Saturday, November 7, 2015
Kalt er í Kóngsins ríki
Passíf/agressíf skapgerð LeBron James kemur hvergi eins augljóslega fram og í samskiptum hans við Kevin Love, liðsfélaga hans hjá Cleveland Cavaliers. James átti það til að senda Ástþóri pillur á síðustu leiktíð, sem snerust þá oftast um hlutverk Love hjá liðinu (og sumir segja að líkamlegt ástand hans hafi ekki staðist kröfur James).
Í haust var planið að allir byrjuðu með hreint borð. Love mætti tálgaður og flottur til leiks með hárgreiðsluna hans Rick Fox og James lýsti því yfir í öllum viðtölum að Love fengi aukið hlutverk í sóknarleik liðsins meðan hann sjálfur hefði sig minna fram en áður, enda ekki alveg heill heilsu.
Svo virðist þó sem Adam verði ekki lengi í Paradís, því James er byrjaður að senda passífar bæði og agressífar pillur á ný, eins og myndbrotið hér að neðan sýnir.
Venjulegt sér auðvitað ekkert athugavert við þessar sekúndur, en þeir sem fylgjast með NBA daglega sjá að sú staðreynd að LeBron James sleppir því ekki aðeins að hjálpa Love á fætur, heldur bókstaflega lætur eins og hann sé ekki til, er ekkert annað en bleitant yfirlýsing um að hér sé ekki allt með felldu.
Nú hlær einhver og segir okkur að róa okkur á dramanu, en hlæðu eins og þú vilt. Þetta er hrein og klár yfirlýsing hjá James. NBA leikmenn gera ekki annað en klappa hver öðrum á rassgatið og knúsast heilu leikina, alveg sama hvort það eru æfingaleikir eða úrslitaleikir. Þú hleypur yfir völlinn þveran og endilangan til að hjálpa félaga þínum á fætur - sama hvað. Þannig er þetta bara í NBA.
Ef liðsfélagi þinn - tölum nú ekki um ef hann er yfir tveir metrar eins og Kevin Love - liggur flatur í jörðinni við hliðina á þér og þú labbar bara í burtu og þykist ekki sjá hann, eru það skýr skilaboð um að hann sé ekki að fara eftir þeim reglum sem þú hefur sett honum sem liðsfélagi hans, þjálfari, framkvæmdastjóri og eigandi (LeBron James). Þetta er ekki tilviljun. Ekki séns.
Verið alveg róleg, við ætlum ekki að fá einhvern tremma yfir þessu og þetta eyðileggur veturinn alveg örugglega ekki fyrir Cleveland - okkur þótti þetta bara dálítið merkilegt, því svona lagað sérðu ekki á hverjum degi í NBA deildinni.
Hvað sem hver segir, er bara augljóst að Kevin Love kærir sig ekki um að læra leynibankið sem þarf til að komast inn í tréhúsið í bakgarðinum hans LeBron James og það finnst okkur dálítið skondið.
Efnisflokkar:
Cavaliers
,
Digranes
,
Dramatík
,
Frussandi gremja
,
Kevin Love
,
LeBron James
,
Stjórnmál