Saturday, June 11, 2016

Meistararnir sjá í mark


Menn deila um það hvort körfubolti er einföld eða flókin íþrótt. Eftir leiki eins og fjórða leik Cleveland og Golden State í Ohio í nótt, er rosalega þægilegt fyrir fólk eins og okkur - sem hefur ekkert vit á körfubolta - að grípa einföldu útskýringarnar á lofti eftir leiki eins og fjórðu viðureign liðanna í úrslitunum í nótt.

Fyrir það fyrsta, hefur raunveruleikinn nú aftur tekið völd, eftir smá útúrdúr í þriðja leiknum á dögunum. Nú er Golden State aftur orðið "einfaldlega betra lið" en Cleveland. Það sýndu meistararnir í nótt með fagmannlega öruggum 108-97 sigri sínum í Cleveland og hafa því náð 3-1 forystu í seríunni.Við vitum öll hvað það þýðir í sögulegu samhengi - það á ekki að vera hægt að tapa úrslitarimmu með slíka forystu, enda hefur engu liði tekist það. Okkur dettur ekki í hug að spá því að þetta Cleveland-lið verði fyrsta liðið til að hrista af sér þá Grýlu, því það er fátt í spilunum sem bendir til þess.

Ef þú lest NBA Ísland að staðaldri eða horfir á einvígið á Stöð 2 Sport, ertu löngu búin(n) að heyra þetta allt saman: Golden State er betra lið, með betri vörn, betri skyttur, betri liðsheild, meiri breidd, meiri takt, meiri Draymond, meiri Iguodala, meiri sögu og sigurvilja, betri rútínu og í alla staði þyngri katalóga í fræðunum.

Nei, líklega er fátt annað eftir en að segja: "Þeeett´er búið!" eins og maðurinn sagði.Við erum samt ekki búin með þetta einvígi. Við eigum ekki bara eftir að sjá hvort og þá hvernig Golden State gengur frá málinu á heimavelli sínum á mánudagskvöldið, heldur eigum við eftir að sjá hvernig Cleveland ætlar að bregðast við þessari nöturlegu stöðu sem það finnur sig í núna. Og þegar við segjum Cleveland, erum við auðvitað að meina LeBron James, því ef við eigum að vera alveg heiðarleg, er okkur tæknilega alveg sama um restina af dæminu.

Restin af dæminu er ef til vill áhugaverð, þó ekki væri nema bara til að sjá hvernig menn eins og Kyrie Irving og Kevin Love klára þetta dæmi í ljósi mögulegra framtíðaráforma forráðamanna félagsins. Eiga þessir menn afturkvæmt? Eru þetta menn sem eru boðlegir kandídatar í að fara með LeBron James í frekari stríð og styrjaldir? Það kemur í ljós.En athygli okkar er nær öll á James. Nú eru fjórtán þúsund blaðamenn byrjaðir að skrifa fjallræður sínar um hann og frammistöðu hans í einvíginu - og hvað verði næst á dagskrá. Það er óhjákvæmilegt. En þú ert að leita að þrumuræðum og hraunflóði um LeBron James hér á þessu vefsvæði, verður þú líklega að leita annað, en það þýðir ekki að við höfum ekki smá áhyggjur af honum.

Við erum ekki alveg með það á hreinu hvort þetta einvígi er búið að koma okkur á óvart eða ekki, svona í heildina. Það hefur komið okkur nokkuð á óvart hvað Golden State er búið að malla í gegn um þetta einvígi án þess að fá stöðuga ofurmannlega frammistöðu frá skyttunum sínum (sérstaklega Curry) þangað til í nótt. Við sem höfum horft á Curry skjóta allt og alla til andskotans í allan vetur erum enn alltaf vælandi ef hann skorar ekki fjörutíu stig og tíu þrista í hverjum einasta leik.Það sem kemur okkur hinsvegar mest á óvart er hvað LeBron James er búinn að eiga erfitt uppdráttar í einvíginu, þrátt fyrir að vera að skila tölum sem enginn annar körfuboltamaður á jörðinni gæti boðið upp á í svona seríu.

