Tuesday, December 22, 2015
Af vandamálum Chicago Bulls
Af hverju að vera að eyða orku í að skrifa um þetta Chicago-lið, sem við eru meira að segja búin að afskrifa fyrir löngu? Það er ekki gott að segja. Kannski af því það tekur alltaf upp helminginn af fréttunum á ESPN, alveg sama hvort eitthvað er að frétta af liðinu eða ekki.
Þær eru búnar að vera margar, ekki-fréttirnar af Chicago í vetur, en sú nýjasta var merkilegt nokk ekki ekki-frétt um það hvort Derrick Rose treysti sér til að spila með bólu á rassinum eða tognað nefhár - þetta voru raunveruleg tíðindi. Og auðvitað gátu þau ekki verið jákvæð - þetta er Chicago, grátandi upphátt.
Nei, málið snýst um ummælin sem Jimmy Butler lét falla í viðtali eftir tap Chicago gegn New York á dögunum, þar sem hann viðraði skoðanir sínar á þjálfaranum sínum og meðspilurum með frekar afgerandi hætti.
Það gerist hreinlega ekki á hverjum degi að leikmenn í NBA deildinni rífi þjálfarana sína svona upp á punghárunum og kasti þeim undir næstu rútu, en Butler var greinilega búinn að fá nóg af því viðvarandi ástandi sem ríkt hefur hjá Bulls að undanförnu.
Fjölmiðlar hlupu auðvitað til og slógu því upp að Butler hefði þarna verið að taka þjálfarann sinn af lífi, en það er ekki nema helmingur sögunnar að okkar mati.
Ástæðan fyrir því að Butler var óánægður með þjálfarann var sú að honum þótti Fred Hoiberg ekki nógu duglegur að skamma leikmennina þegar þeir eru með allt lóðrétt niður um sig. Og þeir hafa sannarlega verið með allt á hælunum með reglulegum hætti.
Gagnrýnin í þessu snýr því faktískt meira að leikmönnum Chicago en þjálfaranum og það þýðir að Jimmy Butler er nú orðinn jafn pirraður á leikmönnum Bulls og við! Þó fyrr hefði verið.
Það var þónokkuð skrum í kring um ráðningu Bulls á Hoiberg sem þjálfara í sumar og margir vildu meina að hann ætti eftir að gefa sóknarleik liðsins sterasprautu í anusinn. Hann kann að hafa reynt að gera það í haust, en öll áform hans um að reyna að láta boltann ganga hraðar í sókninni runnu víst fljótlega út í sandinn og eftir stendur eitthvað hnoð sem skilar litlum árangri.
Einhver hefði haldið að lið með menn eins og Derrick Rose, Jimmy Butler og Pau Gasol ætti að geta skorað stig, en gallinn er að þegar nánar er að gáð, er mannskapurinn sem liðið hefur yfir að ráða fullt af ferköntuðum kubbum sem ætlað er að fara niður um kringlótt göt.
Chicago vantar leikmenn sem geta skotið, eins og öll lið í NBA deildinni, af því allur sóknarleikur í dag gengur út á að geta teygt á gólfinu og fengið vörn andstæðinganna til að hlaupa í allar áttir eins og hauslausir kjúklingar.
Vörn sem þarf ekki að hlaupa um allt gólf og hafa áhyggjur af skyttum, getur leyft sér að pakka bara miðjunni og bíða eftir að andstæðingurinn annað hvort missi boltann eða taki skot sem litlar líkur eru á að fari ofan í.
Þetta eru oftar en ekki örlög Chicago-manna í sókninni - það er ekkert að frétta hjá þeim.
En hvernig stendur á þessu? Jú, við fyrstu sýn virðast vera menn í liði Bulls sem eiga að geta bjargað sér sóknarlega, en það er bara ekki svo gott.
Pau Gasol skorar eitthvað af stigum í teignum og Jimmy Butler framleiðir eitthvað af sóknarleik upp á sitt einsdæmi, en það eru langskotin sem liðið vantar svo nauðsynlega að bæta til að geta auðveldað sér lífið í sókninni.
Jimmy Butler var að skjóta ljómandi vel fyrir utan í fyrra, en hefur dalað mjög illa í vetur, Pau Gasol er hættur að taka þriggja stiga skot, Nikola Mirotic ætti varla að taka þau því hann hittir ekki rassgat og besta þriggja stiga skytta liðsins (Mike Dunleavy) er meidd og virðist ætla að verða það næstu árin. Ljósir punktar eins og Doug McDermott hjálpa til, en hann er ekki maður í að fá almennilegan spilatíma nærri strax.
Þá er ótalinn fíllinn í herberginu, Derrick Rose.
