Þegar úrslitakeppnin í NBA er upp á sitt versta, er hún dálítið eins og pizza. Oft fær maður pizzu sem er ekkert spes, en pizza er alltaf pizza og hún slær á hungrið og veitir einhverja (litla) næringu, þó hún sé kannski ekki best í heimi í það skiptið. Það má alveg eins setja kynlíf inn í þessa jöfnu í stað flatböku, fyrir þau ykkar sem borða ekki flatbökur.
Við ætlum að vona að einhver ykkar lesi NBA Ísland að staðaldri af þvi þið treystið því að við segjum ykkur sannleikann um deildina okkar. Við reynum alltaf að gera það - vera samkvæm sjálfum okkur og kalla endur endur og erni erni.
Og það þarf enga sérfræðinga til að segja ykkur að úrslitakeppnin í NBA 2017 er búin að vera afskaplega döpur og ef við eigum að vera alveg hreinskilin, er þetta mögulega ein slappasta úrslitakeppni sem við munum eftir á seinni árum.
Það þurfti hvorki Nasa-starfsmenn né Nóbelsverðlaunahafa til að spá því strax í haust að líklega ættum við eftir að fá lokaúrslit með sömu liðunum þriðja árið í röð. Cleveland færi þangað þriðja árið í röð af því það spilaði í Austurdeild sem var svo mikið drasl að ekkert lið gæti ógnað því.
Golden State kæmist ekki hjá því að komast þangað eftir að það bætti Kevin Durant í leikmannahóp sinn - og þá alveg sama hvort það yrðu meiðsli í herbúðum liðsins eins og á síðustu leiktíð eða ekki. Já, margir urðu hreinlega reiðir og sögðu að tímabilið væri ónýtt og kenndu Kevin Durant helst um allt saman.
Því miður gengu þessar spár eftir í deildarkeppninni, því Golden State fræsti sig í gegn um deildarkeppnina og náði besta árangri allra liða í deildinni með lítilli fyrirhöfn, þó San Antonio hafi þó veitt því sæmilegt aðhald lengst af í vetur.
Og þessar leiðindaspár hafa mestmegnis gengið eftir í úrslitakeppninni, því þegar þetta er ritað, eru Golden State (10-0) og Cleveland (9-0) enn taplaus í úrslitakeppninni og hafa ekki aðeins verið miklu betri en allir andstæðingar sínir, heldur hafa þau líka verið miklu heppnari en andstæðingarnir (með meiðsli).
En ætlun okkar með þessum pistli er ekki að greina undanúrslitin eða úrslitin, það kemur síðar, heldur ætlum við að renna stuttlega yfir hvað gerðist í annari umferð úrslitakeppninnar. Og já, við erum í alvörunni að spá í að reyna að gera þetta stuttlega að þessu sinni, þó þessi langloka okkar hérna í byrjun gefi sannarlega merki um eitthvað allt annað.*
Látum okkur sjá. Byrjum fyrir austan eins og venjulega:
CLEVELAND 4 - TORONTO 0
Andstæðingar Cleveland í austrinu eru löngu búnir að gera sér grein fyrir því að það útheimtir ákveðna auðmýkt að mæta LeBron James og félögum í úrslitakeppninni. Toronto-liðið er eitt þessara liða og eftir þessa nýjustu rimmu þessara liða er lúbarinn og vælandi hundur, liggjandi á götunni, fyrsta myndlíkingin sem kemur upp í hugann þegar við hugsum um þetta einvígi.
Við vitum vel að Kyle Lowry var meiddur og missti af megninu af seríunni. Hann er besti leikmaður Toronto og því vantar að sjálfssögðu ansi mikið í Kanadaliðið ef hans nýtur ekki við. Vitið þið hvað? Það skiptir samt ekki nokkru einasta helvítis máli.
