Monday, June 17, 2013

Þetta gat aðeins farið á einn veg


San Antonio hefur náð 3-2 forystu í úrslitaeinvíginu um NBA meistaratitilinn eftir magnaðan 114-104 sigur á Miami í fimmta leik liðanna í Texas í nótt. Ef ekki væri fyrir NBA Ísland og jinxkrafta ritstjórnarinnar, væri San Antonio undir 3-2 og horfði fram á að þurfa að vinna tvo leiki í röð í Miami.

Auðvitað var pistillinn sem við skrifuðum í gær ekkert annað en vandlega staðsettur þráður í vef örlaganna. San Antonio átti ekki möguleika í fimmta leiknum nema við tækjum okkur til og reverse-jinxuðum x-faktórinn í einvíginu til andskotans.

Við urðum að gæta þess að tilætlanir okkar væru ekki of augljósar og því varð pistillinn að vera sannfærandi. Við urðum að keyra Manu Ginobili í kaf til að gefa örlögunum start og það tókst - með látum.

Við meintum hvert orð sem við sögðum í pistlinum í gær og stöndum við það. Ginobili er ekki sami maður og hann var.

Góður lesandi orðaði það best þegar hann sagði að Manu gæti í besta falli haft áhrif á einstaka leik, en ekki heilu einvígin eins og hann gat áður.

Einhver varð að kasta grjóti í örlögin og við tókum þetta á okkur til að fá sem flesta leiki í einvígið. San Antonio þurfti á hjálp að halda - og þá sérstaklega argentínski vinur okkar.

Það var ekkert, Manu. Nú verður þú hinsvegar að sjá um restina af þessu, við höfum séð um okkar part.

Rödd Charles Barkley ómar í höfðinu á okkur:

"GINOBILIIIIIIIIIII!!!"

Þið megið hlæja að okkur alveg fram á næsta tímabil. Okkur er sama. Þetta dásamlega úrslitaeinvígi verður langt og skemmtilegt og Manu lifir - í versta falli í nokkra daga í viðbót.

Við höfum aldrei gefið okkur úr fyrir að hafa vit á körfubolta, en við getum jinxað hitabylgju yfir Norðurpólinn ef við vöndum okkur.

Og vakið körfuboltamenn upp frá dauðum, greinilega.

En Manu okkar á ekki allan heiðurinn.

Þrátt fyrir að San Antonio hafi á köflum leikið frábæran bolta í fimmta leiknum í nótt, var með ólíkindum hvað Miami var fljótt að keyra inn í leikinn aftur með snörpum áhlaupum sem komu oftast algjörlega upp úr þurru.

Leikmenn Spurs gerðu sig hvað eftir annað seka um einbeitingarleysi og klaufamistök og það er bara dauðasök á móti sterku liði eins og Miami.

Þú tekur tvö illa ígrunduð skot og missir tvo bolta - og allt í einu er Miami búið að taka 11-0 sprett á þig á rúmri mínútu. Það er með ólíkindum.

Þegar þetta er ritað er eflaust verið að lyfjaprófa Danny Green hjá San Antonio. Það nær ekki nokkurri átt hvað drengurinn er að hitta vel.

Green er búinn að skora 90 stig í lokaúrslitunum og skora 25 þrista, en það er meira en hann gerði
í deildakeppninni samanlagt bæði 2010 og 2011.

Hann nýtir 66% þrista sinna í lokaúrslitunum og er búinn að slá met Ray Allen yfir flesta skoraða þrista á stóra sviðinu.

Tony Parker gerði líka sitt þó hann væri augljóslega ekki á fullu gasi. Segir sína sögu um það hvað hann er góður og hvað við leggjum mikið á herðar hans að hann skuli skila 24 stigum (10-14 í skotum) á felgunni vegna meiðsla í læri.

Það getur vel verið að Miami hafi tapað þessum leik og hvað eftir annað lent um 20 stigum undir í þessum leik, en við höfðum það á tilfinningunni að liðið væri aldrei mjög langt undan.

Við fengum samt ekki þessa ofurframmistöðu frá Sólstrandargæjunum og við fengum í leik fjögur.

Okkur grunaði það svo sem, en það var ekki mikið út á frammistöðu þeirra að setja. Stjörnurnar voru að hver um sig að skila ágætisleikjum heilt yfir.

Enn eina ferðina hefur orðið viðsnúningur í þessu einvígi. Enn og aftur er San Antonio komið yfir eftir að hafa verið komið langt undir á stigum og útlitið verið farið að dökkna.

Það lítur ekkert illa út fyrir svona rútínerað lið eins og San Antonio að þurfa bara að vinna einn af næstu tveimur leikjum sínum til að landa titlinum enn eina ferðina - jafnvel þó það þurfi að gerast á útivelli.

En Miami á að sjálfsögðu eftir að líða betur á heimavelli sínum og þið vitið hvað gerist alltaf þegar Miami tapar - það kemur öskrandi í næsta leik.

Ef næsti leikur verður þannig eitthvað í takt við annað í þessu einvígi, vinnur Miami auðveldan stórsigur í næsta leik og við fáum hreinan úrslitaleik á fimmtudaginn.

Það yrði nú ekki leiðinlegt.

Við skulum samt ekki fara fram úr okkur. Draumar okkar allra sem erum hlutlaus í þessu rættust með sigri Manu og félaga í nótt.  Fjörið heldur áfram og við eigum dásamlega leiki í vændum, jafnvel þó hlegið verði að sumum okkar - gangandi um með ullarsokka í kjaftinum.

Það er ekki nema ánægjulegur fórnkostnaður fyrir svona veislu. Amen.