Friday, May 26, 2017

NBA Ísland gerir upp undanúrslitin


Undir nánast öllum kringumstæðum hefðum við skrifað tvo pistla til að gera upp undanúrslitaeinvígin í úrslitakeppni NBA deildarinnar. En þó þessi pistill verði sjálfssagt fjórum sinnum lengri en hann þarf að vera eins og allir okkar pistlar, segir það sína sögu um úrslitakeppnina í ár að það er algjör óþarfi að skrifa sitthvorn pistilinn til að gera upp austur og vestur. Einn er yfirdrifið nóg.

Úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar lauk í nótt þegar Cleveland gjörsamlega slátraði Boston Celtics í Boston, að þessu sinni 135-102. LeBron James og félögum leið einfaldlega miklu betur í leikjunum í Boston í þessu einvígi, sem er í besta falli stórfurðulegt, en engu að síður staðreynd.Ef framtíð Celtics væri ekki jafn björt og raun ber vitni, væru þessi ljótu töp liðsins á heimavelli meira að segja kjörin ástæða til að skella sér í gott þunglyndi eitthvað fram eftir sumri.

Lið sem nær besta árangrinum í Austurdeildinni nokkuð óvænt, kemst í úrslit austursins nokkuð óvænt og er með fyrsta valrétt í nýliðavalinu í sumar, gæti svo sem ákveðið að fara í þunglyndiskast, en það yrðu sett lög á það undir eins líkt og lögreglumenn sem ætluðu í verkfall.

Nei, það gekk allt of margt upp hjá Celtics í vetur og vor svo þeir hafi efni á að fara í þunglyndiskast. Var súrt fyrir þá að spila ekki mínútu gegn Cleveland í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar án síns besta sóknarmanns? Vissulega. Var fúlt að það voru fleiri leikmenn hjá Boston en bara Thomas sem voru meiddir? Vissulega. Hefði 100% heilsa þessara manna breytt útkomunni á þessu einvígi? Aldrei.Þessi sprettur Celtics-manna í úrslitakeppninni núna var ekki annað en generalprufa fyrir það sem koma skal hjá liðinu. Þeirra ár er ekki í ár og ekki á næsta ári heldur, hvort sem þið sættið ykkur við það eða ekki. Markmið Danny Ainge var ekki að vinna titil á þessu ári, því það sér hver manneskja að ef svo hefði verið, hefði hann skipt einhverju af valréttunum sem liðið á uppi í erminni fyrir leikmann á borð við Jimmy Butler eða Paul George, ef við gefum okkur að þeir hefðu verið falir yfir höfuð (sem er alls ekkert víst, hvað sem slúðursögur segja).

Í stað þess að horfa svo stutt fram á veginn, ákvað Ainge hinsvegar að einbeita sér að langspilinu og það er hárrétt ákvörðun að okkar mati. Trúið okkur, ef Ainge stendur eitthvað gott til boða til að gera Boston liðið að alvöru áskoranda í nánustu framtíð, mun hann ekki hika við að stökkva á tækifærið.En eins og staðan er núna, er hann að horfa lengra fram á veginn. Og það er ekkert sem bendir til annars en að Boston (þökk sé glórulausri ákvarðanatöku eiganda Brooklyn Nets á sínum tíma) sé í langbestum málum allra liða í Austurdeildinni ef Cleveland er undanskilið, akkúrat í augnablikinu.

Öll umræða um Boston Celtics í ár og í nánustu framtíð er alltaf fljót að fara í farveg sem kemur málinu ekkert við, alveg eins og hún gerði akkúrat núna hjá okkur. Meiningin var að skoða árangur liðsins í úrslitakeppninni í ár, en auðvitað byrjum við strax að hugleiða framtíðina hjá þeim. Umræðan um Boston fer nefnilega alltaf annað hvort út í valrétti í nýliðavalinu eða framtíð Isaiah Thomas.

Ef við sleppum því, er ekki hægt að segja annað en að þetta lið hafi farið fram úr björtustu væntingum í vetur. Það er okkar skoðun og eins og þið vitið, sjáum við glasið næstum alltaf hálftómt, svo við erum alveg harðákveðin í að Celtics hafi gert vel í vetur.En þó Boston hafi farið fram úr væntingum, þýðir það þá samt ekki að liðið hafi ógnað Cleveland á nokkurn hátt í úrslitakeppninni, því það gerði það alls ekki.

