Sunday, May 23, 2010

Orlando sér svart í faðmi grænu kyrkislöngunnar









Boston hefur náð 3-0 forystu gegn Orlando í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar í NBA. Sigur Celtics var aldrei í hættu í þriðja leiknum í Boston í gær. Heimamenn leiddu frá fyrstu mínútu og unnu að lokum auðveldan 94-71 sigur.

Þriðji leikurinn var leikur sem Orlando varð að vinna úr því sem komið var, en Boston byrjaði vel og hélt sig við upptekinn sið að sparka í hreðjar andstæðingsins strax í byrjun. Leikmenn Orlando gáfust upp í þessu einvígi í gær. Það er bara þannig.

Við erum því komin yfir það að reyna að telja saumana í peysunni sem er leikur Orlando Magic. Það er gagnslaust að tala um strategíu héðan í frá. Ekkert sem liðið gerir héðan af mun breyta gangi þessa einvígis.

Orlando er eins og mánaðar gamalt dádýr í helgjargreipum svangrar kyrkislöngu. Í hvert sinn sem þeir reyna að slá frá sér, herðir Boston kyrkislangan bara takið. Orlando er búið að missa andann og veit að spilið er búið. Bíður bara eftir að sjá svart og kveðja þennan heim.