Þetta Toronto lið - sem var meira að segja búið að sækja sér liðsstyrk sem átti að hjálpa til við að veita Cleveland meiri keppni - hafði aldrei, aldrei trú á því að það gæti unnið Cleveland. Ekki einu sinni í sínum villtustu draumum.
Og þetta fundu James og félagar, sem voru byrjaðir að leika sér að Toronto liðinu eins og háhyrningar að vönkuðum selskóp þegar aðeins örfáar mínútur voru liðnar af leik eitt.
Það var hreinlega átakanlegt að horfa upp á þetta. Toronto liðið var ekki jafn vonlaust og karakterslaust og Atlanta hér um árið, en við vorkenndum Snareðlunum frá fyrsta leik. Þær höfðu ekkert í þessa rimmu að gera og hefðu alveg eins getað setið heima.
Það er eitt að tapa seríu, annað að gera sig nánast að fífli. Það er stór munur þarna á, eins og við munum koma að síðar í þessum pistli. Sóp er ekki endilega það sama og sóp, sjáið þið.
Nú eru gríðarlega stórar ákvarðanir á döfinni hjá Toronto. Forráðamenn félagsins þurfa að ákveða hvort þeir ætla að framlengja samningana við nokkra af lykilmönnum sínum, þar sem Kyle Lowry og samningurinn hans stendur auðvitað hæst.
Toronto er nú þegar með 7. hæsta launakostnaðinn í NBA deildinni en ef félagið ætlar að framlengja við alla sína menn, fer það svo hátt yfir launaþakið að það þyrfti líklega að borga lúxusskatt sem nemur launakostnaði 2-3 félaga í viðbót. Það gefur augaleið að það er ekki raunhæfur valkostur og þó ekki væri nema bara þess vegna, er augljóst að breytinga er að vænta hjá Toronto.
Auðvitað eru stuðningsmenn Toronto og ansi margir hlutlausir í netheimum, löngu byrjaðir að öskra upphátt og heimta að forseti körfuboltamála hjá félaginu Masai Ujiri sprengi liðið algjörlega upp og byrji upp á nýtt.
Flestir tippa á að Dwane Casey þjálfari verði látinn fara í sumar (persónulega erum við nokkuð hissa á því að hann skuli enn halda starfi sínu) og að Raptors verði með duglegri félögum á markaðnum í sumar. Gallinn er bara að það lítur enginn við mannskapnum hjá þeim og tæki sennilega ekki við honum gegn greiðslu.
Útlitið hjá Toronto er ekki alveg svart, það eru nokkrir ungir leikmenn í hópnum sem gefa einhverja ástæðu til bjartsýni, en það er ljóst að aðalliðið hans Casey með þá Lowry og DeRozan í fararbroddi, er bara ekki að gera sig þegar kemur að úrslitakeppni, þó þeir vinni 50 leiki í svefni í deildarkeppninni.
Hér komum við að þessari sígildu spurningu sem alltaf er fyrst fram á varirnir þegar kemur að því hvort félög eiga að halda baráttunni áfram með óbreytt lið eða stokka allt upp á nýtt. Það er hvort félagið treystir sér til þess að bjóða stuðningsmönnum sínum upp á þau óhjákvæmilegu ár sem framundan eru ef taka á ákvörðun um að byrja upp á nýtt.
Og félög á borð við Toronto eru einfaldlega mjög rög við að fara út í svo drastískar aðgerðir, af því forráðamenn félagsins muna enn allt of vel hvernig það var að vera skítalið sem enginn tók alvarlega, átti enga aðdáendur alþjóðlega, enga stjörnuleikmenn og aldrei komst í úrslitakeppnina.
Á þessum ógeðslega stað var Toronto um árabil og rétt eins og er með LA Clippers og við sögðum ykkur frá í vesturhelmingi uppgjörsins um 1. umferðina, eigum við erfitt með að sjá að stjórn Toronto hafi kjark í að fara í dramatískar aðgerðir þegar hún er með 50 sigra lið í höndunum - alveg sama hversu ógeðslega LeBron James niðurlægir það á hverju einasta vori.