Cleveland lauk í nótt við eitthvað það undarlegasta heiðursmanna-sóp sem við höfum nokkru sinni séð og við eigum aldrei, aldrei eftir að gefa okkur með þá samsæriskenningu að LeBron James hafi ákveðið að gefa þriðja leikinn til að ná sér í smá pening í Vegas í ljósi þess að stuðullinn á Boston-sigur í leiknum var sá hæsti í Las Vegas í áratugi.

Einvígi Boston og Cleveland var svo ójafnt að lýsendur nær og fjær voru á köflum uppteknari við að leika sér að því að fylgjast með ferðalagi LeBron James upp tölfræðimetalistana.

Í nótt náði hann ansi merkum áfanga þegar hann fór upp fyrir Michael Jordan og varð stigahæsti leikmaður allra tíma í úrslitakeppni.

Það er ekki dónalegt afrek hjá manni sem aldrei hefur litið á sig sem skorara, per se, og hefur alltaf leitast við að koma liðsfélögum sínum inn í leikinn alveg eins og honum sjálfum.

Manni sem hefur alltaf fundist körfuboltinn vera liðsíþrótt sem snerist um að spila "á réttan hátt" og finna besta skotið.

Þessi grundvallarmunur á LeBron James og Michael Jordan (sem var auðvitað skorari númer eitt, tvö og þrjú, körfuboltalegur böðull sem var lengi að tileinka sér "leyndarmálið" svokallaða) - manni sem er fyrirmynd hins svokallaða hetjubolta í dag.Það má vel vera að Austurdeildin sé búin að vera eitt allsherjar andskotans rusl megnið af árunum sem LeBron James er búinn að spila í NBA deildinni, en það breytir því ekki að sú staðreynd að maðurinn sé að fara í sín áttundu lokaúrslit og nú sín sjöundu í röð, er eitt af bestu rökunum fyrir því að hann sé í raun og veru geimvera. Við erum alltaf að bíða eftir því að LeBron James missi til dæmis af eins og einum leik í úrslitakeppni af því hann snýr sig á ökkla eða eitthvað. En, nei.

Úr því að allir virðast vera sæmilega heilir í liði meistaranna, gerir það sjálfssagt ekkert til þó liðið hafi þurft að spila þennan aukaleik við Boston, því lokaúrslitaeinvígið byrjar því miður ekki fyrr en eftir vikutíma - sem er ömurlegt - en ætti að vera gott fyrir einvígið og gæði spilamennskunnar. Allir hvíldir, ferskir og flottir.Eins og þið getið rétt ímyndað ykkur, hefur það farið óstjórnlega í taugarnar á okkur að fyrstu þrjár umferðirnar í þessari úrslitakeppni eru búnar að vera þær lang, lang, langlélegustu sem við höfum nokkru sinni séð.

Til gamans ætluðum við að rifja upp hvaða úrslitakeppni á undangengnum árum hefði komist næst þessari í leiðindum, en fórum strax að hlæja af því við föttuðum strax að við höfum einfaldlega aldrei áður upplifað að fyrstu þrjár umferðirnar í úrslitakeppninni hafi verið drasl. Aldrei. Ever. Ekki einu sinni nálægt því.

En skítur skeður, eins og þeir segja og við vitum að lokaúrslitin verða betri og úrslitakeppnin strax á næsta ári verður miklu betri. Það er bara þannig, krakkar. Ykkur er óhætt að treysta því.Annað hefur þó farið miklu meira í taugarnar á okkur og það er að hatursflokkurinn sem byrjaði að hatast og væla út í NBA deildina og hvað það væri fyrirsjáanlegt hvaða lið færu í úrslit, jafnvel áður en Kevin Durant skipti um heimilisfang, er nú að fá risavaxna skvettu af bensíni á litla haturseldinn sinn.

Hefðum við fengið önnur lokaúrslit ef enginn leikmaður hefði meiðst í úrslitakeppninni? Líklega, en þó er ómögulegt að segja um það. Cleveland hefði vaðið í gegn um austrið með lokuð augun, en það er mjög forvitnilegt að hugsa til þess hvað hefði gerst í einvígi San Antonio og Golden State ef Kawhi Leonard hefði ekki meiðst.

Við megum ekki gleyma því að San Antonio var að rúlla Golden State upp á útivelli þegar Leonard meiddist - og Leonard er ekki bara besti leikmaður Spurs, heldur einn besti körfuboltamaður heims og ekki mjög langt frá því að vera besti alhliða leikmaður (sókn + vörn) heims. Það munar um svona gutta - og líka menn eins og Tony Parker, hvort sem þeir eru komnir af léttasta skeiði eður ei.En við skulum ekki vera að velta okkur of mikið upp úr þessu helvíti. Það er tilgangslaus gremjuvaldur. Þið skulið ekki voga ykkur að halda því fram að við segjum hlutina ekki eins og við sjáum þá - að við tölum ekki íslensku þegar við erum að tala um deildina okkar. Þessi úrslitakeppni er búin að vera fokkíng drasl og það er ekkert andskotans ef eða hefði með það.

