Wednesday, May 8, 2013

Þetta gerðist í 1. umferð - Vesturdeild


Fyrsta umferð úrslitakeppninnar í Vesturdeildinni var skemmtilegri og áhugaverðari en í austrinu eins og verið hefur undanfarin ár. Fólk sem heldur öðru fram er ekki í tengslum við raunveruleikann. Meðan austrið bauð í besta falli upp á eina seríu sem hélt fólki vakandi, voru tvær úrvalsseríur í vestrinu, ein fín og ein sem var drasl.

Draslið var að sjálfssögðu einvígi San Antonio og LA Lakers, sem margir höfðu þó tippað á að gæti boðið upp á smá drama.

Annað kom á daginn og San Antonio sópaði lánlausum Lakers í sumarfrí enda náði Mike D´Antoni varla í lið vegna meiðsla.

Lítið um þetta einvígi að segja nema kannski að stuðningsmenn Lakers hefðu átt að öskra sig aðeins hásari yfir að koma þessu liði í úrslitakeppnina.

Einvígi Oklahoma og Houston náði að verða bara fjandi skemmtilegt á kafla, en það kom ekki til af góðu. Valdajafnvægið í NBA deildinni tók stóran kipp og hallar nú mikið í áttina til Miami eftir að hálfvitinn hann Patrick Beverley hjá Houston kastaði sér á hnéð á Russell Westbrook hjá Oklahoma í leik tvö og tók hann úr umferð í úrslitakeppninni.

Já, hálfvitinn hann Patrick Beverley. Hann gengur framvegis undir því nafni á NBA Ísland. Það kostar að slá einn af eftirlætissonum ritstjórnarinnar út úr keppni með hálfvitagangi.*

Oklahoma þurfti að taka á honum stóra sínum til að slá fríska Rockets menn út úr úrslitakeppninni eftir að Russell Westbrook datt úr leik og áður en þú ferð að hnussa yfir því, verður þú að hafa í huga að körfuboltafélagið Oklahoma City Thunder hafði aldrei spilað leik án Russell Westbrook þegar hann datt út.

Westbrook missti ekki úr leik í menntaskóla, ekki í háskóla og hafði ekki misst úr einn einasta sem atvinnumaður heldur. Ein af ástæðunum fyrir því að við elskum hann - og góð og gild ástæða fyrir erfiðleikum Oklahoma í kjölfarið.

Síðan Russ datt út, hefur Kevin Durant spilað stöðu leik-framherja hjá Thunder og stendur sig framar vonum. Hann hefur algjörlega tekið liðið á bakið á sér, en öfugt við marga aðra leikmenn sem telja sig stórstjörnur í þessari deild, treystir hann félögum sínum fullkomlega og það er unun að fylgjast með því. Það er ekki gott að sjá hversu langt Oklahoma kemst án Russell Westbrook, en meiðsli hans eru einfaldlega að rífa annan handlegginn af liðinu sem einna helst átti að geta staðið í Miami.

Ömurlegt. Og við erum enn í smá þunglyndi út af því.

Þegar þetta er skrifað, er nýbúið að útnefna aumingja George Karl hjá Denver þjálfa ársins í NBA.

Beiskt er vínið úr bikar þeim.

Hvað ætli Karl sé að hugsa núna, verandi nýbúinn að horfa á lið án síns næstbesta manns slá hann í sumarfrí - -og það þó hann hafi verið meið heilavallarréttinn á sterkasta heimavelli í vetur? Ekki gott að segja, við ákváðum því að hringja í hann.

Karl: Halló

NBA Ísland: Sæll, NBA Ísland hérna. Bömmer að taka við titlinum þjálfari ársins í dag?

Karl: Þokkalega

Ísl: Þið voruð með heimavöllinn - og þó þið hafið verið án Gallo - vantaði David Lee í GSW!

Karl: Einmitt, hrikalegt.