Við reiknuðum alveg með því að skotið hans ætti eftir að detta inn og út í þessu, en við erum engan veginn að ná utan um það hvernig stendur á því að hann virðist oft ragur á keyra á körfuna, snýr sér við í loftinu og kastar boltanum út í loftið (stundum upp í stúku) og virðist ekki með nokkru móti geta klárað eins og maður undir körfunni. Aftur sáum við nokkuð áberandi dæmi um þetta í nótt.

Ef þú ætlar að vera týpan sem heldur því fram að James sé að koka á þessu, verður þú að fara eitthvað annað, en þú hann sé ekki að koka, er ekki allt eins og það á að vera. Það er mjög eðlilegt að menn geti átt erfitt með að slútta í teignum þegar menn eins og Bogut og Ezeli fylla hann, en þegar hann er fullur af mönnum sem eru á hæð við James og teljast ekki endilega skotblokkarar? Það er ekki eðlilegt.Hvað eftir annað höfum við séð James keyra inn í traffík og eiga annað hvort skelfileg skot eða hreinlega láta verja þau frá sér. Það er ekkert eðlilegt við það. Það er eitthvað alveg nýtt. Og hér gildir einu hvort um er að ræða töpin ljótu í Oakland, sigurinn í leik þrjú eða tapið í nótt. James er bara ekki að dómínera í teignum eins og hann hefur (nánast) alltaf gert og það er morgunljóst að þessir erfiðleikar eru farnir að hafa áhrif á ákvarðanatöku hans.

James er maður sem setur niður tvö af hverjum þremur skotum sem hann tekur í teignum, það hefur alltaf verið jafn öruggt og hækkandi fasteignaverð, enda skaut hann þannig í allan vetur og alveg eins í úrslitakeppninni þangað til hann mætti ófreskjunni frá Oakland.

Hann er að skjóta 56,6% í teignum á móti Golden State, sem er ef til vill ásættanleg tölfræði fyrir venjulegt fólk undir þessum kringumstæðum, en afleit fyrir mann eins og LeBron James.

Þú sérð skotkortið hans í lokaúrslitunum hér til hliðar. Ekki stórt úrtak, en þetta skiptir máli, andskotinn hafi það.

Og áður en þú ferð að væla yfir því að það sé nú hægt að taka skot annars staðar en í teignum, verður þú að hafa hugfast að hann tekur alltaf megnið af skotunum sínum þar. Hefur alltaf gert.

Það getur vel verið að vörn Golden State sé hrikaleg - hún er það - en hún hefur þurft að hafa allt of lítið fyrir því að loka miðjunni fyrir James í þessu einvígi. Hann skaut bara rétt rúm 50% í miðjunni í lokaúrslitunum í fyrra, en það var einfaldlega vegna þess að þá gátu leikmenn Warriors einbeitt sér að því einu að loka miðjunni af því að þá var Cleveland ekki með einn einasta leikmann sem gat refsað Warriors fyrir utan.Cavs eiga að vera með meiri ógn fyrir utan að þessu sinni, en eins og allt annað hjá þeim í þessu einvígi, hefur það mestmegnis verið pappírsógn. Það er ekki nóg að vera með fulla rútu af skotmönnum. Ef þeir hitta ekkert, er alveg jafn gott að keyra þetta bara áfram á mönnum eins og Matthew Dellavedova, sem hafa amk getu og vilja til að spila þokkalega vörn.

Talandi um vörn. "Tilþrif" manna eins og Kyrie Irving og Channing Frye í varnarleiknum í þriðja leikhlutanum þegar Golden State stakk endanlega af í leiknum í nótt, var náttúrulega hroðaleg. Við erum búin að tuða endalaust um þetta illa geymda leyndarmál. Þú getur komist upp með að spila eins og bandormur annað slagið í vörninni á móti Atlanta og Toronto, þar sem þú getur bætt upp fyrir það með því að salla bara niður 3-4 þristum í röð. Það er ekkert mál, eins og Cleveland sýndi um daginn.