En sem betur fer eru lokaúrslitin eftir. Því miður gætum við fengið eitthvað sem allir yrðu sammála um að yrði besta úrslitaeinvígi allra tíma, en það myndi ekki geta lagað heildarmyndina á þessari úrslitakeppni, hún er það mikið drasl, en við getum þó amk farið brosandi inn í þunglyndið í sumar ef við fáum góða úrslitaseríu. Hún þarf reyndar að verða helvíti góð til að toppa þá sem við sáum í fyrra, en það eru gæði til staðar til að gera þetta að hrikalegri seríu. Og við erum ekki bara að segja það til að reyna að moka yfir hræið sem úrslitakeppnin er búin að vera.Þið þurfið ekki annað en að skoða mannskapinn sem er að fara að taka þátt í lokaúrslitunum til að sjá að þarna er ekki á ferðinni neinn stórfiskaleikur - hér erum við að tala um alvöru körfubolta með alvöru stjörnufans. Þessi sería Warriors og Cavaliers verður stútfull af goðsögnum, heiðurshallarmeðlimum verðandi, stjörnuleikmönnum, sérvitringum og spesíalistum á öllum sviðum.

Í ljósi þess sem á undan er gengið, getum við alveg viðurkennt það fyrir ykkur, kæru lesendur, að við erum logandi hrædd um að lokaúrslitaeinvígið standi ekki undir væntingum. Það eru ekki miklar líkur á því af því liðin eru bæði svo sterk, en það eina sem gæti fokkað þessu einvígi upp, væri ef það yrði einhverra hluta vegna rosalega ójafnt.

Og við erum skíthrædd um að það gæti orðið ójafnt, af því að á pappírunum, á ekkert körfuboltalið í heiminum - hvort sem það er með LeBron James í sínu besta formi eða ekki - að eiga fræðilegan möguleika á að vinna fullmannað lið Golden State Warriors í sjö leikja seríu.

Við vitum alveg að það verður ekkert lið meistari á pappírunum og við vitum alveg hvað gerðist í fyrra og við vitum alveg að það er ekkert rosalega gáfulegt að veðja á móti LeBron James. Við vitum það alveg, andskotinn hafi það! Við erum ekki fædd í gær!

Við erum hinsvegar búin að fylgjast með þessu Golden State liði í vetur, sjá hvernig það er búið að keyra í gegn um þessa úrslitakeppni og við vitum líka hvað þetta lið á inni!

Já, já, við vitum að allir mótherjar Warriors á þessum metspretti liðsins í gegn um vestrið voru vængbrotnir á einn eða annan hátt, en þú getur ekki litið í spegil og haldið því fram að neitt þessara liða hefði í alvörunni unnið Warriors - er það? San Antonio? Gott og vel, það hefði kannski orðið alvöru sería, en við sjáum ekki hvernig Spurs hefðu átt að vinna hana.Ef við eigum að vera alveg hreinskilin - eins og við erum alltaf við ykkur - þá er bara eitt atriði sem aftrar okkur frá því að spá því að Golden State vinni yfirburðasigur í þessari rimmu (í fjórum eða fimm leikjum). Og það er að Warriors-liðið er ekki búið að ná tökum á því sem einkennir bestu lið allra tíma, þessi bestu lið sem hafa orðið meistarar. Þetta drápseðli.

Við höfum séð þetta lið vinna stóra sigra, jú, jú, og við höfum séð það taka flotta spretti, en flestir þeirra hafa verið í deildarkeppninni. Viðurkenndu það bara, þetta Golden State lið á ennþá eftir að fá okkur til að segja hólí sjitt í úrslitakeppninni - og þá sérstaklega í lokaúrslitum.Og það er að okkar mati mikið til vegna þess að stórstjarna liðsins í gegn um tíðina, Stephen Curry, hefur ekki ennþá átt heilu leikina í úrslitum þar sem hann hefur fengið okkur öll til að segja hólí sjitt eins og hann gerir reglulega í deildarkeppninni þegar best lætur.

Curry hefur verið góður þegar hann er bestur, aldrei stórkostlegur og oftar höfum við verið að pæla í því upphátt leik eftir leik hvernig standi á því að hann sé ekki að taka leiki í sínar hendur líkt og hann gerir í deildarkeppninni. Hluti af ástæðunni fyrir því að við fengum ekki að sjá hann gera þetta í lokaúrslitunum fyrir ári var auðvitað að maðurinn gekk ekki heill til skógar, en samt. Þið áttið ykkur á því hvert við erum að fara með þessu.

