Monday, March 14, 2016
Oklahoma er í bullandi vandræðum
Við urðum að segja eitthvað. Ekki getum við þagað yfir þessu. Yfir áhyggjum okkar af Oklahoma-liðinu okkar. Við erum búin að tuða um það bitur og hás í allan vetur að Oklahoma sé ekki meistaraefni af hinum og þessum ástæðum, en viðurkennum að hafa í leiðinni verið að reyna að jinxa liðið inn á sigurbraut.
Við héldum að Oklahoma yrði að gera nákvæmlega þessa hluti sem San Antonio er að gera í vetur. Ekki svona geimverustöff eins og Golden State, en samt, vinna um það bil átta af hverjum tíu leikjum sínum. Það var allt í spilunum. Loksins voru allir heilir og það var kominn nýr þjálfari, sem átti að blása lífi í þetta og tryggja að nú yrði Oklahoma hættulegasti andstæðingur Golden State í deildar- og úrslitakeppni.
Einmitt.
Sem betur fer misstum við af því þegar Oklahoma drullaði á sig með því að tapa fyrir Minnesota á föstudagskvöldið, því hefðum örugglega brotið eitthvað ef við hefðum orðið vitni að því.
Okkur datt ekki í hug að brjóta eitt eða neitt þegar við sáum OKC tapa fyrir San Antonio kvöldið eftir. Það var ekkert í spilunum að Spurs ætti eftir að tapa þeim leik.
Við ákváðum því að gera tölfræðilega úttekt á því hvað væri að og hvað væri ekki að hjá Oklahoma. Svona af því okkur stendur ekki á sama. Og niðurstaðan úr þeim skítmokstri?
Hún er sú að þeir Russell Westbrook og Kevin Durant eru helvíti góðir í körfubolta og spila oftast vel, þó þeir séu báðir búnir að gera sig seka um alls konar klaufagang að undanförnu.
Sá fyrrnefndi átti til að mynda mjög stóran þátt í því að liðið tapaði fyrir San Antonio. Westbrook var mestmegnis hræðilegur í þeim leik.
Það særir okkur inn að dýpstu hjartarótum að skrifa þetta, en Russ var bara hræðilegur á laugardagskvöldið. Hitti ekki neitt, kastaði boltanum frá sér oftar en góðu hófi gegnir og tók nokkrar varnarstöður sem James Harden hefði skammað hann fyrir.
En eins og við segjum. Þeir Durant og Westbrook spila samt oftast vel og því þurfum við að leita eitthvað annað en til þeirra til að finna hvað er að Oklahoma-liðinu. Og vitið þið hvað? Það er ALLT annað að hjá þeim. ALLT!
Serge Ibaka á nokkrar rispur, Enes Kanter tekur nokkrar rispur, en ALLT annað er handónýtt hjá Oklahoma. Það er kannski ósanngjarnt að ætlast til þess að Billy Donovan búi til ofurlið úr Oklahoma eftir 60 leiki, en okkur er fjandans sama.
Hann hefur einfaldlega fallið illa á prófinu það sem af er í vetur og það hræðilega við það er að hann er ekki einu sinni með aðstoðarmenn. Tveir helstu aðstoðarmenn hans eru fjarri góðu gamni. Annar af því hann þurfti í aðgerð sem kostar að hann verði lengi frá og hinn verður ekki meira með í vetur af því Guð hatar hann.
Og eigum við eitthvað að telja upp þessa svokölluðu aukaleikara hjá Oklahoma? Við missum allan vilja til að lifa við það eitt að heyra einhvern nefna þá Dion Waiters og Kyle Singler á nafn. Þeir geta EKKERT í körfubolta og það hræðilega er, að Billy Donovan er ekki að fatta það.
Hann heldur í raun og veru að það sé bara allt í lagi að senda þá inn á körfuboltavöll og ætlast til þess að þeir geri eitthvað til að hjálpa liðinu að vinna.
Durant og Westbrook spila fjórir á fimm þegar annað hvort Waiters eða Singler er inni á vellinum og því þrír á fimm ef þeir eru báðir inná. Þetta er ekkert grín.