Það er ekki eins og þetta sé eitthvað skemmtileg staða sem þeir eru í, aumingja Toronto-mennirnir. Það er ekki víst að sé ljós í enda ganganna, hvora leiðina sem þeir velja.
BOSTON 4 - WASHINGTON 3
Einvígi Boston og Washington átti fátt sameiginlegt með jarðarförinni í Toronto, því fyrir það fyrsta voru þar á ferðinni tvö körfuboltalið sem voru áþekk að styrkleika. Munurinn á liðunum var bara tvíþættur þegar upp var staðið - og allt hugsandi fólk gat sagt sér það fyrir einvígið - Boston var með heimavallarréttinn og var, öfugt við Washington, með körfuboltamenn á varamannabekk sínum sem voru með mælanlegan púls.
Við þurfum ekki að hafa mörg orð um þetta Washington-lið. Það er reyndar eitt af fáum liðum í NBA deildinni sem geta borið höfuðið sæmilega hátt eftir veturinn, sem reyndist í raun ljómandi fínn þrátt fyrir tap fyrir Boston í oddaleik annarar umferðar úrslitakeppninnar.
Liðið byrjaði afleitlega í haust, en eins og flest ykkar vita, var Washington eitt heitasta lið deildarinnar eftir áramótin og stóð sig með ágætum í úrslitakeppninni. Nú, það er alveg eins með Washington og 90% liðanna sem á annað borð geta eitthvað í NBA deildinni, liðið er ekki með varamannabekk af því það hefur ekki efni á því.
Og nú þarf það að fara að framlengja samninga við menn eins og Otto Porter ef við munum rétt, leikmann sem kemur til með að heimta samning sem lauslega áætlað mun færa honum eitthvað í kring um tuttuguhundruð trilljarða í vikulaun og því gefur augaleið að svigrúmið er ekki andskoti mikið - afsakið orðbragðið (við verðum stundum svona æst þegar við vinnum með mjög háar fjárhæðir).
Það er alltaf dálítið gaman að sjá lið með stjörnur í yngri kantinum sem eru að ryðja sér til rúms í NBA deildinni og það var afskaplega forvitnilegt að sjá Washington fara með Boston í sjö leiki. Ef Washington hefði náð að vinna þennan oddaleik, hefði sigurinn markað algjör tímamót á ferlinum hjá mönnum eins og Bradley Beal og John Wall.
En eins og flest ykkar sáuð fyrirfram, var Washington ekki nógu gott til að vinna í Boston í leik sjö. Þannig er þetta jú 80% af tímanum. Heimaliðið vinnur helvítis oddaleikinn, mestmegnis af því það er á heimavelli, þar sem leikmönnum og sérstaklega aukaleikurum, líður betur að spila en á útivelli. Spyrjið bara kanadíska viðrinið með síða hárið.
Ætli sé ekki alveg eins gott að þið lesið það hér eins og þurfa að upplifa það næsta vetur, en við vörum stuðningsmenn Washington eindregið við því að fara að byggja einhverjar skýjaborgir núna.
Eins og við sögðum ykkur, er svigrúm félagsins til að gera eitthvað í leikmannamálum lítið, en ofan á það er eitthvað sem segir okkur að þeir Wall og Beal (og fleiri) verði ekki jafn heppnir með meiðsli á næsta tímabili eins og þeir voru í vetur.
Meiðsli hafa alltaf verið stærsti faktórinn í eymd Washington-liðsins og það er eitthvað í spilunum hjá okkur núna sem segir að næsta leiktíð verði dálítið í þeim dúr hjá þeim. Það er ógeðslegt að segja svona, en þetta er bara svo æpandi í spilunum hjá okkur núna að við urðum bara að skjalfesta það.
