Friday, December 18, 2015

Spurs er helsti keppinautur Warriors í vestrinu


NBA deildin er ekki komin í alveg eins mikið rugl og enska úrvalsdeildin - það er ekkert Leicester á toppnum í NBA - en hún er samt alls ekki að láta að stjórn í vetur. Hún er ekki að haga sér eins og við ætluðum henni, og það fer stundum dálítið í taugarnar á okkur eins og þið vitið kannski.

Það sem fer mest í taugarnar á okkur er að það eru allt of mörg lið í Vesturdeildinni að drulla dálítið á sig og um leið að láta Austurdeildina líta betur út. Og það fer sérstaklega mikið í taugarnar á okkur.

Úr því helmingur fólks er úti að kaupa jólagjafir og hinn að missa sig í einhverju nördarugli í kvikmyndahúsum, er því ekki úr vegi fyrir okkur að setjast niður og greina þessa undarlegu þróun aðeins. Til þess erum við jú - eitt stærsta hlutverk NBA Ísland er og hefur alltaf verið, að leiða ykkur í sannleikann um hvað NBA deildin er. Þetta er stór deild með fullt af liðum og fólk sem á sér vott af lífi hefur að sjálfssögðu engan tíma til að stúdera þetta allt saman. Þar komum við inn í þetta.


Eins og 99% ykkar vita, hefur nær allur fókus í umfjöllun um NBA deildina síðustu misseri verið á Vesturdeildinni, enda fær Cleveland bara enga samkeppni í austrinu. Þessi þróun hefur aðeins orðið sterkari í vetur, þar sem Cleveland er einfaldlega besta liðið í austrinu þrátt fyrir að vera meira og minna með lykilmenn í meiðslum.

Við erum ekki gáfaðari en það, að við héldum að eitthvað af liðunum í Austurdeildinni gætu að minnsta kosti veitt þessu vængbrotna Cleveland-liði smá samkeppni í deildarkeppninni, en það virðist ekki ætla að gerast. Um leið og Cleveland fær eitthvað af lykilmönnum sínum (almennilega) heila til baka, stingur liðið af í töflunni eystra og þá þurfum við ekkert að hafa áhyggjur af því meir.

Eitt og eitt lið í austrinu hefur ef til vill verið að vinna aðeins fleiri leiki en við reiknuðum með, en það er bara vegna þess að stærðfræðin segir okkur að þegar tvö lið í Austurdeildinni mætast - verður annað þeirra að vinna leikinn, sama hversu léleg þau eru bæði.

Ókei, ókei, þetta er kannski aðeins of grimmilega orðað, en í stóra samhenginu skiptir það ekki fjandans máli hvort eitthvað af liðunum í Austurdeildinni vinnur 35 leiki í stað 25 - það er ekki að fara að gera neitt í vor. Og hér ætlum við að skoða stóra samhengið - taka smá vörutalningu.



Kíkjum þá í Vesturdeildina.

Eins og einhver orðaði það á Twitter um daginn: "Guði sé lof fyrir lið eins og Golden State og San Antonio - annars myndi NBA deildin ekki meika sens lengur!"

Það er mikið til í þessu. Golden State og San Antonio eru nefnilega einu liðin í Vesturdeildinni sem eru að spila eins og þau hafa burði til - og meira að segja betur. Miklu betur, satt best að segja.

Við erum búin að skrifa Golden State svo fast ofan í kokið á ykkur í vetur að mörg ykkar hafa ekki lyst á meiru, en við höfum minna skrifað um San Antonio.

Það að Spurs hafi ekki fengið mikla umfjöllun er svo sem eðlilegt upp að vissu marki, því þetta lið er búið að vera meistaraefni nánast óslitið í tuttugu ár og þegar svo er, hættir mönnum við að fara að leita eitthvað annað eftir umfjöllunarefni.

Nú er hinsvegar svo komið að við verðum að fara að beina sjónum okkar að San Antonio aftur, því þar eru stórmerkilegir hlutir í gangi. 

