Monday, May 31, 2010

Grunnt á því góða milli Boston og L.A.


Það verða LA Lakers og Boston Celtics sem leika til úrslita um NBA meistaratitilinn árið 2010. Fyrsti leikur verður á fimmtudagskvöldið.

Þetta verður í tólfta sinn sem stórveldin leika til úrslita, en Boston hefur unnið 9 af 11 fyrri viðureignum liðanna á stóra sviðinu.

Öll þessi töp fyrir Boston voru kannski kveikjan að þessari eldfimu bloggfærslu sem birtist á vef LA Times, en var skömmu síðar tekin út eftir að hún olli miklu fjaðrafoki í netheimum. Þykir ekki fyndið að gera grín að því þegar Paul Pierce var stunginn forðum.

Vonandi verður ekki búið að fjarlægja hana endanlega þegar þú smellir á tengilinn hér fyrir ofan.

Það er ekki á hverjum degi sem liðin sem mætast í úrslitum NBA hata hvort annað, en sú er raunin að þessu sinni. Og hatist leikmenn liðanna, er það ekkert í líkingu við eldinn sem logar milli stuðningsmanna liðanna.

Lamar Odom hjá Lakers telur þannig ólíklegt að hann geti boðið skutfríðri eiginkonu sinni á leikina í Boston af ótta við að hún verði fyrir aðkasti stuðningsmanna Celtics.