Friday, June 17, 2016

Hömlulaus LeBron - Oddaleikur í úrslitunum


Ætli sé ekki best að byrja á smá tölfræði á meðan við náum okkur niður eftir þetta rugl þarna í Cleveland í nótt. Þá eigum við sérstaklega við tölfræði LeBron James, sem virðist vera að taka því mjög illa að hafa lent undir 3-1 og vera því á góðir leið með að tapa enn einu lokaúrslitaeinvíginu sínu á ferlinum.

Cleveland er allt í einu búið að jafna metin í einvíginu við Golden State og það er ekki síst að þakka téðum LeBron James, sem er búinn að spila á guðs vegum í síðustu tveimur leikjum. Þar hefur hann boðið upp á 41 stig, 12 fráköst, 9 stoðsendingar, 3,5 stolna bolta, 3 varin skot, þrjá tapaða bolta að meðaltali í leik og +39 í plús/mínus tölfræðinni. Einmitt.



James er skráður með 188 "snertingar" í þessum tveimur leikjum skv. heimasíðu NBA deildarinnar, sem þýðir að hann er meira með boltann en nokkur annar maður í einvíginu og því er með öllum ólíkindum að maðurinn sé aðeins búinn að missa boltann þrisvar sinnum. Við erum að tala um þrjá tapaða bolta á 86 leikmínútum.

Ofan á þetta hefur Golden State skotið 2 af 10 undir körfunni þegar hann er á svæðinu í leikjunum tveimur og einhver tölfræði sagði að Warriors-menn sem James var að dekka í leiknum í nótt, hefðu skotið 0 af 7 utan af velli.

Er þetta ekki nóg, spyrðu!?!

Einmitt.



Á lykilkafla í síðari hálfleik í nótt, skoraði Cleveland 27 stig í röð þar sem James annað hvort skoraði sjálfur eða eða átti stoðsendingu. Hann skoraði 17 stig í fjórða leikhlutanum einum saman (6 af 9 í skotum) og gaf auk þess fjórar stoðsendingar.

LeBron kom að 70 stigum Cleveland í leiknum með beinum eða óbeinum hætti og þó það muni miklu fyrir hann að langskotin hans séu farin að detta, er það sú staðreynd að hann er aftur farinn að skjóta 65% í teignum sem segir okkur að hann sé mættur í slaginn á ný - og rúmlega það.



Hann er sem sagt með 30 stig, 11,3 fráköst, 8,5 stoðsendingar, 2,7 stolna bolta, 2,2 varin skot, 51% skotnýtingu, 40% 3ja stiga nýtingu og +22 í plús/mínus í leikjunum sex í lokaúrslitunum. Þú vissir væntanlega líka að hann er efstur í öllum tölfræðiþáttum í báðum liðum í einvíginu. Hann er reyndar með jafnmörg fráköst og Tristan Thompson, en þú fattar þetta.

Trúlega væri hægt að halda áfram með þetta rugl, en þið eruð örugglega farin að ná því hvað við erum að fara hérna; Það er engu líkara en að LeBron James sé góður í körfubolta. Við sjáum mynd:



Úrslitaeinvígið okkar í ár hefur nú vaknað til lífsins og sprungið út með tilþrifum. Það reyndist forljótur andarungi sem fáir vildu sjá í stöðunni 2-0 og 3-1 fyrir Golden State. Nú er svo komið að meistararnir, sem komu til baka eftir að hafa lent undir 3-1 gegn Oklahoma í síðasta mánuði, eru nú sjálfir búnir að klúðra þessu og missa seríuna í jafntefli.

Þvílíkt einvígi!



Það góða við að vera með frjálsan og óháðan miðil eins og NBA Ísland er að við getum rekið á honum hvaða ábyrgðarlausa áróður sem okkur sýnist án þess að hlusta á kóng eða prest og nú ætlum við að nýta þennan vettvang til að leggja fram boðskap sem á erindi til allra körfuboltakera á landinu.