Við viðurkennum fúslega að við höfum ekki horft mikið á Spurs spila í vetur, en á því fer að verða breyting. Gregg Popovich er nefnilega farinn að sýna töfrabrögð enn eina ferðina. 

Það er vissulega aðeins desember og þegar lið eins og Spurs eru annars vegar er einfaldlega ekki tímabært að fara eitthvað að taka þau út svo snemma á leiktíðinni. Lið eins og Spurs eru tekin út í júní og dæmd út frá því hvort þau unnu meistaratitilinn eða ekki - svona fáránlega háan standard er þetta lið bara búið að setja sér.

En þó sé bara desember, erum við þó alveg nógu auðmjúk til að viðurkenna það enn eina ferðina að við höfðum kolrangt fyrir okkur með þetta Spurs-lið í vetur. 

Eitt af því fáa sem við vorum tilbúin í að slá föstu í haust var að þetta Aldridge-dæmi hjá Spurs - þessi síðasta tilraun liðsins með Tim Duncan og félaga í lykilstöðum - ætti ekki eftir að ganga upp.

Eins og við sögðum, við fáum ekki endanlegan botn í þann spádóm fyrr en í júnílok, en við erum alveg til í að taka það á okkur að við höfðum rangt fyrir okkur - amk hvað varðar deildarkeppnina. Við áttum alls ekki von á að San Antonio yrði að berjast um 1. eða 2. sætið í Vesturdeildinni í deildarkeppninni í vetur. 

Og ekki endilega af því við værum ekki viss um hvernig varnarleikur liðsins yrði eða hvernig það ætti eftir að ganga að púsla LaMarcus Aldridge inn í dæmið, heldur af því keppinautar liðsins í vestrinu ættu einfaldlega eftir að verða svo góðir.

Við getum svo sem deilt um hvernig hefur gengið að koma Aldridge inn í sóknarleik Spurs, en styttri útgáfan af þeirri deilu er að það hefur virkað nógu vel og heilsa lykilmanna hefur verið þokkaleg (sem er alltaf algjört lykilatriði þar á bæ eins og reyndar annars staðar).

Það sem enginn í heiminum sá hinsvegar fyrir, var að þetta San Antonio-lið myndi allt í einu breytast í út úr steraða ófreskju í varnarleiknum. En getið þið hvað? Auðvitað gerðist það...

Vörn San Antonio er að fá á sig 92,0 stig á hverjar 100 sóknir það sem af er í vetur, sem er ekkert minna en sögulegur varnarleikur. Við vitum alveg að það er bara desember, en 27 leikja úrtak er meira en nógu stórt til að draga af þá ályktun að San Antonio er spila gjörsamlega bilaðan varnarleik!

Hversu bilaðan, spyrðu? 

Við þurfum ekki annað en kíkja á liðið sem er með næstbesta varnarleikinn í NBA til að átta okkur á því í hvurslags sérflokki Spurs-liðið er í þessum efnum. 

Einhverra hluta vegna er það Chicago sem er með næstbesta varnarleikinn í deildinni og fær á sig 96,2 stig per 100 sóknir, sem er hvorki meira né minna en 4,2 meira en San Antonio.

Og til að átta okkur betur á þessu, er liðið sem er sirka 4,2 stigum fyrir neðan Chicago á listanum í þrettánda sæti yfir bestu vörnina í NBA (LA Clippers, 100,9). Það er með ólíkindum.

Til frekari samanburðar má nefna að Warriors var með bestu vörnina í NBA deildinni á síðustu leiktíð (98,2) og þá voru aðeins þrjú lið í deildinni að halda mótherjum sínum undir 100 stigum per 100 sóknir (Warriors, Bucks, Spurs og Grizzlies).

Lið sem spila varnarleik sem er eitthvað í námunda við þann sem San Antonio er að spila núna, eru einfaldlega meistaraefni ef þau eru á annað orð með mælanlegan púls í sóknarleiknum. 

