Njarðvík er komið í undanúrslitin í Flatbökudeild karla eftir 79-75 útisigur á Stjörnunni í Ásgarði í gærkvöldi. Þessi sería er búin að vera myljandi jöfn og skemmtileg og við munum í fljótu bragði ekki eftir seríu þar sem allir leikir unnust á útivelli.
Kannski erum við að verða viðkvæmari með aldrinum, en við finnum alltaf meira og meira til með liðunum sem falla út úr úrslitakeppninni eftir hetjulega baráttu í hnífjöfnum rimmum líkt og Stjarnan var að gera í gærkvöldi.
Það er reyndar meira í þessu. Við erum eflaust að taka tap Garðbæinganna svona inn á okkur af því okkur er farið að þykja svo vænt um höfðingjana í liðinu - bæði leikmenn og þjálfara. Hrafn þjálfari lýsti því yfir í samtali við Vísi að hann hefði áhuga á að halda áfram með liðið og við vonum innilega að hann fái tækifæri til þess.
Hrafn er góður þjálfari og heiðursmaður sem nýtur vináttu og virðingar ritstjórnar NBA Ísland - alveg eins og forveri hans Teitur Örlygsson og raunar báðir þjálfarar Njarðvíkurliðsins. Það er svo auðvelt að halda upp á lið sem eru þjálfuð af svona toppmönnum.
Á svona tímamótum er ekki laust við að við veltum því fyrir okkur hvort meistarar eins og Justin Shouse og Marvin Valdimarsson séu jafnvel farir að hugsa um að minnka eitthvað við sig þegar kemur að því að spila körfubolta. Við vonum að sjálfssögðu ekki, en hver veit.
Það sem við vitum hinsvegar, er að þeir Tómas Hilmarsson og Sæmundur Valdimarsson ætla að vera duglegir að lyfta og æfa sig í sumar og koma geggjaðir til leiks næsta haust (ef þeir stinga ekki af úr landi, það er að segja). Það er búið að vera gaman að sjá þá fá aukið hlutverk hjá liði Stjörnunnar í vetur. Þetta eru að verða fullorðnir menn.
Við óskum Njarðvíkingum til hamingju með að vera komnir í aðra umferðina eftir alla þessa sigra á útivelli. Það er búið að vera óskaplega mikið basl á þeim grænu í allan vetur, aðallega út af meiðslum, og enn sér ekki fyrir endann á því náttúrulega.
Nú er bara að sjá hvernig Njarðvíkingum vegnar á móti Íslandsmeisturunum. Við þurfum ekki að hafa mörg orð um það risaverkefni sem það er að mæta KR og Njarðvíkingar gera sér fulla grein fyrir því, en þeir ættu alveg að geta strítt Vesturbæingunum aðeins. Það eru bæði reyndir og góðir spilarar í þessu Njarðvíkurliði og þjálfarateymið er sannarlega ekki að byrja í þessu.
Við tókum eftir því að Stefán var gestur í Körfuboltakvöldi í gær og þó við hefðum misst af viðtalinu, verandi á vellinum, sögðu strákarnir í Körfuboltakvöldi okkur að Stefán hefði verið í ótrúlega góðum anda þrátt fyrir þessa grængolandi holskeflu mótlætis sem hann hefur orðið fyrir á liðnu ári.
Eitt sem við verðum að geta sérstaklega er mætingin og stemningin sem var í Ásgarði í gær, en bæði var til algjörrar fyrirmyndar. Við eigum ekki aðeins eftir að sakna Stjörnuliðsins í næstu umferð, heldur einnig Silfurskeiðarinnar, stuðningsmannasveitar Garðbæinga, sem er búin að standa sig frábærlega í úrslitakeppninni með skemmtilegum söngvum og tralli. Prik handa þeim.
Nú fáum við sem sagt KR-Njarðvík og Haukar-Tindastóll í semífænalnum.
Vá, það verður eitthvað, krakkar.
Hérna eru nokkrar myndir úr Ásgarði í gærkvöldi: