Tuesday, May 18, 2010
Phoenix á erfitt verkefni fyrir höndum
Fyrsti leikur LA Lakers og Phoenix Suns í úrslitum Vesturdeildar í gær, gaf ekki góð fyrirheit fyrir seríuna. Fyrir þá sem halda með Suns.
Þetta er bara einn leikur og allt það, en það sem við sáum í gær var nokkurn veginn í takt við það sem við höfðum reiknað með.
Þessi svokallaði bætti varnarleikur Phoenix var hvergi sjáanlegur og hæð Lakers-liðsins og drápseðli gerði það að verkum að þetta var langt kvöld fyrir Suns-menn.
Þú vinnur ekki LA Lakers þegar Kobe skorar 40 stig í 23 skotum, Lamar Odom gælir við 20/20 leik og Pau Gasol klikkar varla á skoti.
Phoenix getur spilað betur og á eflaust eftir að gera það, en Lakers-liðið er ekki að fara að tapa þessari seríu.
Phil Jackson, þjálfari Lakers, hefur 46 sinnum á ferlinum komist yfir 1-0 í einvígi í úrslitakeppninni. 46 sinnum hefur lið hans unnið. Þar af eru 22 af þessum seríum með LA Lakers - restin með Chicago Bulls.
Flestir blaðamenn sem staddir voru á leiknum í gær voru sammála um að stemmingin í Staples Center hefði verið grátlega léleg - ekki betri en á merkingarlausum deildarleik.
Það eina spennandi sem gerðist í áhorfendastæðunum var þegar leikarinn David Arquette lenti í slagsmálum við stjörnudólg nokkurn, sem illa tókst að yfirbuga.
Hvað þarf að gera til að koma Jessica Alba og Alyssa Milano í vatnsslag?
Það var mjög áhugavert að sjá borðann sem rann yfir skjáinn í íþróttafréttunum á Stöð 2 í kvöld þar sem leikur LA Lakers og Phoenix Suns var auglýstur í beinni útsendingu "í kvöld."
Þetta er alls ekki rétt.
Orlando og Boston eru að spila í kvöld. Lakers og Suns mætast öðru sinni á miðvikudagskvöldið og sá leikur, sem og restin af þessari seríu, verður sýndur beint á stöðinni.
Gætið þess að fylgjast með á NBA Ísland þegar kemur að dagskránni, hana er alla að finna hér og látið endilega vini og vandamenn vita af því.
Svo skorum við á fólk sem hefur gaman af NBA deildinni að skella sér á Twitter og ganga í lið með NBA Ísland þar. Þið sjáið ekki nema brot af því besta frá okkur á Twitter hér á síðunni og það er afar hressandi að fylgjast með gangi mála þar meðan leikir standa yfir - og bara alltaf, reyndar.