Sunday, December 30, 2012
Brooklyn-blús
Það er búið að reka Avery Johnson frá Brooklyn Nets eins og þú vissir. Við verðum bara að skrifa nokkrar línur um það af veikindavaktinni þó þetta sé gömul frétt.
Nokkuð sérstakt að þjálfari mánaðarins í nóvember sé rekinn nokkrum vikum síðar, en svona er þetta í NBA deildinni - sérstaklega hjá félögum sem eru að borga há laun og ætlast til að fá sigra í staðinn.
Avery Johnson var lengi vel búinn að vera í kósí djobbi hjá Nets. Hann notaði óþolandi röddina sína til að öskra á menn sem kunnu ekki körfubolta og töpuðu óhemju fjölda leikja. Það var ekkert verið að erfa það við Johnson, því það ætlast enginn til þess að þú farir með Jet Black Joe í úrslitakeppnina í NBA.
Núna er landslagið hinsvegar orðið allt annað. Nets er með besta bakvarðapar deildarinnar á pappírunum, borgar fullt af körfuboltamönnum fullt af peningum og nú á að fara að vinna.
Það heppnaðist framan af þegar liðið átti flúgandi 11-4 start í nóvember og vann meðal annars LA Clippers og New York Knicks, en svo datt botninn úr öllu saman.
Desember hófst á átta töpum í fyrstu tíu leikjunum og þeir fimm sigrar sem Nets hefur náð að druslast til að vinna í mánuðinum eru gegn stórveldum eins og Detroit, Cleveland, Charlotte og Toronto.
Aðeins sigurinn gegn Philadelphia getur talist góður sigur, hin liðin gætu tapað fyrir Newcastle og Norwich á góðum degi.
Það er rosalega auðvelt og freistandi að kenna Deron Williams um hvernig fór fyrir Johnson og við ætlum að gera það. Williams er hjartað og sálin í liði Nets og framtíð þess veltur öll á honum.
Eina afsökunin sem Williams hefur er sú að hann gengur ekki heill til skógar og hefur ekki gert síðan hann gekk í raðir Nets. Þegar Williams er í lagi, er hann launa sinna virði og í klúbbi með bestu leikstjórnendum heims.
En þegar úlniðurinn á honum er í klessu og hann fer í fýlu út í þjálfarann sinn, hjálpar hann liðinu sínu sorglega lítið. Og sú var raunin og þjálfarinn fékk sparkið.
Kannski er ósanngjarnt að klína öllu á Deron Williams. Hann þvertekur fyrir að vandræði Nets og brottreksturinn sé honum að kenna, en segist gera sér grein fyrir að hann fái blammeringarnar og segist gangast við þeim hvort sem það er sanngjarnt eða ekki.
Okkur er alveg sama hvort það er sanngjarnt eða ekki. Deron Williams er nú orðinn staðfestur þjálfaramorðingi í okkar augum. Var reyndar þegar orðinn það, en nú hefur hann tekið af allan vafa.
Deron Williams er ástæðan fyrir því að Jerry Sloan hætti að þjálfa og það er fyrst og fremst honum að kenna að Avery Johnson er á atvinnuleysisskrá.
Hvað framtíðina varðar hjá Nets, voru fjölmiðlar að sjálfssögðu fljótir að orða alla bestu þjálfara heims við félagið af því þeir vita að eigandi Nets þarf ekkert að brjóta sparigrísinn ef hann ætlar að landa góðum manni. Hann á nóg af aurum.
Einmitt þess vegna var strax byrjað að tala um Phil Jackson og eitthvað svoleiðis. Að okkar mati er það útilokað að Jackson tæki við Nets. Vissulega fengi hann feit laun og það freistar hans örugglega, en Jackson er í bransanum til að vinna titla og það er enginn efniviður til þess hjá Nets sem stendur.
Nets vegna vonum við að þjálfarinn sem landar djobbinu verði sterkur karakter, því það er ljóst að Deron Williams virðist hreint ekki tilbúinn til að vinna með hverjum sem er. Það höfum við fengið að sjá.
Það verður mikil áskorun að gera alvöru lið úr Nets þó vissulega séu þar hörkuspilarar inn á milli. Það hjálpar í þjálfaraleitinni að staðan verður vel borguð, en ekki búast við að næsti þjálfari verði þar í átta ár. Ekki frekar en að PJ Carlesimo geri góða hluti þar sem aðalþjálfari.
Efnisflokkar:
Ásakanaleikurinn
,
Deron Williams
,
Gildi og ákvarðanataka
,
Nets
,
Þjálfaramál
,
Þjálfaramorðingjar