Thursday, December 13, 2012
Allir gáfu þeir öðru fólki körfubolta
Jóhannes Snævarr var fljótastur að svara rétt í getraun dagsins, sem var hundlétt að þessu sinni. Piltarnir á myndinni sem við sýndum ykkur áttu það augljóslega sameiginlegt að vera leikstjórnendur, auk þess að hafa leitt NBA deildina í stoðsendingum nákvæmlega einu sinni hver.
Mark Jackson naut góðs af því að spila með Denver líkt og Andre Miller á sínum tíma en þar á bæ hafa hraði og skotgleði oftast verið í forgrunni. Þegar Golden State þjálfarinn Jackson leiddi deildina í stoðsendingum árið 1997 var hann fyrstu 50 leikina hjá Denver (12,3) en lauk árinu hjá Indiana (9,8) og endaði með 11,4 snuddur í leik - heilli stoðsendingu fleiri en næsti maður (John Stockton 10,5).
* "Tiny" Archibald, sem síðar átti eftir að gera garðinn frægan með Boston Celtics (meistari 1981), varð bæði stiga- og stoðsendingakóngur þegar hann lék með Kings árið 1973.
Það er algeng pub-quiz spurning hver sé eini maðurinn í sögu NBA sem leitt hafi deildina í stigum og stoðsendingum á sama tímabili, en tæknilega var Archibald annar maðurinn í sögunni til að gera það.
Þannig var að Oscar Robertson var með hæsta meðaltal allra í deildinni í báðum þessum tölfræðiþáttum árið 1968, en þá var farið eftir heildartölum en ekki meðaltali þegar þessi verðlaun voru veitt.
Það var sjálfur Wilt Chamberlain sem fékk því stoðsendingatitilinn þetta ár þó hann væri "aðeins" með 8,6 stoðsendingar að meðaltali í leik gegn 9,7 hjá Robertson. Ansi sögulegur titill hjá miðherjanum Chamberlain, sem er eina fimman í sögunni sem hefur landað þessari nafnbót sem oftast er eign leikstjórnendanna.
Efnisflokkar:
Getraunir
,
Stoðsendingar
,
Verðlaun og viðurkenningar