GOLDEN STATE 4 - UTAH 0
Allar vonir um að þetta einvígi yrði spennandi fuku út um gluggann þegar ljóst varð að leikstjórnendabölvun Golden State frá árinu 2015 ætlaði að taka sig upp á ný. Utah hefði getað gert þetta einvígi pínulítið áhugavert með alla sína menn heila, þá erum við að tala um að vinna kannski einn leik - tvo í draumalandinu - sem sagt, láta Warriors aðeins hafa fyrir hlutunum.
Jú, jú, Golden State menn þurftu svo sem að hafa aðeins fyrir því að sópa Utah, en meiðsli George Hill, leikstjórnanda Utah, þýddu að það sem hefði getað orðið 4-1 herramannssóp, varð raunverulegt sóp.
Utah átti aldrei möguleika í þessu einvígi og hefði ekki átt möguleika í því með George Hill spilandi sinn besta bolta á ferlinum, en liðið barðist þó að minnsta kosti og lét finna fyrir sér, í stað þess að kasta sér grenjandi í gólfið eins og Diego Costa og biðjast vægðar eins og lið eins og Toronto.
Það var eins með þetta einvígi eins og einvígið á undan og veturinn allan hjá Utah. Þeir gátu ekki teflt fram sama liðinu tvo leiki í röð í allan vetur vegna sífelldra meiðsla og því má eiginlega segja að árangur liðsins þegar allt er talið hafi bara verið nokkuð góður.
Rétt eins og hjá Clippers og Toronto og fleiri liðum, eru stórar spurningar sem bíða svara hjá liði Utah. Stærsta spurningin er hvað Gordon Hayward ákveður að gera í sumar, en hann er með lausa samninga og getur því farið til hvers þess liðs sem mun bera víurnar í hann í sumar.
Þó Hayward muni útheimta há laun, geta þó væntanlegir vinnuveitendur hans prísað sig sæla yfir því að hann hafi ekki verið valinn í eitt af úrvalsliðum ársins í deildinni, því það hefði þýtt að næsti samningur hans byrjaði ekki nema í þíu þrilljörðum í árstekjur - í stað þeirra bíu-undruð og brilljón brilljarða bæði og grilljarða sem hann hefði átt rétt á ef hann hefði náð því að vera valinn í eitt áðurnefndra liða.
Hawyard er afskaplega góður leikmaður, líklega betri en þig grunar, en hann er engin súperstjarna eða neyðarkarl og því er ljóst að launatékkinn hans mun verða litinn hornauga á einhverjum tímapunkti í framtíðinni.
Hayward er samt maður sem skilur alltaf allt sem hann á eftir inni á vellinum og stuðningsfólk hans, hvort sem það verður í Utah eða Boston eða Búrúndí, á því eftir að fyrirgefa honum fyrir að þiggja þessi háu laun þangað til hann fer að standa í vegi fyrir því að liðið hans komist á næsta þrep í úrslitakeppninni.
Fyrir utan óvissuna með Gordon Hayward, er stærsta vandamálið á borðinu hjá forráðamönnum Utah líklega það að þeir hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru með í höndunum ennþá. Þeir þurfa að splæsa ansi háum upphæðum ef þeir ætla að halda George Hill áfram hjá félaginu og svo styttist í að þeir þurfu að fara að gera upp hug sinn með nokkra af ungu leikmönnunum í hópnum.
Gallinn við það er að þeir eru allir alltaf meiddir, svo það veit enginn hvort þeir eru nógu góðir til að nýtast liðinu eða ekki. Hvað flesta þeirra varðar, er það síðari möguleikinn, en eins og við sögðum ykkur í upphafi, eru erfiðar ákvarðanir framundan hjá Utah og fæstar þeirra bera með sér útkomu sem á eftir að styrkja liðið næsta vetur eða á næstu árum.
Utah er einfaldlega ekki markaður sem landar stjörnum eða mönnum með lausa samninga yfir höfuð, svo þeir verða áfram að treysta á að geta fundið sér einhverjar perlur í fjóshaugnum sem er nýliðavalið eins og venjulega.