Og já, San Antonio er með vel rúmlega mælanlegan púls í sóknarleiknum. Nánar tiltekið 106,1 stig per 100 sóknir, sem er þriðja besta sóknin í deildinni á eftir Golden State (asnalega fáránleg 113,1 stig per 100 sóknir) og Oklahoma City (107,6).

Ef San Antonio er ekki meistaraefni núna, þá hefur það aldrei verið það. 

Það er enginn að tala um það, sem er akkúrat eins og Popovich og félagar vilja hafa það, en það er bara tímaspursmál hvenær menn fara að tala um það. 

Sigurganga Warriors hélt sviðsljósinu frá Spurs í margar vikur og núna er félagaskiptaslúðrið að taka við, svo það má vel vera að þeir sleppi jafnvel við að komast á forsíður enn um sinn þeir svartklæddu.

Forráðamenn Spurs eru klárir í verkefnið sem fram undan er og létu sitt ekki eftir liggja til að tryggja að liðið hefði það sem vantaði. 

Þeir eyddu þannig um 31 milljarði króna til að tryggja sér þjónustu manna eins og Aldridge, Kawhi Leonard, Danny Green, David West, Manu Ginobili og auðvitað Tim Duncan, sem er límið í öllu saman.

LaMarcus Aldridge hefur í sjálfu sér smollið þokkalega inn í spilamennsku San Antonio, en á þó enn langt í land og fær líka nægan tíma til að gera það.

Maðurinn sem spilar best allra hjá Spurs og á stóran þátt í velgengni liðsins á báðum endum vallarins er auðvitað Kawhi Leonard, sem er orðinn neyðarkarl Spurs í sókninni hvort sem honum líkar betur eða verr. 

Við gerðum ruglinu sem hann er búinn að bjóða upp á undanfarið skil í þessum pistli og hann hefur sannarlega ekki slakað á síðan.

Á meðan menn eins og Kobe Bryant eru að berjast við að gera sig ekki að fífli á lokametrunum á ferlinum, heldur ellismellurinn Tim Duncan bara áfram að vera þessi stórkostlegi leikmaður sem hann hefur verið í bráðum 20 ár.  

Tölurnar hans Duncan fá engan til að falla í yfirlið, en hver haldið þið að sé fyrirliði og leiðtogi liðsins sem er í öðru sæti í deildinni og sé akkerið í einni sterkustu vörn sem sést hefur í deildinni?

Það er ekki víst að Jón Jónsson í Kringlunni átti sig á því, en meðan menn eins og Kobe og Nowitzki eru að berjast við að gera meira gagn en ógagn á vellinum á síðustu árunum sínum í NBA, heldur Tim Duncan bara áfram að hlaða ELÓ-stigum inn á lygilegan feril sinn.

Tim Duncan er einfaldlega besti leikmaður sinnar kynslóðar í NBA deildinni, að það er ekki einu sinni spennandi pæling lengur - ef hún hefur þá einhvern tímann verið það yfir höfuð. Þeir eru ekki margir leikmennirnir sem hafa gegnt svo mikilvægu hlutverki svona lengi á ferlinum - og gert það jafn vel allan tímann og Tim Duncan. 

Þeim fer líka fækkandi, nöfnunum sem eru fyrir ofan Tim Duncan á lista bestu körfuboltamanna allra tíma. Það er bara þannig.



Í haust, héldum við að það yrði nóg af liðum í Vesturdeildinni til að keppa um það að fá að mæta Cleveland í lokaúrslitunum í júní á næsta ári, en annað hefur heldur betur komið á daginn og það er helsta ástæða þess að þessi pistill varð til.

Í dag, eru nefnilega ekki nema þrjú lið sem hafa burði til að vinna meistaratitilinn næsta sumar. Cleveland, Golden State og San Antonio. Önnur lið eru, því miður, einfaldlega klassa fyrir neðan þau af styrk og getu.

