Monday, May 24, 2010
Phoenix afstýrði neyðarástandi á kústamörkuðum
Strákústarnir eru uppseldir í útibúum Byko og Húsasmiðjunnar í Bandaríkjunum eftir undarlega og óþolandi sópvertíð í úrslitakeppni NBA deildarinnar árið 2010.
Því var það öllum mikill léttir í kvöld þegar Phoenix minnkaði muninn í 2-1 í einvígi sínu við LA Lakers í úrslitum Vesturdeildar með 118-109 sigri á heimavelli. Öllum nema stuðningsmönnum Lakers auðvitað.
Phoenix notaði eina vopnið sem það gat gripið til, svæðisvörnina. Og keyrði á henni. Það virkaði.
Lakers-liðið setti félagsmet í þriggja stiga skotum (32) en nýtti aðeins 9 þeirra. Phoenix tjaldaði á vítalínunni og var +22 í vítaskotum. Þessa tölfræði má að hluta til skrifa á alla þessa svæðisvörn.
Lakers-liðið var með 31% skotnýtingu í 42 sóknum gegn svæðisvörn Phoenix í leiknum en 56,6% nýtingu í 63 sóknum gegn maður á mann vörn samkvæmt tölfræðideild ESPN. Og þú ert að velta því fyrir þér af hverju Phoenix fór í svæðisvörnina (Lakers skaut 58% í fyrstu tveimur leikjunum).
Kobe (36/9/11) og Gasol (23/9) héldu uppteknum hætti hjá Lakers og spiluðu undurvel og Fisher var sprækur framan af (18), en þá er það upptalið hjá meisturunum. Andrew Bynum gerði ekkert og Artest og Odom gátu ekki refsað Phoenix í svæðinu (er ekki upplagt að nota Luke Walton á móti svæðisvörn?).
Amare Stoudemire hefur fengið það óþvegið frá okkur í þessu einvígi en hann var líkari sjálfum sér í þessum leik (42/11). Amare í árásarham er viðskotaillt fyrirbæri og það var hann svo sannarlega í þriðja leiknum.
Okkur þykir ljóst að Phoenix mun ekki vinna þessa seríu með svona vörn, en er á meðan er. Channing Frye þarf áfallahjálp. Heimavöllurinn gerði honum ekkert og það var ljóst á fyrstu múrsteinahleðslu hans í þessum leik. Grátlegt, því hann er gríðarlega mikilvægur fyrir Suns til að teygja á vörn Lakers. Búinn að klikka á einhverjum 17 skotum í röð í einvíginu. Ekki að þétta hlutabréfin sín. Kominn í John Starks-landhelgi með þetta.