Þetta lið verður áfram í vandræðum með meiðsli allan næsta vetur, sem þýðir að það getur ekki unnið fleiri en 53-55 leiki (í stað 60+ sem það hefði unnið ef það hefði þurft að díla við eðlileg meiðsli í vetur en ekki meiðslafaraldur), en það er svo sem allt í lagi eftir magra tíð undanfarinna ára.
SAN ANTONIO 4 - HOUSTON 2
Með fullri virðingu fyrir Boston og Washington, var viðureign San Antonio og Houston lang áhugaverðasta rimman í annari umferð úrslitakeppninnar og niðurstaða einvígisins, vekur upp heilu vagnana af spurningum.
Eins og þið munið kannski, byrjaði einvígið þannig að Houston gjörsamlega skaut San Antonio í kaf á útivelli í leik eitt. Þetta kom mörgum á óvart og varð til þess að þeir furðulega mörgu sem spáðu Houston sigri í einvíginu byrjuðu að rífa kjaft.
Þið vitið hvað við erum löngu, löngu hætt að gera, er það ekki? Jú, það er rétt. Við erum löngu hætt að vanmeta/drulla yfir San Antonio, af því við höfum fengið það svo oft til baka í andlitið í formi grútskítugrar, blautrar og kaldrar tusku.
Þessi rimma reyndist ógurleg skák milli þeirra Gregg Popovich og Mike D´Antonio, sem auk þess að reyna að leika hvor á annan á hefðbundinn hátt með öllum þjálfaratrixunum í bókunum, þurftu að leika af fingrum fram af því þeir misstu báðir lykilmenn í meiðsli á einhverjum tímapunkti í seríunni.
Til að gera langa sögu stutta, náði Houston að tapa einvíginu þrátt fyrir að hafa verið með pálmann í höndunum síðasta einn og hálfan leikinn í því eða svo, þegar Kawhi Leonard þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla.
Ekki misskilja okkur, San Antonio breytist ekki allt í einu í eitthvað drasl lið þó að Kawhi Leonard njóti ekki við, en einhver hefði haldið að Houston hefði getað gengið á lagið í fimmta leiknum í San Antonio, þar sem það tapaði í framlengdum leik þar sem Leonard meiddist um miðjan þriðja leikhluta.
Einhver og amma hans líka, hefðu líka haldið að Houston gæti jafnað metin í einvíginu í 3-3 í leik sex á heimavelli, jafnvel þó það hefði kannski ekki haft það sem þurfti til að vinna í San Antonio í oddaleik.
En, nei.
Houston tapaði sjötta leiknum, þar sem Kawhi Leonard, besti leikmaður San Antonio og mögulega einn af fimm bestu körfuboltamönnum heims, spilaði ekki eina mínútu, með eitthundraðogfjórtán stigum gegn sjötíuogfokkíngfimm. 114-75. Á heimavelli, grátandi upphátt.
Þetta var afskaplega flottur og sannfærandi sigur hjá San Antonio og við skulum ekki taka neitt af Kawhi-lausu Spursliðinu að fara svona á heimavöll erkifjenda sinna og slátra þeim.
En kommon!
Eins og við var að búast, beindust öll spjót að James Harden að leik loknum, enda spilaði hann eins og dílaskarfur á smjörsýru í leiknum.** Það var ljóst mjög snemma í þessum leik hvert stefndi, að Harden ætlaði að eiga það sem við eigum því miður eftir að kalla Harden-leik í framtíðinni.
Maðurinn sem líklega á eftir að enda í öðru sæti í kjörinu á verðmætasta leikmanni tímabilsins í NBA deildinni (niðurstöðurnar verða kynntar í sérstökum þætti sem Vanilla Ice mun stjórna á ÍNN 18. október 2084), tók tvö skot allan fyrri hálfleikinn, hitti úr öðru þeirra og missti boltann fimm sinnum.