En ef þú spilar 9. flokks vörn á móti Golden State, lendirðu undir eins í trjákurlaranum.Þið kannist við Gárungana frægu. Þeir eru alltaf til staðar í íþróttaumfjöllun og það sem er efst á baugi hjá þeim núna, þegar þeir eru búnir að segja öllum sem vilja og vilja ekki heyra það að LeBron James sé aumingi, er að ákveða hver í ósköpunum eigi eftir að verða kjörinn leikmaður lokaúrslitanna. Það er skiljanlegt að fólk pæli í því, enda er það að verða forvitnileg pæling alveg eins og í fyrra.

Við höfðum orð á því eftir leik þrjú að það kæmi okkur á óvart ef Stephen Curry væri ekki farinn að hugsa með sér: "Nei, andskotinn, ég verð að fara að spila eins og maður svo ég láti ekki einhverja rulluspilara slá mér við í kjörinu á leikmanni lokaúrslitanna annað árið í röð!"Gott ef spilamennska Curry í nótt var ekki nákvæmlega á þessari línu. Enn og aftur bar strangt til tekið ekkert allt of mikið á Curry á löngum köflum í leiknum - ekki eins og í allan vetur þegar hann var í gjöreyðingargír á hverju kvöldi - fór allt til helvítis hjá Cleveland um leið og hann kveikti á nítróinu. Það er alveg magnað hvað þessi hálf-Curry sem er að spila í lokaúrslitunum er viðurstyggilega góður í körfubolta.Ekki halda að það hafi farið fram hjá okkur hvernig þeir Draymond Green og síðar Steph Curry gáfu sér tíma til að rífa smá kjaft við LeBron James í leiknum í nótt. Draymond ákvað að "taka einn Draymond" á þetta og dangla að eins í djásnin á kóngsa. LeBron vildi meina að Green hefði farið yfir strikið í rusltali sínu en blés á það þegar hann var spurður út í viðskipti sín við Curry og sagði þau ekki annað en heilbrigð tjáskipti keppnismanna á stóra sviðinu.Draymond Green getur ekki með nokkru móti sleppt því að vera Draymond Green í heilan körfuboltaleik og það er náttúrulega eitt af því sem gerir hann svona skemmtilegan karakter, þó við gerum okkur fulla grein fyrir því að góður helmingur ykkar hati hann eflaust út af lífinu.

Green er alveg búinn að taka við keflinu af Paul Pierce sem "lang mest óþolandi hási hrokagikkur deildarinnar sem er samt svo góður að þú verður eiginlega að bera virðingu fyrir honum, en guð almáttugur hvað einhver þarf að berja hann í andlitið með vöfflujárni til að lækka í honu rostann" -NBA deildarinnar og blómstrar í hlutverkinu í lokaúrslitunum.Golden State heldur áfram að bjóða okkur upp á tölfræði sem við höfum ekki séð mikið áður, eins og til dæmis að vinna leiki í lokaúrslitum með því að skora fleiri 3ja stiga körfur en 2ja stiga körfur - og það sem meira er - vinna leiki þar sem það er að skjóta eins og vængbrotnir dílaskarfar í teignum og undir körfunni.

Og þá komum við að lokum að atriðinu sem við nefndum í byrjun. Einfaldleikanum. Vitleysingunum líður alltaf betur ef þeir geta útskýrt hlutina á sem einfaldastan hátt og þið sjáið merki þess á þessari síðu í hverri viku.

En kannski er einföldunin ekki svo slæm þegar kemur að því að túlka fáránlegan styrk þessa Warriors-liðs. Því ekki að umorða bara gamlan frasa úr fótboltanum:

Körfubolti er íþrótt þar sem tvö fimm manna lið rífast um einn bolta og Golden State vinnur - af því það skorar alltaf miklu fleiri þriggja stiga körfur en þú.

Það er ekki flókin lógík á bak við þennan frasa - og hann er hvorki ljóðrænn né fræðilegur - en gott ef hann er ekki nóg til að útskýra fyrir leikmönnum og konum af hverju Golden State er besta körfuboltalið nútímans.

-------------------------------------------------------------------------------------------------------

Að lokum er hér Sonya Curry (og einhver gaur).


Fimmti leikur Golden State og Cleveland fer fram í Oakland á mánudagskvöldið klukkan eitt og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Hver veit nema kampavín verði haft um hönd?