Derrick Rose er ekki bara að eiga gjörsamlega hræðilegt tímabil þar sem hann hittir ekki nokkurn skapaðan hlut og spilar stundum eins og hálfgerður vitleysingur - hann er mögulega uppspretta og rót flestra vandamála liðsins. Blessaður karlinn.
Chicago veit ekkert hvað það á að gera við leikmanninn sem er andlit félagsins og fyrrum leikmaður ársins. Tilraunir Bulls að láta bara sem ekkert sé og láta hann spila eru ekki að ganga upp, þannig að mögulega þarf að tækla hlutina með öðrum hætti.
David Thorpe á ESPN kom með róttæka tillögu í dag, þar sem hann stakk upp á því að Chicago myndi hreinlega senda Rose niður í D-deildina til að finna sig. Þar gæti hann fundið sjálfstraustið sitt aftur gegn lélegri varnarmönnum - nú eða komist að því að hann ætti bara ekkert erindi í NBA deildina lengur. Það hlýtur að vera skelfileg tilhugsun fyrir Rose og alla stuðningsmenn Bulls.
En Rose er ekki bara að spila illa, hann hefur átt í vandræðum í einkalífinu og er iðinn við að segja asnalega hluti í fjölmiðlum sem koma af stað veseni.
Rose hefur verið leiðtogi Chicago-liðsins undanfarin ár ásamt Joakim Noah, en nú er svo komið að hann er það bara ekkert lengur. Það er kominn ný stjarna í liðið, maður sem er góður í körfubolta og lætur sig varða um framtíð klúbbsins.
Þessi maður heitir Jimmy Butler og auðvitað er hann að reyna að skipa sér sinn sess hjá liðinu sem langbesti leikmaður Bulls. Þess vegna eru þessi ummæli hans út í þjálfarann og liðsfélagana ansi áhugaverð.
Hefði Butler átt að henda þjálfaranum sínum svona undir rútuna í viðtali? Auðvitað ekki, auðvitað verða menn að reyna að fara fínna í svona hluti, en við verðum samt eiginlega að taka málstað Butler í þessu leikriti.
Það er alveg satt sem hann bendir á - leikmenn Chicago (hann taldi sjálfan sig með) eru allt of oft daufir og áhugalausir og tapandi fyrir skítaliðum. Þetta lið er alls ekki að spila af fullum styrk og meira að segja traustir stuðningsmennirnir í Chicago eru orðnir hundleiðir á þessu - stundum heyrist ekki múkk í þeim, sem er harla óvenjulegt á þeim bænum.
Eins og þið vitið, höfum við ekki hundsvit á körfubolta og því ætlum við ekki að dæma um það hvort Fred Hoiberg er rétti maðurinn til að stýra Chicago fram á veginn - amk ekki hvað varðar x og o og þannig lagað. Við látum mönnum eins og Zach Lowe það eftir - hann skrifaði hlemm um allt þetta Chicago-drama í dag.
Það sem við vitum hinsvegar, er að þessi byrjun hjá Hoiberg er hreint ekki að lofa góðu og það er ljóst að leikmenn hans bera ekki nógu mikla virðingu fyrir honum. Það er ekki ávísun á neitt gott.
Við höfum aldrei verið hrifin af vinnubrögðum forráðamanna Chicago Bulls og þess vegna ætlum við sannarlega ekki að halda niðri í okkur andanum þangað til þeir leysa þessa klemmu sem liðið er komið í núna.
Chicago er með lið sem fyrir það fyrsta passar ekki nógu vel saman, en það er svo þjálfað af óreyndum manni sem nýtur ekki virðingar leikmanna sinna.
Leikstjórnandi liðsins er fyrrum stórstjarna með undarleg viðhorf sem er hætt að geta nokkuð í körfubolta, stórstjarna liðsins er ekki búin að ná tökum á leiðtogahlutverki sínu, andlegur leiðtogi liðsins er slitinn og alltaf meiddur, besta skytta liðsins í gegn um árin er heima hjá sér að horfa á netflix, nýjasti innflutningur liðsins frá Evrópu reyndist vera gallaður og stuðningsmennirnir eru hættir að nenna þessu.
Glæsilegt eða hitt þó heldur...
Það má vel vera - og það hlýtur bókstaflega að vera - að Chicago nái eitthvað að laga ástandið áður en vorar, en þetta lið verður aldrei sú ógn sem það átti að vera fyrir LeBron James. Það lagðist í völlinn og fór að grenja þegar það mætti honum í vor og á eftir að gera það aftur næsta vor, ef það verður þá svo heppið að ná svo langt.
Efnisflokkar:
All growed up
,
Ásakanaleikurinn
,
Bulls
,
Derrick Rose
,
Dramatík
,
Drullan upp á herðar
,
Fred Hoiberg
,
Jimmy Butler
,
Taktu spjótið
,
Undir rútunni