Ísl: Og þú lést nýliðaþjálfara út-þjálfa þig hvað eftir annað...

Karl: Jebb

Ísl: Sýnir þetta ekki svart á hvítu að leikaðferð ykkar er aðeins fyrir deildakeppnina og að sé erfitt að ná árangri í úrslitakeppninni án þess að vera með stjörnuleikmann?

Karl: Tjah, við erum með Andre Miller...

Ísl: Í alvöru?

Karl: Já, nei, nei, ég segi bara svona.

Ísl: Þetta var nú ekkert á við þegar Sonics tapaði fyrir Denver fyrir 20 árum, en þetta var samt skita hjá þér og þínum mönnum, er það ekki?

Karl: Þokkalega.

Ísl: Hvað er það sem þú ert alltaf með uppí þér á leikjum? Ertu með Ópal eða ertu með tuggutóbak? Hvað er þetta? Þetta er að gera alla vitlausa!

Karl: Þetta er útrunnið Gajol sem Alex English gaf mér, ef þú þarft endilega að vita það! 

Ísl: Ókeeeeei. Jæja, ein spurning enn. Heldurðu að þessi dæmigerða tilfinningasemi NBA deildarinnar hafi spilað hlutverk í að þú varst kjörinn þjálfari ársins, þar eð þú hefur nú lent í mótlæti síðustu ár?

Karl: Ég ætla ekki að neita því, en annars er ég nú einmitt á leiðinni upp í græna Volvoinn minn og ætla að keyra til Chicago og láta Tom Thibodeau hafa verðlaunin.

Ísl: Góður.

Einvígi  Denver og Golden State var mikið augnayndi og fór eins og við vorum að vona, mikið var skorað og nóg af drama. Það kom okkur hinsvegar á óvart að Golden State færi áfram, ekki síst eftir að stjörnuleikmaðurinn David Lee datt úr myndinni meiddur.

Liðið þurfti því ekki að örvænta, því annar maður sem er meiri stjörnuleikmaður en margir sem tóku þátt í þeim leik í febrúar, tók til sinna ráða og skaut Warriors í aðra umferð. Stephen Curry hélt áfram þriggja stiga árás sinni frá því í deildakeppninni og svo voru nýliðar liðsins hvergi smeykir, sem kom dálítið á óvart.

Mark Jackson út-þjálfaði hinn reynda George Karl, nýliðar Warriors spiluðu vel, Curry fór hamförum og Andrew Bogut sprakk loksins út á stóra sviðinu og átti miðjuna.

Þetta er leiðinleg niðurstaða fyrir Denver og þó menn hafi kannski ekki reiknað með því að þeir færu langt í úrslitakeppninni, hefði það nú fjandakornið verið lágmark að klára fyrstu umferð með heimavallarréttinn.

Golden State er með stjörnu. Denver ekki. Munar dálítið um það.

Meiðsli hafa sett svip sinn á alla úrslitakeppnina og þau höfðu sitt að segja í endurteknu einvígi LA Clippers og Memphis Grizzlies. Rétt eins og á síðustu leiktíð var það þó liðið sem var ekki með heimavallarréttinn sem fór áfram úr þessu rosalega einvígi.

Áður en lengra er haldið í umfjöllun um þessa rimu verðum við þó að gera játningu. Við drulluðum upp á bak þegar við hraunuðum yfir Memphis fyrir að láta Rudy Gay fara.

Gay var eini maðurinn í liði Memphis sem talist gat neyðarkarl, en hann var lélegur neyðarkarl og því alls ekki launa sinna virði. Tayshaun Prince hefur fyllt skarð hans með sóma og Memphis er komið í aðra umferð.

Það er ekki hægt annað en að hugsa "hvað ef" þegar fylgst er með Memphis. Liðið er með langöflugustu framlínu í NBA deildinni, vanmetnasta leikstjórnandann í deildinni, spilar stórkostlega vörn en vantar neyðarkarl og kannski 1-2 alvöru skyttur. Þá er þetta lið meistaraefni og ekkert annað.

