Sunday, April 27, 2014

Úrslitakeppnin gæti ekki byrjað mikið betur


Allt í einu rann það upp fyrir okkur...

Ætli það hafi ekki verið þegar þriðji leikur Houston og Portland fór í framlengingu. Þessi fyrsta umferð úrslitakeppninnar í ár er einhver sú skemmtilegasta sem við höfum nokkru sinni séð - og hún er ekki nema hálfnuð!

Við hefðum líklega aldrei spáð því, en einvígi Rockets og Blazers er búið að bera höfuð og herðar yfir önnur að okkar mati. Það hefur sannarlega verið fjör hjá Oklahoma-Memphis, San Antonio-Dallas og Clippers-Warriors, þetta eru allt hágæðaseríur.

En engin þeirra á séns í rimmu Houston og Portland. Hver einasta mínúta í þessu einvígi hefur verið algjör naglbítur og alls ekki fyrir hjartveika. Ein af þessum seríum þar sem hver einasta sóknarlota og hver einasta varnarlota gæti átt eftir að hafa úrslitaþýðingu þegar upp verður staðið.

Þarna erum við að sjá mikla skák milli þjálfaranna, stórstjörnur valda vonbrigðum og fara hamförum til skiptis, dramatík, óvæntar hetjur, stórleiki - nefndu það og þetta einvígi er að bjóða upp á það. 

Það er meira að segja með fallegasta manninn í heimi í NBA deildinni (Chandler Parsons), besta óldskúr póstleikmanninn (LaMarcus Aldridge), besta unga töffarann (Damian Lillard), næstmesta varnargeðsjúklinginn (á eftir Tony Allen, Patrick Beverley), besta flopparann (James Harden), óvæntustu hetju úrslitakeppninnar (Troy "Hver í andskotanum er það nú?" Daniels) og (lang)mest óþolandi leikmann deildarinnar (Dwight Howard). 

Það er nú aldeilis eitthvað!

Staðan í þessu einvígi gæti svo auðveldlega verið 3-0 fyrir Portland, en samt munar ekki nema rykkorni að staðan væri t.d. 2-1 fyrir Houston. Svo glettilega jafnir hafa þessir leikir verið. 

Og eins og svo gjarnan í úrslitakeppninni verða til hetjur og skúrkar. Við reynum oftar að beina sjónum okkar að hetjunum þó við séum alltaf með einhver neikvæðnileiðindi. 

Við vitum að það eru bara búnir þrír leikir í þessu einvígi, en þrír leikir í úrslitakeppni hafa stundum meira vægi en heilt tímabil þegar goðsagnir eru að verða til.

Þannig er það með Damian Lillard og LaMarcus Aldridge að þessu sinni - og þó við hötum af öllu lífi og sál að viðurkenna það - líka helvítið hann Patrick Beverley. 

Damian Lillard er einfaldlega að sýna það og sanna að hann er einn mesti töffari deildarinnar. Hann er að spila eins og sá sem valdið hefur í fyrstu þremur leikjunum sínum í úrslitakeppni. Spilar eins og hann hafi aldrei gert annað en að tryggja liði sínu sigur í úrslitakeppni.

Vitið þið hvað? Ef Lillard hefði gefið skít í skipanir þjálfara síns undir lokin á leik þrjú og tekið sjálfur af skarið í stað þess að troða boltanum inn á Aldridge (sem náði sér ekki á strik nema á stuttum kafla í leiknum), gæti vel verið að staðan væri 3-0. 

Vissulega er það rétt að Lillard á stundum erfitt uppdráttar í varnarleiknum, sérstaklega ef Houston nær að láta Portland skipta á hindrunum og setja stærri mann eins og Harden á hann, en hann er ekkert eini maðurinn í heiminum sem lendir í slíkum vandræðum. Á sóknarenda vallarins er svægi hans hinsvegar með þvílíkum ólíkindum að við erum á leiðinni í að kaupa okkur hvíta treyju númer núll sem á stendur Rip City. Þvílíkur töffari.

Þið vitið að við hötum Patrick Beverley út af lífinu eftir að hann meiddi Russ forðum, en karmað beit hann í rassgatið og sá til þess að hann glímir nú við sömu meiðsli sjálfur. Það er vel rúmlega gott á þennan vitleysing, en vitið þið hvað? Það er ekki hægt annað en að bera virðingu fyrir þessum klikkhaus út af því einmitt hvernig hann spilar.

Beverley er sannarlega ekki mest sexí leikmaður Houston, en þrátt fyrir að við höfum takmarkaða þekkingu á körfubolta, ætlum við að fullyrða að Rockets ætti ekki 1% möguleika í þessari seríu ef Beverley nyti ekki við. Gaurinn er eins og varta á Lillard eða hverjum sem hann tekur sig til og dekkar hverju sinni. Hann spilar fast og brjálæðislega, mjög líkt og Tony Allen er að gera um þessar mundir og eyðileggja öll áform Oklahoma City í leiðinni.

Patrick Beverley lætur Portland breyta öllum sínum plönum þegar hann er inni á vellinum. Dwight Howard lætur Portland kannski stundum breyta plönum sínum, en Beverley er eins og ebólavírusinn - hann veldur andstæðingum sínum höfuðverk, hita, uppköstum og niðurgangi. Og svo er allt í einu skorandi fullt af stigum og hirðandi fullt af fráköstum í þokkabót!

Maðurinn er náttúrulega óþolandi.

En þvílík sería og þvílík úrslitakeppni!