Monday, May 17, 2010

Fréttaskot: Þú ert ekkert Ofurmenni, Dwight!


Það er með ólíkindum að "skemmtiatriðið" sem ABC (ESPN) sjónvarpsstöðin bauð upp á í hálfleik á viðureign Orlando og Boston í kvöld skuli ekki enn vera komið á youtube og aðra slíka miðla þegar þetta er skrifað.

Okkur misbauð þetta atriði.

Atriðið var í stuttu máli þannig að Dwight Howard tók viðtal við sjálfan sig. Annars vegar dubbaður upp sem Clark Kent og hinsvegar Ofurmennið (hann sjálfur). Sem sagt tveir Dwight Howard-ar.

Við munum ekki hvert umræðuefnið var, en það tengdist eitthvað hans eigin ágæti sem leikmanns og meintri ofurmennsku hans á körfuboltavellinum.

Atriðið var ekki bara kjánalegt, heldur sorglegt. Og ekki leit það betur út í ljósi þeirrar staðreyndar að Howard var jú að drulla á sig á vellinum bæði fyrir og eftir að atriðið var spilað í leik eitt gegn Boston.

En það er líka sorglegt af því Dwight Howard er alls ekki Ofurmennið.

Í fyrsta lagi hafa amk tveir leikmenn notað/fengið þetta viðurnefni á undan honum.

Þeir hafa unnið samanlagt tíu meistaratitla í NBA og annar þeirra er enn að spila og er með stórt húðflúr á upphaldleggnum máli sínu til stuðnings, þó hann sé nú fyrir nokkru kominn yfir sitt besta.

Við fáum dálítið tak í meðvirknina okkar í hvert sinn sem við erum með leiðindi út í Dwight Howard, því auðvitað er hann vænsti piltur. Gamansamur, góðhjartaður og hefur gaman að lífinu. Margir verri menn en hann í deildinni.

En þegar menn sem eru svona ofmetnir stela viðurnefnum sér eldri og reyndari manna án þess að eiga nokkra innistæðu fyrir því, haga sér eins og vitleysingar og fróa asnalegu egói sínu í nafni skemmtunar í miðjum leik þar sem þeir eru að gera upp á bak, getum við bara ekki sleppt því að tjá okkur um það.

Munið þið eftir atriðinu með Bill Russell og Kevin Garnett í úrslitakeppninni árið 2008? Það var dálítið kjánalegt, ok - mjög kjánalegt - en það var meining í því. Kevin Garnett sat þarna eins og hundur og át upp allt sem Russell sagði við hann. Af því hann bar/ber virðingu fyrir þeim gamla og hringjunum hans ellefu.

Það getur vel verið að atriðið hans Howard hafi bara átt að vera saklaus glens - og vissulega var það einmitt það, þó það væri ekki skemmtilegt - en þessi ungi maður þarf að fara að kíkja á forgangsatriðin sín.

Eins og við höfum 8947 sinnum tekið fram á þessu vefsvæði í vetur, á Howard eftir að einoka sæti miðherjans í úrvalsliði NBA næsta áratuginn af því miðherjastaðan er nær útdauð í NBA. Þessu fylgir mikil ábyrgð. Miðherjar í úrvalsliði NBA haga sér ekki eins og fávitar ef þeir geta ekki staðið sig inni á vellinum. Hagaðu þér eins og fífl þegar þú ert búinn að vinna eitthvað (sjá Shaquille O´Neal) eða kannski þróa eitthvað með þér sem heitir sóknarleikur.

Dwight Howard þarf að eyða minni tíma í vitleysu og meiri tíma í að vinna í leik sínum.

Howard er nú þegar orðinn ofmetnasti miðherji síðustu 30 ára í NBA deildinni.

Patrick Ewing var ofmetinn á sínum tíma, en hann er það ekki við hliðina á Howard. Getur huggað sig við þá staðreynd nú þegar hann er að reyna að kenna drengnum að spila körfubolta sem aðstoðarþjálfari.

Ewing hefði reyndar étið hann með morgunmatnum þegar hann var upp á sitt besta og þarf að segja drengnum það daglega og tvisvar á sunnudögum.

Við erum svona hörð við Howard af því það sjá það allir að hann á að geta miklu, miklu, miklu betur.

Af einhverri furðulegri ástæðu halda fjölmiðlar aftur af sér við að tæta Howard í sig. Kannski af því þeir vita að hann er eina von Bandaríkjanna um almennilegan miðherja. Kannski af því hann er svo næs og vinsæll. Nú eða af því þeir vita innst inni að hann er bara meingallaður leikmaður en því miður er ekkert annað í boði.

Hvað um það. Howard þarf að fara að pappíra sig. Þetta getur ekki gengið svona mikið lengur. Gaurinn er að drulla á sig og það þarf einhver að fara að tala um það.

Ekki segja að við séum ekki búin að því.