Við sáum okkur leik á borði og hlupum á Twitter þegar okkur varð ljóst að Draymond Green fengi ekki að vera í húsinu í fimmta leik Golden State og Cleveland í nótt. Hafandi horft á drenginn spila svona risavaxna rullu hjá Warriors í allan vetur, grunaði okkur að það ætti eftir að reynast liðinu hans erfitt að vinna Cleveland án hans.
Þetta var svo sem enginn Nostradamusarspádómur, það gefur augaleið að Green er lykilmaður í liði Warriors, en við leyfðum okkur að efast um að fólk gerði sér fulla grein fyrir því hversu mikilvægur hann er Golden State - og þá á öllum sviðum leiksins, eins og svona plögg sýna svo glöggt.
Fyrsta vísbendingin um þetta kom þegar það sem hefði átt að verða nokkuð þægileg afgreiðsla og síðar bikarafhending í Oakland, breyttist í leifturstríð og blóðbað áður en nokkur fékk rönd við reist.
Það sem sagt skiptir máli að hafa besta varnarmann sinn og aðstoðarleikstjóra í búningi þegar á að taka við bikurum, þetta vitum við núna. Eftir að hafa séð Cleveland vinna nokkuð sannfærandi sigur á Golden State í nótt og minnka muninn í einvíginu í 3-2.
Það er allt of mikil einföldun að skrifa alla ógæfu meistaranna á fjarveru hrokagikksins þéttvaxna, en það var á tíðum átakanlegt hvað þeir söknuðu hans í nótt. Varnarleikur Warriors - sómi þeirra, sverð og skjöldur - er einfaldlega ekki í sama klassa þegar Green nýtur ekki við og gestirnir gengu fljótlega á lagið. Cleveland skoraði 46 stig inni í teig og var raunar 28-9 í hraðaupphlaupum líka.
Golden State spilaði í sjálfu sér alveg ágætlega í fimmta leiknum í nótt og lykilmenn liðsins (fyrir utan Harrison Barnes, með 2 af 14 í skotum) komust ágætlega frá sínu. Klay Thompson bar auðvitað af og sallaði 37 stigum á Cavs úr aðeins 20 skotum.
Stephen Curry átti rispur og hitti þokkalega, en hvort sem það er út af meiðslum eða ofþreytu, hefur hann enn ekki náð alveg að sýna sitt rétta andlit í þessu einvígi. Þetta er heldur betur vatn á myllu yfirlýstra og sjálfmenntaðra körfuboltasérfræðinga sem vafra um skrælnaðar sléttur félagsmiðlanna í leit að einhverju til að hneykslast á og/eða hrauna yfir.
En við skulum ekki velta okkur meira upp úr Warriors-liðinu. Það var án fjölhæfasta varnarmanns síns, leikstjórnanda, leiðtoga og hindranahleðslumanni í þessum leik, sem setur auðvitað strik í reikninginn.
Eitthvað segir okkur að meistararnir verði samkeppnishæfari í næsta leik þegar þeir endurheimta Draymond sinn til baka og fljúga til Cleveland, þó þeir eigi eflaust eftir að sakna Andrew Bogut sem við sjáum ekki að eigi eftir að koma meira við sögu á þessari leiktíð eftir að hafa beyglað hnéð á sér í nótt.
Saga fimmta leiksins í okkar hugum er hvað Cleveland, með þá LeBron James og Kyrie Irving í fararbroddi, nýtti sér allar þær glufur sem mynduðust í varnarleik heimamanna þegar Green var ekki í húsinu.
Þeir félagar Kyrie og Bron gerðu þó meira en það, því frammistaða þeirra í sóknarleiknum var stórkostleg. Við skulum ekki kalla það neitt annað, nema þú vitir um marga liðsfélaga sem báðir hafa skorað 40+ í sama leiknum í lokaúrslitum (þeir eru ekki til, svona áður en þú ferð að leita).
"Hvar er þetta búið að vera í fyrstu fjórum leikjunum?" spurðu margir eftir leifturárás þeirra Irving og James í nótt. Kannski eðlilegt að fólk pæli í því, en við verðum að hafa hugfast að Golden State hefði ekki unnið 73 leiki í vetur ef allir gætu bara sett undir sig hausinn og sett 40 á það.
Hefðu James og Irving skorað 40 ef Draymond Green hefði verið á sínum stað? Það er pæling, en það er líka pæling sem skiptir engu máli núna. Það sem skiptir máli er að við fengum alveg ógeðslega fjörugan körfuboltaleik sem var svo skemmtilegur að hann reddaði einvíginu.
Getum við líka nýtt þetta tækifæri til að staldra aðeins við og þakka fyrir það í þúsundasta skipti að fá að vera þess heiðurs aðnjótandi að fá að horfa á LeBron James spila körfubolta í beinni útsendingu?
Það er örugglega ekki nóg fyrir hatursmenn hans, en James skoraði 41 stig, hirti 16 fráköst, gaf 7 stoðsendingar, stal 3 boltum og varði 3 skot í leiknum.
Þú heldur kannski að það sé bara eitthvað eðlilegt að menn skili svona tölum, en trúið okkur, það er það ekki.
Samkvæmt léttri leit á tölfræðisíðum hafa fimm menn skilað svona tölum í einum leik á síðustu 30 árum í NBA, sé tekið mið af deildakeppni og úrslitakeppni. Þetta var í lokaúrslitum.
Þeir James og Irving voru á öðru plani í sóknarleiknum í nótt og þeir þurftu líka að vera það. Þeir gerðu eitthvað sem fáir menn hafa afrekað í sögu lokaúrslitanna til þess eins að halda lífi í einvíginu og því er kannski eðlilegt að fólk fari að hugsa um það hvað þeir þurfi eiginlega að gera næst ef þeir ætla sér að halda því áfram.
Það er komin upp óhemju áhugaverð staða í þessu einvígi núna. Vissulega er freistandi að horfa of langt fram í tímann og velta því fyrir sér hvort Cleveland ætli virkilega að takast að koma þessu í oddaleik, en við skulum ekki horfa lengra en í leik sex í Ohio á fimmtudaginn.
Þar verður Draymond Green aftur kominn á sinn stað í lið Warriors, en eins og staðan er núna verður að teljast ólíklegt að Andrew Bogut verði með í þeim leik (eða restinni af einvíginu). Það skiptir máli, alveg eins og það skiptir máli hvort Cleveland hefur trú á verkefninu. Hvort liðið trúi því að það geti virkilega snúið þessu við.
Serían sem var á góðri leið með að verða drullukaka í stöðunni 2-0 og 3-1 fyrir Golden State er nú orðin að girnilegri rjómatertu sem bíður okkar í ísskápnum þangað til klukkan eitt á fimmtudagskvöldið.