Thursday, May 13, 2010
Boston hafði okkur öll að fíflum
Við, eins og reynar flestir körfuboltaáhugamenn í heiminum, erum enn að reyna að átta okkur hvað gerðist í gær.
Þegar Boston rótburstaði Cleveland á útivelli 120-88 í fimmta leik liðanna í annari umferðinni.
Sú ótrúlega staða er komin upp að Boston getur tryggt sér sæti í úrslitum Austurdeildar með sigri á heimavelli sínum í leik sex.
Sá leikur er á miðnætti fimmtudaginn 13. maí og verður í beinni á Stöð 2 Sport.
Bara mikilvægasti leikur LeBron James á ferlinum og mikilvægasti leikur í körfuboltasögu Cleveland.
Stuðningsmenn Boston hafa verið að stríða okkur dálítið undanfarið. Benda réttilega á það að við jörðuðum liðið hvað eftir annað hérna á síðunni frá áramótum. En þeir vita það sjálfir að þeir áttu ekki von á þessu heldur.
Okkur er alveg sama hvað þú segir - ef þú segist hafa reiknað með því að Boston ætti eftir að komast í aðra umferð og slá Cleveland út af laginu (nú eða út úr úrslitakeppninni), hefurðu annað hvort ekki horft á einn leik með Boston milli jóla og páska - eða ert bara geðsjúklingur.
Boston spilaði AFLEITLEGA frá áramótum og fram að úrslitakeppni. Leikmenn virtust ekki nenna að vera inni á vellinum, liðið tapaði hvað eftir annað heima fyrir skítaliðum og allir virtust vera farnir að skipuleggja sumarfríið (nema Rajon Rondo). Spurðu hörðustu stuðningsmenn Celtics, þeir segja það sama.
Þú getur farið þá leið að segja að lykilmenn Boston séu nú loksins heilir og þess vegna sé liðið að spila svona vel núna, en þá hefðir þú líka rangt fyrir þér (þó það skipti auðvitað einhverju máli).
Boston hafði okkur öll að fíflum. Liðið tók rispu í haust, mjög góða rispu reyndar, en slökkti svo á aðalvélunum og lét reka fram á vorið.
Núna er liðið að reyna að gera það sem allir segja að sé ekki hægt. Að setja í gang þegar úrslitakeppnin byrjar.
Og hey - það gengur vel. Við vitum öll að það eru bara tvö ár síðan þessi sami kjarni leikmanna spilaði gríðarlega vel og vann titilinn. Af hverju ættu þeir þá ekki að geta spilað vel núna?
Við spurðum okkur að því sama lengi vel. Nú höfum við fengið svör við því.
Það hefur hentað Boston ágætlega að spila við Cleveland undanfarin ár og á því virðist ekki hafa orðið nein breyting.
Það eina sem hefur breyst er að Boston hafði okkur öll að fíflum með því að spila eins og hópur af vængstífðum dílaskörfum í hassvímu í fjóra mánuði til að telja okkur trú um að liðið væri búið að vera.
Það tókst.