Þið hafið öll séð hvað narratífið í kring um lið og leikmenn í NBA deildinni eru svakalega fljótt að breytast. Það er að segja hvaða stefnu menn taka þegar þeir fjalla um t.d. úrslitaeinvígið í NBA. Hvernig menn ákveða að segja frá hlutunum - hvað þeir leggja áherslu á og hvað ekki.



Enginn leikmaður í nútímasögu NBA deildarinnar fengið jafn sveiflukennda og dramatíska umfjöllun og LeBron James og það er magnað að horfa upp á það að hann skuli enn vera fær um að breyta narratífinu í kring um sig með handafli. Margir hafa reynt það, en fáum tekst það.

Íslendingur nokkur er einmitt að reyna þetta, gnístandi tönnum af gremju. Hann reynir að skrifa söguna sína sjálfur eftir eigin höfði á hverjum degi en þó nokkrir afskaplega illa gefnir einstaklingar trúi öllu sem hann segir, breytir það engu um það að þetta er ekki raunveruleg saga, heldur átakanlegt bull og lygar örvæntingarfulls manns sem nær aldrei að þurrka mistökin sín út úr sögubókunum, sama hvað hann klórar og grenjar.



Lokaúrslitin 2016 áttu að vera úrslit Warriors-liðsins og leikmanns ársins, Stephen Curry. En á einhverjum pungsparks og kjaftbrúks tímapunkti í þessu einvígi, ákvað LeBron James að taka stílabækurnar sem sagnfræðingar eru búnir að vera að skrifa í í allan vetur og rífa þær í tætlur.

Nota bene, James er ekki búinn að skrifa lokakaflann, hann verður ekki skrifaður fyrr en á sunnudagskvöldið og það er lokakaflinn sem ræður úrslitum í þessu magnaða einvígi. En það sem við viljum árétta sérstaklega hér, er hvað er búið að gerast í síðustu tveimur leikjum.



Það sem gerðist, er að LeBron James tók eitt stykki lokaúrslitaeinvígi í NBA deildinni og barði það í andlitið með með felgulykli. Hann tók sögu sem var nánast alveg búið að skrifa, reif hana í tætlur, eyðilagði hana og er að semja sína eigin. Það vantar bara lokakaflann. En athugaðu að hvernig sem lokakaflinn fer - hver það verður sem skrifar hann, verður LeBron búinn að breyta þessari sögu varanlega og hann þarf að fá sitt hrós fyrir það.

Afar fáir körfuboltamenn hafa hæfileika, skapgerð og burði til að taka lokaúrslitaseríu yfir og breyta henni upp á sitt einsdæmi og við verðum að segja alveg eins og er, að okkur datt ekki í hug að LeBron James hefði það sem til þurfti til að gera neitt slíkt í dag. Sérstaklega eftir að við horfðum á hann klúðra hverju sniðskotinu á fætur öðru í fyrstu leikjunum gegn Warriors og fá litla hjálp frá félögum sínum.



En svo gerist eitthvað. Það er til dæmis alveg pottþétt mál að lið sem er í vandræðum með sóknarleikinn sinn, mun undir öllum kringumstæðum hagnast á því ef besta varnarmanni andstæðingsins er kippt út í eins og einn leik. Ókei, flott fyrir Cleveland, en vannst þessi sigur í leik fimm þá ekki eingöngu út á það að Draymond Green var ekki með? Nei, það virðist ekki vera.

LeBron James losnaði við Green úr vegi sínum í fimmta leiknum, en það er eins og hann hafi gleymt því að hann mætti til baka í sjötta leikinn, því hann bara sótti á körfuna eins og enginn væri morgundagurinn. Það hefur svo engan veginn dregið kjarkinn úr James í ruðningsferðum sínum inn í teiginn þegar hann far að andstæðingur hans númer eitt - Andre Iguodala - byrjaði skyndilega að haltra um völlinn eins og hann væri búinn að gera í buxurnar í nótt. Gera stórt í buxurnar.



