Monday, May 31, 2010

NBA Ísland er með lausa samninga í sumar


Traffíkin á NBA Ísland hefur aldrei verið meiri. Það er gaman að segja frá því að flettingar á vefnum í maí fóru yfir 25.000 nú undir kvöldið.

Þær munu fara yfir 100.000 í heildina um það bil sem Lakers og Celtics hefja leik í lokaúrslitunum á fimmtudagskvöldið.

Þetta er ekki tölfræði sem sprengir samræmda vefmælingu Modernus-manna en við hérna á ritstjórninni erum ákaflega ánægð með hve vel þessu litla framtaki okkar hefur verið tekið síðan það hóf göngu sína í desember.

Við nutum þess vissulega að vera kynnt til sögunnar á visir.is, kki.is og karfan.is en þess utan hefur hróður síðunnar og traffík skapast af orði götunnar mann fram af manni. Lesendur hafa líka verið ákaflega duglegir að senda okkur tölvupósta með ábendingum og jákvæðum anda yfir skrifum okkar. Fyrir það erum við ákaflega þakklát eftir sem áður. Við eigum mjög dannaða og jákvæða lesendur ef marka má viðbrögðin.

Skrifin hafa verið þétt hérna í allan vetur þrátt fyrir mótbyr í formi t.d. tölvuhruns og veikinda og hér hafa dottið inn ein til fimm færslur á hverjum einasta degi frá því hafist var handa í upphafi leiktíðar.

Við höfum enn ekki ákveðið hvað tekur við eftir að úrslit liggja fyrir í júní, né heldur með næsta vetur. Það tekur sannarlega sinn toll að halda svona fyrirtæki gangandi. Tæplega verður síðunni lokað, en það er annað hvort það eða að bæta í og gera enn betur næsta vetur. Það veltur á ýmsu. Ok, það veltur mikið á því hvort við getum orðið okkur út um stuðningsaðila. Það er bara þannig. Og það er ekki okkar sterkasta hlið.

Kannski getur þú hjálpað. Kannski vilt þú leggja okkur lið. Við viljum ekki hljóma eins og Omega, en við þurfum á hjálp að halda við að halda skútunni á floti. Ef þú hefur góðar hugmyndir þessu tengt, máttu endilega senda okkur línu á nbaisland@gmail.com

Takk fyrir að fylgjast með.

kveðja,
ritstjórn NBA Ísland