Friday, April 18, 2014

Góður til síns BrooksScott Brooks, þjálfari Oklahoma City, er allt að því ósýnilegur maður. Hann lætur ekki mikið fyrir sér fara og umfjöllunin um hann hefur verið eftir því. Ansi róleg bara.

Í einu skiptin sem nafn hans ber á góma (Bergomi), er það jafnan í tengslum við plott til að reka hann. Það er auðvitað rosalega hart, en við veltum því sannarlega fyrir okkur hvort Brooks hefur nægilega þekkingu og reynslu til að vinna titilinn með Oklahoma. Margt bendir til að svo sé ekki, eins og til dæmis (oft) vandræðalegur sóknarleikurinn og hugmyndaskortur á ögurstundu.

Í ár er það bara dolla eða dauði hjá Oklahoma. Liðið fór í lokaúrslit fyrir tveimur árum og er því ætlað að komast þangað aftur, nú þegar allir eru heilir, þó að nú sé enginn James Harden í liðinu.

OKC hefur sannarlega burði til að fara mjög langt. Hefur til dæmis fádæma sterkt tak á San Antonio eftir að hafa bókstaflega hent því í sumarfrí árið 2012 með því að vinna það fjórum sinnum í röð.

Oklahoma ætti að ná langt í úrslitakeppninni í ár, nema liðið verði óheppið með andstæðing og detti þannig úr leik. Annars eru reyndar ekki mörg lið sem Oklahoma ræður ekki við, svo þeir ættu ekki að vera smeykir við það.

Liðið þarf samt að komast lokaúrslit svo að Brooks haldi starfinu - og helst vinna. Það er okkar tilfinning. Það er náttúrulega glórulaust að reka mann sem er búinn að standa sig jafn vel og Brooks. Hann tók við liðinu af P.J. Carlesimo árið 2008, eftir að það tapaði tólf af fyrstu þrettán leikjum sínum i deildinni. En það var fljótt að breytast þegar Kevin Durant og Russell Westbrook þroskuðust sem leikmenn.

Strax árið eftir vann liðið 50 leiki og hefur svo verið nánast á lóðréttri uppleið síðan. Brooks var kjörinn þjálfari ársins 2010 en er merkilegt nokk enn í sömu vinnunni. Oftast missa menn starfið mjög skömmu eftir að þeir eru útnefndir þjálfarar ársins.

Á þeim fimm heilu árum sem Brooks hefur stýrt Oklahoma, er liðið 271-123, sem gerir 69% vinningshlutfall.

Liðið bætti vinningshlutfallið á hverju ári fyrstu fimm árin hans, eða þangað til í vetur þegar liðið vann einum leik færri en í fyrra (þrátt fyrir að vera lengi án Russ).

Það er kannski ótímabært að fara í þessa pælingu á þessum tímapunkti. Hún bara poppar alltaf upp þegar við hugsum til Oklahoma City. Er Scott Brooks nógu góður þjálfari til að stýra vel mönnuðu liði á toppinn og halda því þar næstu árin?

Ætli við komumst ekki fljótlega að því. Kannski fyrr en þig grunar.