Liðið sem er bókstaflega í sætinu fyrir neðan Golden State og San Antonio í töflunni er Oklahoma City. Einhver hefði kannski viljað að við settum Oklahoma á lista með meistaraefnunum þremur, en því miður er þetta lið enn sem komið er langt frá því að eiga fyrir því.

Oklahoma er og verður alltaf bæði sterkt og hættulegt lið meðan það hefur Kevin Durant, Russell Westbrook og Serge Ibaka.

En hvort sem það skrifast á aðlögunarferlið að nýja þjálfaranum eða leti, er það fyrst og fremst varnarleikurinn sem gerir það að verkum að þetta lið er bara ekki nógu sterkt. 

Oklahoma er enn að tapa leikjum sem það á að vinna auðveldlega af því á löngum köflum, leik eftir leik, getur það ekki dekkað drullu. 

Það er óafsakanlegt fyrir lið af þessu kalíberi og það getur sannarlega ekki búist við því að fá neina barnagagnrýni frá okkur, því það er búið að valda okkur vonbrigðum. Og lið sem valda okkur vonbrigðum fá það alltaf hrátt. Af því við viljum sjá þau fara lengra - af því við fílum þau.

Það getur vel verið að þeir Durant og Westbrook séu að bjóða upp á enn fáránlegri tölfræði en áður, sem er ekki auðvelt verk, en þangað til þetta lið tekur sig saman í andlitinu og fer inn á topp fimm í varnarleiknum - á það ekkert erindi í titlatal. Það er bara þannig.

Annað lið sem átti að vera með í titlaumræðunni er LA Clippers, en þar á bæ eru sömu vandamálin og alltaf og enn sem komið er er þessi meinti liðsstyrkur sem klúbburinn fékk í sumar ekki að skila nokkrum sköpuðum hlut. 

Það verður aldrei leiðinlegt að horfa á Chris Paul, Blake Griffin, JJ Redick og DeAndre Jordan spila körfubolta, en restin af liðinu er bara ekki nógu góð og svo finnst okkur það skína í gegn með augljósari hætti en nokkru sinni áður að nokkrir af lykilmönnum Clippers eru ekki beint á jólakortalistanum hjá hver öðrum.



Munið þið þegar Houston Rockets var að spila til úrslita um Vesturdeildartitilinn í vor?  Auðvitað munið þið eftir því - meira að segja við munum eftir því - og við munum ekki hvað við vorum að gera í gær.

Þess vegna héldum við að þetta lið yrði enn sterkara þegar það fékk Ty Lawson til sín fyrir ekkert og tölum nú ekki um ef eitthvað af leikmönnum liðsins næðu að hanga heilir. Héldum við að Houston væri meistaraefni í vetur? Kannski, kannski ekki, en hæfileikarnir áttu að vera til staðar til að gera eitthvað skemmtilegt.

En, nei.

Aðeins Chelsea er búið að drulla eins hrottalega á sig í vetur og Houston. Kevin McHale þurfti að taka pokann sinn, en eins og allir vissu, var hann auðvitað ekki vandamálið, þannig að liðið hefur ekkert verið skárra eftir að hann var rekinn.

Vandamálið er að það er enginn karakter í þessu liði. Það er hafsjór af hæfileikum þarna, en nánast enginn karakter til að keyra þá áfram.

James Harden og (sérstaklega) Dwight Howard, meintir leiðtogar liðsins, eru það bara alls ekki. Þið munið kannski eftir því hvað við hraunuðum oft yfir Houston fyrir karakters- og baráttuleysi á síðustu leiktíð, ekki síst í úrslitakeppninni. 

Þetta hraun átti fyllilega rétt á sér og þetta hrun sem orðið hefur hjá Houston núna þykir okkur undirstrika aðra dapurlega staðreynd - að skitan hjá Clippers þegar það tapaði einvígi fyrir Houston eftir að hafa náð 3-1 forystu - var talsvert stærri en við héldum áður.