Þvílíkt andskotans vesen er orðið á þessu Golden State liði, afsakið hjá okkur orðbragðið, en við erum viss um að leikmenn og þjálfarar orða það ekki á fallegri hátt en þetta. Þetta var allt svo klippt og skorið fyrir nokkrum dögum síðan. Liðið sem gat ekki unnið þá var komið út í horn og allt eins og það átti að vera. Það var ekki annað að gera en vinna það einu sinni enn og svo bara leikur, vindill, kampavín, skál, búið!



En í staðinn er allt komið í óefni hjá meisturunum. Bogut hefur lokið keppni, Iguodala er eins og Robocop á línuskautum, skvettubræður eru upp og ofan og Draymond var daufur. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Golden State mætir mótlæti, þið áttið ykkur alveg á því, en það er dálítið nýtt fyrir þá að gera dálítið í bussan sín með þessum hætti.

Við þurfum alveg örugglega ekki að telja upp fyrir ykkur hvað lið sem spila á útivelli í oddaleikjum eru andskoti ólíkleg til að vinna nokkurn skapaðan hlut. Þið vitið þetta. En á Cleveland þá einhvern séns á sunnudaginn? Sagan segir nei, alveg eins og tölvan forðum, en af hverju ekki?



Það er allt á móti Cavs í þessu sambandi, sama hvort það varðar sögubækur, trend eða tölfræði. Lið sem lenda undir 3-1 vinna ekki seríur og lið sem eru á útivelli vinna ekki oddaleiki og bla bla bla. En af hverju á Cleveland ekki möguleika á að vinna lið sem það er búið að vinna tvisvar í röð í hreinum úrslitaleik? Af hverju á Cleveland ekki möguleika á móti Warriors-liði sem er ekki heilt heilsu og er alls ekki að finna taktinn sinn um þessar mundir?

Við skulum láta þessum spurningum ósvarað til að vera ekki að eyðileggja fyrir ykkur áhorfið á sunnudaginn og ljúkum þessu frekar með því að ítreka það sem við tókum fram hér að ofan: LeBron James reif stílabókina af söguriturum NBA deildarinnar, barði þá í hausinn með henni og er búinn að skrifa kafla fimm og sex í henni algjörlega eftir sínu höfði. Þessar breytingar eru varanlegar óháð úrslitum í sjöunda leiknum, en það er ljóst að það fer allt í eitt risastórt kaos ef Cleveland heldur þessum ótrúlega endaspretti sínum áfram.



Nú eru náttúrulega ekki allir sammála okkur um hvernig á að ganga frá þessari sögu og okkur finnst skemmtilegast að lesa skrif þeirra sem ætla að láta það ráðast í næsta leik hvernig þeir gera ferilinn hans LeBron James upp. Grínlaust, það er fullt af fólki sem ætlar sumsé að gera þetta svona: Ef Cleveland tapar, verður það LeBron James að kenna og því er hann sjálfkrafa stimplaður kokari og aumingi - en ef Cleveland vinnur verður hann bestur í heimi, jafnvel betri en Jordan.

Sigh...



Það er ekki auðvelt að díla við svona, en við skiljum svo sem að hluta af hverju fólk er svona æst. Það er af þvi LeBron James er enn og aftur að sýna okkur að hann er ofurmenni á körfuboltavelli og getur enn tekið gjörsamlega yfir heilu leikina án þess að nokkur fái rönd við reist. Og það sem meira er, við erum öll að taka þessu sem algjörlega sjálfssögðum hlut, eins og þetta sér bara eitthvað eðlilegt að spila svona!

Nei, LeBron James var bara að minna okkur aðeins á það, í þúsundasta skipti, að hann er einn allra, allra besti körfuboltamaður sem uppi hefur verið og þú skalt ekki láta þér detta í hug að sú jafna breytist eitthvað stórkostlega út af einum körfuboltaleik. Sigur á sunnudaginn gæti orðið ágætis kirsuber á toppinn á rjómaísnum sem er ferillinn hans James, þó hann sé auðvitað ekki búinn.

En hvort sem leikurinn tapast eða vinnst um helgina, verður það sífellt stærri áskorun að finna körfuboltamenn í sögunni sem eru betri en LeBron James. Þá má orðið telja á fingrum annarar handar. Þú getur notað sumarið til að díla við það.