Thursday, May 20, 2010

Félagsfræðileg úttekt á körfubolta í austri og vestri


Það hefur löngum verið talsverður munur á körfuboltanum sem spilaður er á austur- og vesturströnd Bandaríkjanna.

Nærtækasta dæmið um þetta er einvígi Boston Celtics og LA Lakers á níunda áratugnum. Þar stangaðist á harður naglabolti austursins og glamúrbolti vestursins.

Þetta reyndar dálítið í takt við steglingsmyndir úr amerískri þjóðarsál.

Svona eins og þegar þú mætir í gleðskap í ljótum fötum.

Í Los Angeles segði viðmælandi þinn "Nei, váááá - ógó flott föt. Gaman að sjáááá þiiiig. Ekk´allt gott að fréééttaaa? Æðisleeeegt." En um leið og þú snýrð þér undan fer hann að baktala þig og spyrja hvaða fáviti hafi eiginlega boðið þér í samkvæmið.

Undir sömu kringumstæðum í New York myndi viðmælandi þinn líklega mæla þig út með vanþóttasvip og spyrja; "Bíddu, klipptirðu þessa fatagarma af líkinu af ömmu þinni? Ertu vangefinn?"

Snúum okkur aftur að körfubolta, áður en bæði Comte og Durkheim fara heilhring í gröfum sínum.

Dæmigerð austurlið undanfarinna ára eru Boston níunda áratugarins, Ódælu drengirnir í Detroit í kring um ´90, New York-fantarnir um miðjan tíunda áratuginn, meistaralið Detroit frá ´04 og svo núverandi útgáfa Boston-liðsins.

Í vestrinu höfum við auðvitað glanslið Magic Johnson og co frá níunda áratugnum, Sacramento-liðið um aldamótin, Dallas-lið Dirk Nowitzki og Phoenix-hraðalestina hans Steve Nash, svo einhver séu nefnd.

Af hverju erum við að velta þessu upp?

Jú, í fyrsta lagi vegna þess að sumir lesenda okkar eru ef til vill svo ungir eða óreyndir að þeir átta sig ekki á þessu.

Og í öðru lagi af því einvígin sem við erum að fylgjast með núna í austri og vestri bera svo rosalega sterkan keim af ofangreindum fabúleringum.


Einvígi Boston og Orlando er rosalega austurstrandarlegt. Og það er af því Boston ræður ferðinni í rimmunni. Orlando er miklu meira vesturlið - svona eins og sigursælt lið San Antonio undanfarinna ára minnir meira á austurlið.

Boston spilar ekta austurbolta og það er hann sem er að drepa Orlando. Við viðurkennum það fúslega að okkur þótti boltinn sem Boston spilaði á köflum í deildakeppninni álíka skemmtilegur og gyllinæð. En þegar komið er í úrslitakeppnina og liðið spilar alvöru austurbolta - með tilheyrandi hörku, slagsmálum og þú munt ekki komast lifandi út úr þessari seríu-varnarleik - þá er gaman. Eintóm fegurð. Algjör klassi.

Leikir Orlando og Boston hafa verið slöggfest og slagsmál út í gegn, en þeir hafa samt verið ljómandi skemmtilegir. Þessir fyrstu tveir leikir hafa verið miklu meira einvígi en leikirnir tveir í LA.

Rimman í vestrinu gæti ekki mannlega mögulega verið ólíkari þeirri í austrinu.

Ef Doc Rivers hefði horft upp á sína menn gera jafn mörg mistök í vörninni í leikjunum tveimur við Orlando og Phoenix hefur gert í einum leikhluta gegn Lakers (völdum af handahófi) væri Rivers búinn að kveikja í bílnum hans Brian Scalabrine og segja af sér.

Rimma Lakers og Suns er hreint út sagt ekki sama íþrótt og verið er að spila fyrir austan.

Þýðir það að hún sé leiðinlegri? Hreint ekki. Meira tempó, fleiri mistök í vörninni, fleiri tilþrif, miklu hærra stigaskor. Hvar er vandamálið?

Þetta gæti vissulega verið jafnara einvígi, en öfugt við slaginn fyrir austan, er Phoenix nú að fara í leiki 3 og 4 á huggulegum heimavelli sínum, þar sem fregnir herma að Channing Frye geti til dæmis hitt körfuhringinn úr langskotum.

Orlando er að fara til Boston, þar sem grjótharðir stuðningsmenn liðsins munu leggja sitt af mörkum til að brjóta niður afganginn af særðu stolti Magic-manna í Garðinum á laugardagskvöldið.

Það er orðið afskaplega vinsælt að tala um Lakers og Celtics  lokaúrslitum þetta árið.

Það var vinsælt umræðuefni fyrir annan leik Lakers og Suns, en eftir að Lakers moppaði gólfið í Staples með Phoenix í leik tvö í nótt, er ekki talað um annað.

Vissulega lítur það þannig út núna.

Almenn skynsemi segir að Boston eigi auðveldara verkefni fyrir höndum en Phoenix út af heimavellinum, en við sjáum það á hinn veginn.


Phoenix hlýtur fjandakornið að vinna annan heimaleik sinn, þó liðið eigi í besta falli stjarnfræðilega möguleika í einvíginu.  Ástæðan fyrir því að við tippum frekar á að eitthvað rætist úr rimmu Boston og Orlando er sú að Boston hefur ekki verið sérstaklega sannfærandi á heimavelli, Orlando er fínt á útivöllum og spilar nú með mun minni pressu á sér en áður. Svo hlýtur bara að fara að koma að því að Boston eigi off-leik eftir að hafa verið með hakkavélina í botni svona lengi.

Hvað sem gerist á næstu dögum, erum við varla að fá leik sjö í undanúrslitunum. Ótrúlegt að aðeins ein rimma hafi farið í sjö leiki til þessa. Já, þetta er rosalega slöpp úrslitakeppni, það verður bara að viðurkennast. Stórfurðuleg úrslitakeppni, en slöpp. Við gerum nánari úttekt á því eftir lokaúrslitin þegar við gerum úrslitakeppnina upp.

Þar fá nokkur lið að kenna rækilega á því *hóst*Cleveland*hóst*Atlanta*hóst*Dallas*hóst* osfv.