Wednesday, March 30, 2016

Rauntal frá NBA Ísland


Nú eru aðeins tvær vikur eftir af deildarkeppninni NBA og ekki laust við að sé kominn titringur í menn og konur fyrir úrslitakeppninni - hún er jú byrjuð hér heima. Áður en við förum í úrslitakeppnina, þurfum við samt að gera upp nokkur ansi þýðingarmikil atriði.

Þar ber auðvitað hæst hvort Golden State nær að slá met Chicago Bulls frá árinu 1996 yfir flesta sigra í deildarkeppninni (72-10). Við ætlum ekki að jinxa Curry og félaga með því að fjalla um það að svo stöddu, en svo verður líka áhugavert að vita hvort Golden State eða San Antonio nær að fara í gegn um leiktíðina taplaust á heimavelli, sem er afrek sem engu liði í sögu deildarinnar hefur tekist til þessa.

Þessi leiktíð er búin að vera ein sú furðulegasta sem við höfum upplifað frá því við byrjuðum að fylgjast með NBA fyrir um það bil aldarfjórðungi síðan og það ekki bara á "góðan" furðulegan hátt. Það er vegna þess að á meðan Golden State og San Antonio eru búin að keyra í gegn um Vesturdeildina eins og Caterpillar D-11 jarðýtur fastar í botni, er megnið af hinum liðunum vestan megin (og austan megin líka, svo sem) búið að valda okkur gríðarlegum vonbrigðum.

Þið vitið að NBA Ísland talar íslensku þegar kemur að NBA deildinni og að ef við skiptum yfir í #realtalk, þá hefur þessi leiktíð einfaldlega verið léleg.

Það er fáránlegt að segja það í ljósi þess hvað t.d. Warriors-liðið er að gera, en það er því miður bara staðreynd. Þessi leiktíð er búin að vera ein sú slakasta í mörg ár og eins asnalega og það hljómar, má vel vera að það sé að stórum hluta meisturunum að kenna.

Það er til dæmis ekki eins og það sé búin að vera einhver spenna í keppninni um efsta sætið í Vesturdeildinni - og það þrátt fyrir að liðið í öðru sæti sé að bjóða upp á árangur sem hefði nægt því til að ná fyrsta sætinu á nítján af hverjum tuttugu leiktíðum. Nei, strangt til tekið er þetta bara búið að snúast um Golden State-liðið að keppa við sjálft sig í allan vetur - svo ógeðslega sterkt er það búið að vera.


Með fullri virðingu fyrir Golden State, sem á 100% skilið að hirða efsta sætið í allri deildarkeppninni, þykir okkur nauðsynlegt að benda á að ef Vesturdeildin hefði verið jafn sterk í ár og hún hefur verið síðustu tíu ár, er algjörlega útilokað að Warriors væri við það að slá met Bulls frá því fyrir 20 árum.

Það hefur hjálpað Golden State, að megnið af liðunum sem eru búin að vera frábær í vestrinu undanfarin ár, eru búin að valda miklum vonbrigðum í vetur. Þetta er bara staðreynd, en það er auðvitað ekki Warriors að kenna þó þessi lið séu búin að drulla svona á sig. Þú getur bara unnið liðin sem sett eru fyrir framan þig, eins og þið vitið.


Svona tuð segir kannski meira um okkur og okkar "glasið galtómt" viðhorf til lífs og leikja, en við erum amk hreinskilin með það. Það má vel vera að margir þarna úti séu algjörlega ósammála okkur og séu að tapa sér af gleði yfir þessari leiktíð. Við erum samt alveg viss um að mörg ykkar séu sammála okkur - að Golden State sé dálítið búið að eyðileggja þessa leiktíð.

Þetta þýðir þó ekki að körfuboltinn og mennirnir sem spila hann séu búnir að vera eitthvað lélegir, því fer fjarri, og þess vegna eigum við líka von á alveg stórkostlegri úrslitakeppni. Jú, það má vel vera að fyrsta umferðin í vestrinu verði ekki besta skemmtun í heimi, en fjögurra liða úrslit og úrslit þeim megin í landinu verða algjör rjómi.

Styrkur liðanna í austrinu er ekki sambærilegur og þó það sé ólíklegt að Cleveland fái raunverulega samkeppni þar, verður forvitnilegt að sjá hvaða lið nær að koma á óvart og ná alla leið í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar. Þeim megin eru hlutirnir nefnilega svo jafnir að það er algjörlega ómögulegt að segja til um hvaða lið muni fara áfram í úrslitakeppninni. Við fáum að sjá nokkrar nýjar hetjur verða til í austrinu í úrslitakeppninni. Það er öruggt mál.


En eins og við sögðum, eigum við eftir að gera deildarkeppnina upp áður en við vöðum út í úrslitakeppnina. Þar munum við skrifa stutta hugleiðingu um magnaða deildarkeppni hjá Warriors, hvernig svo sem það endar allt saman, en svo eigum við líka eftir að hrauna yfir nokkur lið sem eru búin að gera sig að fífli í allan vetur.

Og talandi um að gera sig að fífli - við erum ekki undanskilin í þeim efnum. Við eigum eftir að fara yfir Vegas - undir/yfir spá okkar frá því í haust og sjá hvað við erum verstu spámenn í heimi enn eitt árið. Það er alltaf hressandi.

Við erum ekki búin að skrifa mikið að undanförnu og ástæðan fyrir því er það sem við sögðum hérna fyrir ofan. Það breytist mjög líklega í úrslitakeppninni og þið megið eiga von á góðu stöffi frá okkur bæði í skrifum og hlaðvarpi fram í júní.

Þið munið kannski eftir því að við óskuðum eftir framlögum frá áhugasömum og fjársterkum aðilum til að hjálpa okkur við rekstur síðunnar um daginn. Þegar við betluðum í lesendum í fyrra, voru viðtökurnar ljómandi góðar, en um daginn voru þær svo skelfilegar að það mátti sjá fólk fella tár á ritstjórninni. Við vorum satt best að segja hálf móðguð.

Við ætlum því að halda áfram að væla í ykkur þangað til þetta brýna erindi fær betri móttökur. Það eina sem þið þurfið að gera er að smella á gula hnappinn sem á stendur "Þitt framlag" og láta svo hugmyndaflugið ráða. Það þarf ekki mikið til að gleðja okkur, ágætu lesendur.