Tuesday, May 18, 2010

Lakers-Suns er að byrja... núna!


Það varð aldrei neitt úr því að við hituðum upp fyrir einvígi LA Lakers og Phoenix hérna á vefnum.

Það er orðið full seint þar eð leikurinn er að byrja þegar þetta er skrifað.

Kannski slepptum við því að koma með spá af virðingu við stuðningsmenn Lakers.

Við höfum nefnilega verið á þeirri skoðun alveg frá byrjun að Lakers-liðið myndi vinna þetta einvígi nokkuð örugglega (t.d. 4-2).

Ef marka má spádómsgáfu ritstjórnarinnar hingað til í úrslitakeppninni, þýðir það væntanlega að Phoenix vinni einvígið 4-1.

Styrkur Phoenix (Nash-Stoudemire) spilar reyndar inn á veikleika Lakers-liðsins (veggs-og-veltu-varnarleikur), en við tippum á að hæð Lakers-liðsins fyrst og fremst (og svo reynsla og drápseðli) muni klára þessa seríu.

Þeir gulu sýndu okkur spretti í Utah-seríunni sem gáfu til kynna að þeir væru í ágætu standi.

Það hefur samt verið mjög fyndið að fylgjast með fjölmiðlaumræðu um þessa seríu síðustu daga. Það talar enginn um Lakers. Bara um Suns og mögulegakannskimöguleika liðsins í einvíginu. Mjög spes.

Phoenix-liðið er hlaðið höfðingjum og góðum drengjum og við óskum því alls hins besta í þessari erfiðu rimmu.