Monday, May 17, 2010

Boston heldur áfram að vinna körfuboltaleiki


Þá eru undanúrslitin í NBA farin af stað. Boston náði í kvöld 1-0 forystu gegn Orlando í úrslitum Austur-deildar með mjög þýðingarmiklum 92-88 sigri á útivelli.

Þetta var leikurinn sem Boston átti að sækja og liðið gerði það. Orlando-liðið hafði ekki spilað í næstum viku eftir 8-0 skemmtisiglingu í gegn um vanhæfa andstæðinga í fyrstu tveimur umferðunum, en í kvöld lenti Magic-liðið í klónum á alvöru körfuboltaliði.

Og tapaði.

Varnarleikurinn sem Boston bauð upp á lengst af í þessum leik var ekkert minna en frábær. Celtics-piltar gengu að prímusmótornum í Orlando liðinu, tóku hann úr sambandi og spörkuðu honum á hliðina.

Boston getur reyndar spilað betur en það gerði í kvöld, sem er kannski áhyggjuefni fyrir Orlando. Heimamenn geta líka spilað betur og munu eflaust gera það í leik tvö - sem er auðvitað algjör möst-leikur fyrir þá.

Boston getur leyft sér munað sem Charlotte og Atlanta (svo dæmi séu nefnd) geta ekki - það er að verjast Howard mestmegnis einn á einn. Og þegar það er gert - lokast mikið til á þriggja stiga skyttur Orlando.

Við skiljum ekki af hverju lið tvídekka Howard svona mikið, því hann er allt nema afleitur sóknarmaður. Við munum ekki eftir því að hann hafi unnið marga leiki á ferlinum með sóknarleik sínum og því ekki ástæða til að ætla að hann fari að byrja á því núna.

Kallið okkur viðvaninga (og það erum við sannarlega), en við áttum okkur ekki á þessu.

Vince Carter var stigahæstur hjá Orlando, hitti úr helmingi skota sinna og keyrði meira að segja á körfuna í leiknum! Hann verður laminn í gólfið í næsta leik og gerir þetta þá væntanlega ekki aftur. Mun ekki eiga annan leik með 50% skotnýtingu í þessu einvígi. Þú last það hér (eins og að Cleveland yrði meistari 2010).

Já, við tókum eftir innkomu JJ Redick í þessum leik. Það er ekkert nýtt að hann komi inn og geri fína hluti fyrir þetta lið.

Og við tókum líka eftir frammistöðu Dwight Howard (3-10 í skotum, 7-12 í vítum, 13 stig, 7 tapaðir boltar). Enn minna nýtt á ferðinni þar. Ekki nema von að hann hafi fengið atkvæði frá sínu fólki sem verðmætasti leikmaður deildarinnar (eins og LeBron James frá NBA Ísland).

Boston-vélin mallaði líka þokkalega í sókninni, þó hún hóstaði aðeins á lokasprettinum og hleypti spennu í leikinn.

Ray-Ray (Allen) heldur bara áfram að bæta við fallegan gagnabanka sinn með enn einum huggulega leiknum (og ísaði leikinn á vítalínunni í lokin).

Paul Pierce átti mjög ökonómískan leik í sókninni.

Tony Allen heldur áfram að vinna sér inn Tommy (Heinsohn) punkta með kraftmiklum innkomum.

Þá verður ekki skafið af þeim Perkins, Wallace og Davis, sem stóðu vaktina mjög vel í því að loka miðjunni.

Rasheed Wallace laumaði líka inn 13 stigum í bónus og Doc Rivers þjálfari þorir ekki annað en að taka undir yfirlýsingar leikmannsins sjálfs - að hann hafi verið fenginn til liðsins til að spila vel í úrslitakeppni - ekki í deildakeppninni.

Segðu það sem þú vilt, Wallace mun aldrei vinna sér inn þá virðingu sem hann telur sig eiga skilið á þessari ristjórn. Aldrei.

Leikur tvö í þessari rimmu, sem er síður en svo falleg eins og áhorfendur sáu í kvöld, verður óhugnanlega áhugaverður.

Fólk var byrjað að tala um Celtics-Lakers úrslitaeinvígi um leið og Boston náði 20 stiga forystu í þessum leik.

Bíðum nú aðeins með þær spár, en úr því sem komið er - er sú pæling ekki sú vitlausasta í heimi.

Hugsið ykkur bara...