Sunday, December 30, 2012

Kisurnar og Clippers með andstæðar rispur:


Mánudagurinn 26. nóvember sl. var nokkuð merkilegur dagur á NBA almanakinu okkar í ár. Þá áttu sér stað tveir tapleikir sem mörkuðu upphafið að miklum rispum í sitt hvora áttina.

Þessi lélega afsökun af körfuboltaliði sem kölluð er Charlotte Bobcats tapaði þetta kvöld hrottalega fyrir Oklahoma City 114-69 og lauk þar hreinlega keppni á tímabilinu, sem hafði byrjað svo efnilega.

Eins og frægt er orðið  vann Charlotte aðeins sjö leiki alla leiktíðina í fyrra og skilaði lélegasta vinningshlutfalli í sögu NBA deildarinnar.

Kisurnar byrjuðu ótrúlegt nokk 7-5 í haust og gott ef okkur varð ekki á að hrósa liðinu fyrir að jafna sigrafjölda síðustu leiktíðar strax í nóvember.  Síðan þetta var hefur beinlínis verið drulluslóð á eftir Charlotte, sem gæti allt eins verið með Sigga Storm og Axl Rose í byrjunarliði sínu.

Eins og þeir vita sem fylgjast með NBA, hefur Charlotte nú tapað 18 leikjum í röð frá 26. nóvember.

Á hinum endanum á spektrúminu er það Los Angeles Clippers sem brillerar sem aldrei fyrr.

Clippers hefur nefnilega ekki tapað leik síðan á umræddu mánudagskvöldi og hefur síðan unnið hvorki meira né minna en 16 leiki í röð, sem er löngu orðið félagsmet og meira til.

Það var nú ekki merkilegra lið en New Orleans Hornets sem var síðasta liðið til að leggja Clippers að velli, en Chris Paul og félagar töpuðu reyndar fjórum leikjum í röð áður en þeir fóru á þessa svakalegu rispu sem þeir eru á núna.

Ef allt væri eðlilegt myndi þessi pistill sem við skrifum um sigurgöngu Clippers nægja til að jinxa liðið í 87 stiga tap í næsta leik, en þannig vill til að andstæðingur liðsins í kvöld á álíka gengi að fagna og Aston Villa um þessar mundir svo við höfum engar áhyggjur af jinxi.

Sextándi sigurinn í röð hjá Clippers kom gegn Jazz á útivelli í fyrrakvöld og það eftir að gestirnir höfðu lent 19 stigum undir í þriðja leikhluta. Sautjándi sigurinn í röð kemur einnig gegn leikstjórnandalausu Jazz-liði í Los Angeles í kvöld.

Fyrrum Clippers-maðurinn Mo Williams er frá vegna meiðsla hjá Jazz og er hans vægast sagt saknað. Mennirnir sem sjá um að fylla skarð hans, Jamaal Tinsley og Earl Watson eru samtals 1 af 8 í skotum með 12 stoðsendingar og 13 tapaða bolta í síðustu tveimur leikjum. Væri gaman að sjá hvort Ingvi Hrafn Jónsson næði að skila betra framlagi. Þessir snáðar gætu ekki hitt úr skoti þó þeir sætu uppi á spjaldinu og andstæðingum þeirra á ekki eftir að leiðast neitt sérstaklega í svæðinu ef þeir kveikja þá á því að spila það gegn Jazz til að eiga náðugt kvöld.


Sigurganga Clippers er orðin svo löng að það hefur unnið Jazz tvisvar á útivelli meðan á henni stendur. Liðið hefur reyndar unnið þrjá útileiki í röð gegn Jazz og það hefur ekki gerst í rúm 30 ár eða síðan Clippers spilaði í San Diego. Til gamans má geta þess að Joe "Jellybean" Bryant, pabbi hans Kobe Bryant, var í liði Clippers á þessum tíma.

Clippers er aðeins 23. liðið í sögu NBA sem nær að vinna 16 leiki í röð, svona til að gefa ykkur mynd af því hve mögnuð þessi sigurganga er nú.

Það var að sjálfssögðu Chris Paul sem lokaði leiknum þegar Clippers lenti í þessum vandræðum gegn Jazz í fyrrinótt og olli mestum skaða á vítalínunni, því hann lenti merkilegt nokk í vandræðum þegar hann vær í gæslu Gordon "Ásmundar" Hayward og skaut aðeins 1-6 gegn honum í fjórða leikhlutanum.


Það gefur ágæta mynd af því hvað Clippers er búið að vera að strauja andstæðinga sína í vetur að fyrir þennan hetjuskap Chris Paul gegn Jazz í fyrrakvöld hafði hann ekki komið við sögu í nema 21 af 29 síðustu 4. leikhlutum hjá liðinu. Í þessum tilvikum hefur hann setið rólegur á bekknum og fylgst með varamönnum klára leiki þar sem úrslitin hafa verið ráðin.

Fyrir leikinn í fyrrakvöld, hafði Clippers verið 15+ stigum yfir í 17% af spiluðum leikmínútum liðsins. Það er með hreinum ólíkindum. Þetta lið er svo sterkt að það lætur Jamal Crawford líta vel út, en það hefur verið í plús hverja einustu mínútu sem hann hefur spilað á sigurgöngunni.  Meira að segja Willie Green er að skila framlagi með 42% þriggja stiga nýtingu.

Þegar lið taka rispur eins og Clippers er eðlilegt að menn fari að spyrja sig hvort þeir eigi að taka þau alvarlega og kalla þau meistaraefni. Það er kannski dálítið snemmt að fara að pæla í því, en það má alveg skjóta í stutt krossapróf og athuga hvort Clippers hefur þessa helstu fídusa sem meistaralið þarf að hafa.

Ef lið ætla að verða meistarar þurfa þau meðal annars að spila úrvalsvörn, vera með sýstem, frákasta vel, karakter og mannskap sem kaupir konseptið, hafa neyðarkall, góðan bekk, rulluspilara og góðan þjálfara

Clippers getur krossað í alla reiti þarna nema kannski fráköstin og þjálfarann. Gárungarnir segja að styrkur Vinny Del Negro sem þjálfara sé að vera ekki að skipta sér að því hvað Chris Paul er að gera með liðið.

Það verður gríðarlega áhugavert að fylgjast með þessu Clippers-liði fram á vorið og sjá hvað í því býr. Það er ljóst að það vantar ekki mikið upp á að þessi gamli brandari NBA deildarinnar sem Clippers-liðið er, geti gert alvöru atlögu að meistaratitli.