Tuesday, June 21, 2016

LeBron James stóð við stóru orðin; titill í hérað


Cleveland tryggði sér NBA meistaratitilinn í fyrsta skipti í sögu félagsins á sunnudagskvöldið, þegar það bar sigurorð af Golden State Warriors í hreinum úrslitaleik í Oakland. Oddaleikurinn þróaðist fullkomlega fyrir hinn óháða körfuboltaáhugamann, þar sem nóg var um tilþrif, spennan var óbærileg og skrifaður var nýr kafli í körfuboltasöguna.


Einvígi Cavs og Warriors varð sígilt samdægurs alveg eins og rimma Thunder og Warriors um daginn og það er ekki útilokað að menn eigi eftir að skrifa heilu bækurnar um frammistöðu LeBron James síðustu daga, ef þeim tekst á annað borð að finna orð til að lýsa þessum atgangi hans.

NBA Ísland gerir þetta allt saman upp með pistlum og hlaðvörpum næstu daga, þó það nú væri. Hér áttu sér stað sögulegir hlutir sem þarf að greina vandlega. Þvílík rússíbanareið sem þetta einvígi er búið að vera.