Þetta segir okkur, strangt til orða tekið, að hvorki Clippers né Houston hafi það sem til þarf til að ná lengra en þau hafa náð til þessa. Menn verða að eiga stórustrákabuxur ef þeir ætla að fara í úrslit - og þess konar klæðnaður virðist ekki vera til í skápnum hjá Houston og Clippers. Því miður.


Það er stutt síðan Portland var inni í þessari umræðu, en lið eiga það til að taka dýfu þegar þau henda byrjunarliðunum sínum á einu bretti. Annað lið sem hefur verið með í þessari umræðu síðustu 5-6 ár er Memphis, en nú er það loksins að gerast sem margir voru búnir að bíða eftir - að grýtan og grændið virðist vera komið á endastöð.

Það hefur loðað við Memphis Grizzlies undanfarin ár að það hefur alltaf verið eitthvað drama í gangi á skrifstofunni hjá félaginu og nú berast meiri fregnir af slíku. Dave Joerger þjálfari ku sitja í volgum stól og annað eins hefur nú gerst þegar lið fá hvern risaskellinn á fætur öðrum. 

Við erum búin að segja það í mörg ár: Memphis hefur alltaf verið mjög gott lið, en metnaðurinn til að koma þessu liði yfir þröskuldinn var því miður bara ekki til staðar og nú virðist rafhlaðan bara vera að tæmast.


Það er dálítið skondið að þegar þetta er skrifað, skuli Dallas og Denver bæði vera inni í myndinni í úrslitakeppninni. Denver er að vinna um það bil þrisvar sinnum fleiri leiki en nokkur þorði að reikna með og þó það eigi eftir að breytast fljótlega, er ekki hægt annað en taka ofan fyrir Mike Malone þjálfara. Ákvörðun Sacramento að reka hann á síðustu leiktíð er alltaf að líta betur og betur út, eða hitt þó heldur.

Öðru máli gegnir um Dallas Mavericks, en þar á bæ eru menn að gefa bæði okkur og öðrum langt nef eftir að við spáðum liðinu löngum og erfiðum vetri. Það sem er helsta ástæða velgengni Dallas er umfram allt sú að liðið laug því að það fengi lykilmenn sína ekki til baka úr meiðslum fyrr en langt yrði liðið á leiktíðina. 

Við hefðum alveg spáð því að Dallas ætti eftir að byrja 14-12 ef það yrði með flesta sína menn heila megnið af leiktíðinni. Þetta er allt gott og vel fyrir Mafs, en við sjáum þetta lið nú samt ekki fara mjög langt í vor, til þess eru allt of mörg göt í leikmannahópnum og allt of stutt í að Deron Williams og Chandler Parsons detti úr leik vegna meiðsla.



Houston átti eins og áður sagði stærstu skituna í Vesturdeildinni, en fast á hæla Texas-manna koma Brúnar og félagar í New Orleans. Við tippuðum á að New Orleans ætti eftir að verða 42-44 sigra lið í vetur á meðan margir þeir bjartsýnustu ætluðu liðinu yfir 50 sigrana og Davis í MVP-umræðuna.

Allt annað hefur þó komið á daginn - og New Orleans er svo hrikalega í skítnum (7-18) að aðeins Lakers er verra í Vesturdeildinni og fá lið eru eins mikið orðuð við mannabreytingar í vetur. Þannig er talið nokkuð öruggt að Ryan Anderson sé á leið frá liðinu og hann er ekki eini maðurinn sem sagður er á sölulista þar á bæ, enda hefur lögmál Murphys sannarlega átt við hjá liðinu í vetur.

Þetta var það helsta sem við höfðum að segja um stöðu mála í Vesturdeildinni ef miðað er við heildarmyndina góðu og spáð er í það hvaða lið séu að gera sig líkleg til afreka í vor og sumar.