Nei, þetta er ekki í fyrsta skipti sem Harden verpir eggi í úrslitakeppni eins og kaninn orðar það, en þessi frammistaða hans og raunar Houston-liðsins alls, kostaði líklega verstu niðurlægingu sem liðið hefur fengið í fimmtíu ára sögu félagsins. Toronto-liðið að leggjast í völlinn og skrækja "ekki í andlitið!" á móti LeBron James? Það var viðbúið. Þetta? Þetta var með því verra sem við höfum séð.
Og til að bæta hvítu ofan á svart, mætti James Harden á blaðamannafundinn eftir sjötta leikinn í hettupeysu sem kostaði 125 þúsund krónur. Svörin sem Harden gaf á fjölmiðlafundinum þegar hann var spurður af hverju hann skeit á völlinn, meikuðu nákvæmlega jafn mikinn sens og að mæta á blaðamannafund í 125 þúsund króna hettupeysu. Ekki bara vanvirðing við fátækt fólk, heldur bara svo mikil andskotans vitleysa að það er leitun að öðru eins. Kræst, sko!
Haturskórinn var sannarlega ekki að hata þetta. Við erum ekki alveg viss um hvað það var sem Mike D´Antoni ræfillinn gerði fólkinu í kjarna Haturskórsins, en það hefur baulað á hann í áratug og mun halda því áfram. Og þetta tap Houston var sannarlega vatn á myllu þessa fólks, sem sagði að þetta 3ja stiga skotæði myndi aldrei virka í úrslitakeppninni.
Það er í sjálfu sér rétt að hluta til, en það eru fleiri breytur í dæminu en það. Við heyrðum fólk tala um það að Houston hefði spilað vel í einvíginu við Oklahoma, en við erum algjörlega ósammála því. Ef þið spyrjið okkur, náði þetta Houston lið sér aldrei almennilega á strik í þessari úrslitakeppni, ef nokkrir sprettir eru undanteknir (t.d. fyrsti leikurinn gegn San Antonio).
Munið þið hvað við sögðum ykkur áður en úrslitakeppnin byrjaði? Við sögðum ykkur að það væru þjálfarar þarna úti sem væru skíthræddir við að mæta Houston í úrslitakeppninni, því þeir vissu að liðið myndi dæla upp svo mörgum þriggja stiga skotum að ef það hitti á góðan dag - og sérstaklega ef það hitti nú á 2-3, eða guð forði okkur FJÓRA, góða daga - gæti það skotið hvaða lið sem er í NBA deildinni gjörsamlega í kaf.
Well, þessir góðu dagar urðu ekki mjög margir þegar til kastanna kom og þannig vill það oft vera í úrslitakeppninni, þegar lið eyða miklu meiri tíma í að kynna sér spilamennsku mótherjans og kortleggja hana í þaula og varnarleikurinn er miklu harðari, lætin yfir höfuð miklu meiri.
Þegar svo er, minnka líkurnar á því að við sjáum 3ja stiga sýningar einfaldlega mjög mikið. Houston skaut enda ekki nema 33% (10. sæti af 16) sem lið í úrslitakeppninni, eftir að hafa skotið tæp 37% í deildarkeppninni í vetur (15. sæti af 30).
Það hjálpaði Houston-mönnum sannarlega ekkert að missa Nene karlinn í meiðsli í einvíginu við San Antonio, en við leggjum það ekki að jöfnu við Tony Parker- og síðar Kawhi Leonard-leysi Spurs-manna. Það væri ósanngjarnt að segja að Houston hafi átt að vinna þetta einvígi - San Antonio var jú með talsvert betri árangur í vetur og því heimavöllinn og allt það - en það er ekki hægt annað en að fara í smá þunglyndiskast yfir því hvernig leiktíðin endaði hjá Rockets.
