Tuesday, May 25, 2010

Orlando vill spila meiri körfubolta


Orlando náði að halda lífi í úrslitakeppninni í kvöld með 96-92 seiglusigri á Boston í framlengdum leik fjögur í Garðinum. Staðan því 3-1 fyrir Boston.

Orlando-liðið hefði auðveldlega getað velt sér grenjandi í gólfið og tapað þessum leik,  en sýndi síðbúið hjarta og en gerði það ekki.

Við verðum að gefa Magic-mönnum smá kúdos fyrir að sýna neita að fara í sumarfrí, þó þessi nýfundna seigla komi auðvitað allt of seint.

Til að gera langa sögu stutta var það veggurinn og veltan (Nelson-Howard) sem var munurinn á Orlando-liðinu í þessum leik. Meiri hreyfing og hraði. Howard (32/16/4) fær sérstakt hrós frá okkur fyrir að druslast loksins til að spila upp í skrumið. Þristarnir tveir hjá Nelson (23/9) í upphafi framlengingar voru stórir þó þeir væru ekki fallegir og virkuðu dálítið eins og óðagot. En hvað eiga menn að gera þegar Vince Carter (1-9, 3 stig) á að vera helsta sóknarvopn liðsins.

Það má vel vera að Orlando hafi loksins spilað betur en við, eins og kvikindin sem við erum, skrifum þetta tap á Boston-liðið. Boston átti að vinna þennan leik.

Paul Pierce var frábær í fyrri hálfleik, en það dró mjög af honum í síðari. Hann reyndi að bera sóknina uppi en hafði ekki gas í það. Ray Allen kom með góðar bombur undir lokin en það dugði ekki.

Varnarleikur Boston var ekki eins grimmur í kvöld og í fyrstu þremur leikjunum, en það sem gerði (ó)gæfumuninn fyrir þá grænu var að Rajon Rondo náði sér ekki á strik.

Skrifum við það á meiðslin hans eða villuvandræði? Nei. Hann gerði það amk ekki sjálfur í viðtölum eftir leik.

Þetta fær okkur til að hugsa aftur um mikilvægi Rondo fyrir Celtics. Hann var ekki jafn grimmur og hann hefur verið til þessa í einvíginu og Boston hikstar verulega um leið. Okkur þykir þetta undirstrika enn frekar hvað þessi snáði hefur a) verið að spila hrikalega vel og b) hvað hann er ómetanlegur Celtics-liðinu.

Það sem gat verið huggulegur sópur er því allt í einu orðið allt önnur sería.

Boston á eftir að laga sig að breyttum áherslum Nelson og Howard og allt það, en það er bölvað vesen fyrir þessa gömlu fauska að þurfa að þvælast aftur niður til Orlando - alveg sama þótt þeir hafi unnið báða leikina þar til þessa.

Boston hefði alveg geta notað smá frí, en nú þarf liðið helst að vinna þriðja útileikinn í röð í Orlando til að missa þessa seríu ekki upp í eitthvað vesen.

Gefum okkur það í smá stund að Orlando finni nú fjalirnar sínar á heimavellinum og nái í annan sigur - eitthvað sem er alls ekkert ómögulegt. Þá er leikur sex í Boston allt í einu orðinn hálfgerður úrslitaleikur fyrir heimamenn, því ekki nenna þeir að þurfa enn og aftur til Orlando og klára dæmið í sjö leikja slöggfesti.

Svona er þetta skrítið. Maður fer á kostum, vinnur tvo á útivelli, kemst í 3-0 og allir fara að syngja "Beat LA", en svo tekur maður fótinn af bensíngjöfinni í smá stund og þá er bara orðið drullu stutt á milli Óskars og Ófeigs á ný.

Þetta er sérstakur leikur.