ár eftir ár ekki að vera andskotans nógu gott til að keppa um titilinn? Sagan segir okkur það.

En saga síðustu daga segir okkur líka margt misjafnt um lið Cleveland.

Mo Williams er ekki að hjálpa Cleveland neitt. Hann er gagnslaus þegar skotin eru ekki að detta hjá honum og það er að gerast oft núna. Hann er skelfilegur varnarmaður og er því að taka meira frá liðinu gegn Boston en hann færir því. Williams er miklu frekar skorari en leikstjórnandi - og hann er ekki að skora núna.

Reiknaðu stærðfræðina.

Antawn Jamison er að skora eitthvað af stigum en hann er líka stór dragbítur á liðinu núna. Hann er að sýna allt of oft að hann virðist ekki hafa maga í það að skila sínu á ögurstundu. Og hann er að með gagnslausum varnarleik sínum að láta Kevin Garnett líta út eins og hann sé 25 ára.

Þetta síðasta er ekki hrós.


Shaquille O´Neal og Zydrunas Ilgauskas áttu sáralítinn þátt í því að Cleveland vann 60+ leiki í vetur. Hafa verið fjarverandi vikum og mánuðum saman á lokasprettinum. Af hverju eru þeir þá að spila allar þessar mínútur á móti Boston?

O´Neal er að skila þokkalegum tölum í sókninni, en ef hann kemur með eitt epli inn á borðið hjá Cavs með leik sínum - er hann að taka tvö eða þrjú út af því á sama tíma. Með því að vera jafn mikið fyrir LeBron James í sókninni og andstæðingum sínum í vörninni. Með því að vera allt of seinn í varnarleiknum. Með því að hitta illa úr vítum og síðast en ekki síst, með því að hægja á leik liðsins - nokkuð sem spilar beint upp í hendurnar á Boston.

Hvar eru Anderson Varejao, Delonte West og JJ Hickson? Þessir menn eiga að taka spilatíma frá ofangreindum leikmönnum en ekki öfugt.

Allar þessar pælingar um Cleveland eru ekki ótímabærar. Andinn í liðinu er ekki góður og það er flatt út sagt í vandræðum.

Það kæmi okkur ekkert á óvart þó Cleveland tapaði sjötta leiknum og félli smánað úr leik (með fullri virðingu fyrir Boston). 

En það kæmi okkur heldur ekkert á óvart þó Cavs færu til Boston og næðu í góðan sigur og kláruðu svo dæmið með 45 stigum í oddaleik á heimavelli.

Þessi úrslitakeppni er búin að vera svo undarleg að við erum alveg hætt að láta hana koma okkur á óvart.*

Við höfum áður séð lið verða meistara þó því hafi gengið illa í fyrstu umferðunum, en það er bara ekkert við þetta Cleveland lið núna sem segir að því verði afhentur bikar eftir fjórar vikur.


*-Síðari fullyrðingin í þessari setningu er haugalygi.