Akkúrat í dag er hinsvegar ekkert svona uppi á teningnum. Nú eru engin meiðsli að plaga Curry og nú er enginn titringur að bögga hann sem fylgir því að vera að fara í lokaúrslit í fyrsta sinn á ferlinum. Núna eru bæði Stephen Curry og Kevin Durant - maður sem líka hefur gríðarlega mikið að sanna í stóra samhenginu - að fara inn í stærstu úrslitakeppniseríu sína á ferlinum.Og við höfum það á tilfinningunni að þeir séu báðir gríðarlega hungraðir, ekki bara í að vinna þessa seríu, það gefur augaleið, heldur sýna umheiminum öllum og sérstaklega hatursfólkinu, úr hverju þeir eru gerðir. Að þeir séu, hvor um sig, ekki bara tveir af allra bestu sóknarmönnum í sögu körfuboltans, heldur líka meistarar - menn sem stíga fram, taka ábyrgð og ekki bara vinna meistaratitil, heldur fara á kostum á meðan þeir eru að vinna téðan meistaratitil.

Þeir Curry og Durant eru svo að sjálfssögðu ekki einu mennirnir í liði Warriors sem hafa mikið að sanna í þessu einvígi. Draymond Green þarf að bæta fyrir axarsköft sín á síðustu leiktíð, sem mögulega og kannski algjörlega, kostuðu Warriors meistaratitilinn.

Klay Thompson þarf að sýna að hann sé uppvaknings-eftirlíking af sjálfum sér (hann er búinn að vera handónýtur undanfarið) og geti skilað góðu framlagi þegar mest þarf á að halda, varamannabekkurinn þarf að sýna að hann sé ekki veiki hlekkurinn í liðinu og geti haldið áfram að vera eitt af þeim atriðum sem skilur Warriors-liðið frá öllum hinum.

Þá þarf Mike Brown að sanna að hann geti staðist pressuna og þjálfað lið að meistaratitli, því það er með öllu óvíst að Steve Kerr hafi heilsu til að stýra liði sínu í lokaúrslitunum, þó hann verði eflaust áberandi á bak við tjöldin.Ofantalin atriði verða ofarlega á baugi í umræðunni fram að lokaúrslitaeinvíginu sem hefst því miður ekki fyrr en fimmtudaginn 1. júní, en þau eru smáatriði við hliðina á aðalatriðinu. Það skiptir nefnilega engu máli hvað menn eins og Stephen Curry og Kevin Durant gera í þessu einvígi, því í stóra samhenginu (þ.e. í fjölmiðlum) mun það fyrst og fremst snúast um hvað LeBron James gerir.

Ef Golden State vinnur seríuna, verður það ekki Golden State sem vinnur, heldur LeBron James sem tapar. Þannig er þessi umræða og hefur verið lengi. Og hatursmönnum og konum leiðist það nú ekkert rosalega. LeBron James á nefnilega helmingi fleiri haters en Kevin Durant (og ákvörðun hans að ganga til liðs við Warriors eins og hæna) og allir liðsfélagar hans hjá Warriors til samans.Og þá komum við að því hvað gerist ef Cleveland vinnur þetta einvígi... vó.

Við vorum ekki búin að hugsa mjög náið út í það, en við vorum allt í einu að átta okkur á því að pressan á Golden State að vinna þessa seríu er gríðarleg. Liðið er talið sigurstranglegra á pappírunum og er auðvitað sigurstranglegra, en....

Ef það tapar aftur fyrir "LeBron James" - í þetta skiptið nokkurn veginn meiðslafrítt - eftir að hafa náð besta árangri sögunnar í deildarkeppninni á þriggja ára tímabili. Það er hreinlega erfitt að gera sér í hugarlund hvurslags snjóflóð af hatri og háði á eftir að dynja samfleytt á Warriors-liðinu næstu misseri og ár, ef það gerir á sig í úrslitunum í ár. Úff.

Og ef LeBron James (óhjákvæmilega með mikilli og góðri hjálp, annars gengi það aldrei upp) tækist að ná sér í einn titil í viðbót - og annan á móti þessu ofurliði sem gat ekki unnið hann fyrir og bætti því við sig einum besta körfuboltamanni heims og gat enn ekki unnið hann?

Nei, M.J., þú misheyrðir ekki, það er verið að banka hjá þér...