Þetta er Warriors-liðið sem vann meistaratitilinn í fyrra og 73 sigra á nýafstaðinni leiktíð og Kevin Durant - maðurinn sem er búinn að vera topp 3 leikmaður í NBA deildinni undanfarin ár. Einmitt.
Warriors-ófreskjan þarf að sjá á eftir Harrison Barnes, Festus Ezeli og Andrew Bogut til að búa til pláss fyrir Durant, en þegar þetta er ritað er félagið komið langt á veg með að tryggja sér þjónustu Zaza Pachulia og David West til að stoppa upp í götin sem þremenningarnir skilja eftir sig.
Enginn getur fullyrt um það hvernig þessi ráðstöfun á eftir að koma út fyrir varnar- og sóknarleik Warriors í framtíðinni, en þeir eru ekki margir sem reikna með að þetta verði flókið dæmi. Eitt besta varnar- og sóknarlið deildarinnar - og sögunnar - varð rétt í þessu MIKLU betra.
Uppstillingin Curry, Thompson, Iguodala, Durant og Green er á pappírunum langbesta sóknarlið sem sett hefur verið saman í sögu deildarinnar. Á pappírunum.
Heldur þú að flæðandi sóknarleikur Golden State með Durant innanborðs eigi allt í einu eftir að verða stirðbusalegur og lélegur? Ekki við heldur. Við þurfum ekki og nennum ekki, að þefa uppi tölfræði fyrir lengra komna til að sýna ykkur að jafn atkvæðamiklar en um leið ökónómískar skyttur/skorarar hafa aldrei sést áður á körfuboltavelli.
Fyrst um sinn er þetta auðvitað allt á pappírunum og það vinnur enginn titla á pappírunum, en það gæti orðið bæði skemmtilegt, en síðan vandræðalegt að horfa á varnir hinna 29 liðanna í NBA eiga við þessa ófreskju sem búið er að setja saman í Oakland.
Eins og við var að búast, eru hatursfullir og neikvæðir netverjar komnir úr felum og skiptast á að hrauna yfir Kevin Durant fyrir að velja auðveldu leiðina eins og LeBron James gerði forðum, nema hvað þeim er enn meira niðri fyrir núna. Durant gekk til liðs við óvininn og er náttúrulega lopasokkur og gunga fyrir vikið.
Við erum orðin allt of gömul til að velta okkur upp úr slíku.
Önnur holskefla er líka farin af stað, en það er kórinn sem syngur um að þetta sé allt Russell Westbrook að kenna. Ef hann hefði ekki verið svona vondur og eigingjarn og mikill fáviti (osfv), hefði þetta aldrei gerst.
Kommon. Við nennum ekki svoleiðis.
Niðurstaðan hér er sú að við erum komin með ofurlið allra ofurliða í NBA deildina. Við höfum oft séð stór nöfn taka sig saman og elta titla, en það gerist oftar en ekki þegar menn eru komnir hátt á fertugsaldurinn - ekki þegar meðalaldur stjörnuleikmanna liðsins er í kring um 27-28 ár.
Þessar sérstöku aðstæður sem myndast í NBA deildinni við þessar ógurlegu hækkanir á launaþakinu og hagstæðir leikmannasamningar (Stephen Curry) gera Warriors kleift að fara þessa áður óséðu leið.
Niðurstaðan verður alveg örugglega eitthvað sem á eftir að skemmta okkur fram undir morgun á hverri nóttu næstu árin.
Skál í boðinu.