Rúsínan í afturendanum er svo varnarleikur liðsins, sem er gjörsamlega afleitur í níu af hverjum tíu leikjum. Hann var þokkalegur í leikjunum á móti Golden State um daginn og lengst af þokkalegur á móti Spurs um helgina, en það verður líka að taka það með í reikninginn að Oklahoma átti mjög lítinn þátt í því að San Antonio hitti ekki úr nema þremur af þrjátíuogníuþúsund þriggja stiga skotum sínum í leiknum - sem er mjög sjaldgæft.
Til að súmmera þetta upp, er Oklahoma sem sagt með gallað byrjunarlið, gjörsamlega vanhæfan varamannabekk, nennir ekki og kann ekki að spila vörn, er með vanhæfan aðalþjálfara og enga aðstoðarþjálfara.
Þetta er ekkert spes. Ekkert veganesti inn í úrslitakeppni sem byrjar eftir örfáar vikur.
Ekki beint meistaraefni hér á ferðinni.
Ef Clippers-liðið væri ekki að springa á limminu í fjarveru Blake Griffin þessa dagana (50% vinningshlutfall í mars) og með erfiða leiki handan við hornið, myndi Oklahoma missa þriðja sætið í Vesturdeildinni í hendur Clippers.
Og það er alls ekki útilokað að það gerist, þó útlitið virki frekar dökkt hjá Clippers núna.
Við skulum bara segja að ef Griffin fer að drullast aftur í vinnuna og Oklahoma heldur áfram að spila eitthvað í líkingu við það sem það hefur gert frá því í Stjörnuleiknum, er Clippers að fara að hirða þetta sæti af þeim.
Og þið vitið hvað fjórða sæti í vestrinu þýðir. Það þýðir Golden State í annari umferð - ef þú kemst þangað á annað borð.
Oklahoma er 4-8 síðan um Stjörnuleikshelgina í síðasta mánuði, sem á ekki að vera fræðilega hægt. Öll lið eiga sína slæmu daga og erfiðu kafla, NBA deildin er svo grimm að það er óhjákvæmilegt, en að lið með svona mannskap og þetta trakk-rekkord skuli vera að tapa átta af tólf er gjörsasmlega óafsakanlegt og ekkert annað en hálfvitagangur og metnaðarleysi!
Já, við erum bókstaflega sár yfir þessu, þetta er svo lélegt.
Þessi vandræðagangur á Oklahoma er eins og fundinn fjársjóður fyrir fjölmiðla eins og ESPN, sem fá nú átyllu til að skrifa um það hvernig "nú sé Kevin Durant allt nema farinn frá Oklahoma" af því liðið er svo lélegt.
Honum detti ekki í hug að framlengja samning sinn við lið sem tapar átta af tólf. Svona hugsa þessir vitleysingar. Að maður hendi bílnum sínum á ruslahaugana og kaupi sér nýjan af því það var orðið lítið bensín eftir á þeim gamla.
Þið vitið að við hugsum ekki svona og að við vildum óska þess alveg jafn heitt og þið að Kevin Durant væri kominn með nýjan samning svo þetta andskotans skrum í kring um hann hætti, en þetta er víst ekki svo gott.
Svo það komi fram, viljum við umfram allt að Durant framlengi bara við sitt félag og haldi áfram að einbeita sér að því að spila körfubolta, því það eru afar litlar líkur á því að hann geti fundið sér álitlegri pakka hjá einhverju öðru félagi.
Jú, jú, Oklahoma er krummaskuð og sveitabær sem er álíka spennandi og Bergman-mynd, en þar hefur hann allt til alls - eða svo gott sem.
Kannski er hann samt orðinn leiður á því að standa í slagnum í Oklahoma og kannski verður hann þunglyndur þegar liðið fellur úr leik fyrir San Antonio í annari umferð úrslitakeppninnar. Hver veit.
En hvað svo sem verður með þessi blessuðu samningamál hans í framtíðinni, er alveg ljóst að mál málanna akkúrat núna er að rétta liðið sem hann spilar með í dag við hið snarasta af því það er að fara á hliðina.
Og við erum búin að sjá alveg nógu mörg lið fara á hliðina í vetur, svo eitt af toppliðunum fari ekki að gera það líka.
Efnisflokkar:
Billy Donovan
,
Drullan upp á herðar
,
Kevin Durant
,
Russell Westbrook
,
Thunder