Sunday, April 27, 2014

Enn og aftur bjóða Spurs og Mavs upp á klassík


Já, Dallas er komið í 2-1 á móti San Antonio. Það er ekki eina einvígið sem er búið að gjörsamlega eyðileggja allt fyrir veðjandi mönnum, en staðan í því er tvímælalaust einna óvæntust.

Við vonum að enginn hafi misst af þriðja leik Mavs og Spurs í kvöld. Ef þú varst á leiðinni á Norðurpólinn og misstir af honum, réðust úrslit hans á flautukörfu frá nákvæmlega engum öðrum en Vince Carter. Hann er síðasti maðurinn sem við hefðum tippað á að myndi skora sigurkörfu fyrir Dallas í þessu einvígi. Þá teljum við Samuel Dalembert og Mark Cuban með.

Það er formlega staðreynd að San Antonio er bara í bullandi vandræðum með sóknarleik Dallas og á hingað til engin svör við honum.

Þetta beitta sóknarlið sem San Antonio er, hefur ekki náð að refsa Dallas fyrir annmarka sína á hinum enda vallarins og ætti heldur ekki að þurfa þess. Spurs á bæði að vera miklu, miklu betra varnarlið og heilt yfir miklu betra lið en Dallas.

En körfuboltaguðunum gæti ekki verið meira sama.

Við höfum áður séð San Antonio lenda í svona vandræðum og þið vitið hvað gerist þegar San Antonio lendir í vandræðum í úrslitakeppninni. Það fer í sumarfrí. Eins og það gerði á móti Memphis um árið.

Þetta Dallas-lið er ekki eins gott og það Memphis-lið, en við skulum nú ekki vera að dæma Spursmenn úr leik þó þeir séu í vandræðum. Ef þeir vinna næsta leik, er staðan 2-2 og tveir af næstu þremur leikjum í San Antonio.

Gallinn er bara að lærisveinum Rick Carlisle er skítsama.