En það er ekki jafn erfitt að laga til hjá Houston og þið gætuð haldið. Það fyrsta sem þarf að gerast til að Houston nái árangri í úrslitakeppni, en að James Harden þarf að koma sér í almennilegt form! Þó að frammistaða James Harden í sjötta leiknum skrifist sennilega meira á andlega þáttinn en þann líkamlega, sáum hvað áberandi dæmi um það leik eftir leik í þessari úrslitakeppni að James Harden varð einfaldlega bensínlaus í 4. leikhluta og það kostaði Houston oftar en ekki sigurinn.
Við vitum að nú eru einhver ykkar að kasta tómötum og leikfangalestum í tölvuskjáinn og bölva okkur í sand og ösku, spyrja hvort við höldum virkilega að maður sem er búinn að fara fyrir liði sínu í allan vetur og spila allar þessa leiki og allar þessar mínútur, sé virkilega ekki í formi!?!
Þessu fólki svörum við svona: Horfið bara á leikina. Sönnunin er í búðingnum, eins og sagt er.
Houston á eftir að taka enn fleiri þriggja stiga skot á næstu leiktíð en í ár, því Mike D´Antoni er enn geðveikari en Daryl Morey þegar kemur að langskotakenndum og kenningum. Houston setti NBA met í vetur með því að reyna yfir fjörutíu þriggja stiga skot að meðaltali í leik en heimildir okkar herma að D´Antoni vilji helst að sú tala sé nær fimmtíu! Ekki vanmeta þann gamla, hann væri alveg nógu klikkaður til að prófa það.
Við vitum ekki alveg af hverju, en við erum ekki alveg eins neikvæð á framhaldið hjá Houston og við ættum kannski að vera. Staðreyndin er náttúrulega sú að Houston hefur það fram yfir mjög mörg lið í deildinni að það veit nákvæmlega hvernig það vill spila og sú spilamennska og sá mannskapur sem er til staðar er nóg til að tryggja liðinu heimavöll í 1. umferð úrslitakeppninnar.
Ætli við verðum ekki að gefa Harden og D´Antoni amk einn séns í viðbót áður en við krossfestum þá, þó Harden sé eiginlega kominn úr góðu bókunum hjá okkur þegar kemur að úrslitakeppninni. Hann getur betur og hann verður að gera betur ef þetta lið á að taka næsta skref.
Harden verður að vera í almennilegu formi, spila einhverja smá vörn, sýna að hann geti verið almennilegur leiðtogi í þessu liði (hann brást gjörsamlega í því hlutverki gegn San Antonio) og reyna að koma á almennilegum sigurkúltúr í liðinu.
Þetta eru ansi miklar kröfur á einn mann, en það voruð þið sem voruð að spyrja. Það voruð þið sem vilduð vita hvað Houston þyrfti að gera til að komast á næsta stig í úrslitakeppninni.***
--------------------------------------------------------------------------------------------------------
* - Þetta tókst auðvitað með glæsibrag, svona eins og Sunderland bjargaði sér frá falli úr ensku úrvalsdeildinni - með glæsibrag!
** - Þið veltið því ef til vill fyrir ykkur hvernig standi á því að við erum svona vel að okkur í vísindaflokknum sem helst væri hægt að kalla áhrif ávana- og fíkniefna á sjófugla, en það er eins með það eins og svo margt annað hjá okkur hérna á ritstjórninni - við leynum á okkur.
*** - Þetta er haugalygi, þið spurðuð ekki rassgat, en stundum verðum við bara að impróvísera til að gera þetta prógramm aðeins líflegra. Ykkur er annars frjálst að kasta fram spurningum sem þið kynnuð að hafa, hvort sem er um íslenska varpfugla eða úrslitakeppni NBA deildarinnar. Það er mjög ólíklegt að við svörum þeim, en netfangið er nú samt nbaisland@gmail.com. Við höfum alltaf gaman af því að heyra frá ykkur.