Þrátt fyrir að vera án neyðarkarls, er Memphis nú samt komið í aðra umferð úrslitakeppninnar eftir nokkuð öruggan sigur á LA Clippers. Chris Paul var maðurinn sem gerði gæfumuninn hjá Clippers í þessu sama einvígi á síðustu leiktíð, en hann náði ekki að brúa bilið að þessu sinni.

Memphis var einfaldlega með of massífa framlínu fyrir Clippers núna. Ekki bætti úr skák að Blake Griffin meiddist í miðju einvígi og án hans (eða með hann á annari löppinni) vantaði mikið í miðjuna hjá Clippers.

Í fyrra hafði Clippers þá Kenyon Martin og Reggie Evans í baráttunni undir körfunni en nú þurfti það að treysta á DeAndre Jordan, Lamar Odom, Ronny Turiaf og Ryan Hollins.

Það er auðvitað einföldun að segja að þetta sé munurinn á liðunum, en tvö atriði til viðbótar réðu líka miklu í einvíginu.

Í fyrsta lagi kom það á daginn að breiddin hjá Clippers, sem í deildakeppninni var ein sú mesta í deildinni, var alls ekki staðar þegar í úrslitakeppnina var komið. Ef Chris Paul náði ekki að búa eitthvað til upp úr engu, gerðist ekki neitt í sókninni

Aukaleikarar Clippers voru bara alls ekki að skila sínu. DeAndre Jordan var ekki starfi sínu vaxinn, Chauncey Billups og Lamar Odom voru bara lélegir og verstur af þeim öllum var hinn meinti ofurvaramaður Jamal Crawford. Hann skoraði 10 stig að meðaltali í rimmunni og skaut 27% úr þristum. Við þurfum varla að minnast á það hvaða skoðanir við höfðum á komu hans í Clippers-liðið á sínum tíma, er það?

Í öðru lagi var Mike Conley að gera það sem fæstum leikstjórnendum í deidinni hefði tekist, en það var að hanga í Chris Paul í framlagi í einvíginu.

Flest það sem Paul gerði (og það vel) náði Conley að apa eftir honum. Conley fékk vissulega aðstoð við að dekka Chris Paul, en hann er að sýna það betur og betur nú í úrslitakeppninni hvað hann er frábær leikmaður (Hann var t.d. með 26 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar í leik tvö gegn Oklahoma, en það var ekki nálægt því besti leikur hans í úrslitakeppninni).

Nú er stóra spurningin hvort Chris Paul framlengir samning sinn við Clippers eða fer eitthvað annað. Hann ætti nú ekki að fara í svo dramatískar aðgerðir að stinga af, en ljóst er að breytinga er þörf hjá klúbbnum. Kannski er það ósanngjarnt, en Vinny del Negro þjálfari þarf að fara. Hann er bara ekki nógu góður þjálfari.

Blake Griffin, DeAndre Jordan og Eric Bledsoe þurfa að vinna í allt sumar og bæta sig og félagið þarf að losa sig við Jamal Crawford, Chauncey Billups, Lamar Odom og Grant Hill. Þessir leikmenn eru annað hvort ekki nógu góðir til að hjálpa liðinu á næsta stig, eða of gamlir.

Og Memphis? Guð hjálpi okkur öllum ef þetta lið nær í almennilega skorara á vængina.

* Meiðslalisti andstæðinga Miami Heat er orðinn glettilegur. Flestir reiknuðu með endurteknu efni í úrslitunum í júní, en hætt er við því að meiðsli RussWest setji það allt upp í loft. Enn eitt breikið fyrir Miami. Kannski að við ættum að setja * við titilinn árið 2013 rétt eins og sumir gerðu við titilinn í fyrra út af verkbanninu.