Wednesday, May 8, 2013

Þetta gerðist í 1. umferð - Austurdeild


Fyrsta umferðin í úrslitakeppni NBA árið 2013 er löngu afstaðin og því er allt of seint að skrifa um hana núna.

Við ætlum nú samt að gera það.

Við lofuðum því um helgina og er það líklega orðin stærsta skita í sögu þessarar síðu.

Hvað sem því líður er fullt af fólki þarna úti sem botnar hvorki upp né niður í því hvað gerðist í fyrstu umferðinni fyrr en það les um það á NBA Ísland og þessu fólki má ekki bregðast. Við höfum líka margt að segja eftir fyrstu umferðina.

Nokkur einvígi í fyrstu umferðinni voru drasl og því algjörlega óþarft að eyða í þau orðum. Önnur voru hinsvegar bæði betri og dramatískari - sum nóg til að láta reka þjálfara. Þessa hluti þarf að skoða.


Ef við byrjum í Austurdeildinni, var þar fátt um fína drætti eins og búast mátti við, jafnvel þó lið eins og Boston hafi hleypt smá lífi í þetta á kafla. Miami hraunaði yfir Milwaukee eins og það átti að gera og öllum var skítsama um Indiana-Atlanta.

New York virtist ætla að rótbursta Boston, en þá fóru leikmenn Knicks að sýna okkur hluta af ástæðunni fyrir því að þetta lið er ekki að fara að gera neitt í úrslitakeppninni.

Fyrir það fyrsta létu nokkrir af hnúahausunum hjá Knicks það fréttast að þeir ætluðu að "jarða Celtics" með táknrænum hætti fyrir/eftir fjórða leikinn. Þetta hleypti auðvitað lífi í gömlu hræin hjá Celtics, sem náðu að vinna tvo leiki til viðbótar og hræða líftóruna úr Knicks í sjötta leiknum.

Fyrir utan þennan vanþroska, er New York hætt að hitta úr þriggja stiga skotum (eins og við óttuðumst að mundi gerast þegar kæmi í úrslitakeppnina), hætt að spila eins og það lék best í deildakeppninni (boltahreyfing) og tveir af þremur lykilmönnum liðsins í sóknarleiknum spila eins og fífl og geta ekki neitt (hér er átt við Carmelo Anthony og J.R. Smith - Raymond Felton hefur verið besti maður Knicks í úrslitakeppninni - og verði þeim að góðu sem kusu Anthony í þriðja sætið í MVP kjörinu í vetur).

Við gætum tekið ofan fyrir Celtics fyrir að ná að kreista út tvo sigra gegn Knicks, en við ætlum ekki að gera það. Lykilmenn liðsins vita að það er ekki nógu gott, sama hvort Rondo var með eða ekki. Ef Boston hefði getað EITTHVAÐ í sóknarleiknum (Paul Pierce var t.d. afleitur þegar á reyndi) hefði liðið með öllu átt að vinna þetta einvígi.

New York var hinsvegar ekki nógu lélegt til að tapa fyrir lélegu Boston-liði, en þeir grænu hefðu örugglega lokað þessu ef Rajon Rondo hefði notið við.

Seinna einvígið sem við tökum til umfjöllunar í Austurdeildinni er skrautleg rimma Chicago Bulls og Brooklyn Nets. Ekki vegna þess að hér hafi verið um gæðaeinvígi að ræða, heldur af því þessi rimma sjokkeraði okkur upp úr skónum á tvo vegu.

Brooklyn sjokkeraði okkur fyrir það hvað það var lélegt. Það getur vel verið að Brooklyn hafi verið að bæta sig eitthvað í vetur, en þetta félag er bara undir miklu meiri pressu, með miklu betri menn og borgandi allt of há laun til að gefa því einhverja frípassa fyrir að bæta sig um einhverja leiki í deildakeppninni - til þess eins að láta væng- og fótbrotið lið drulla yfir sig og henda sér í sumarfrí!

Þessir launaháu menn hjá Nets urðu sér samanlagt til háborinnar skammar í þessu einvígi. Það getur vel verið að menn eins og Lopez hafi spilað þokkalega í þessu einvígi og að Joe Johnson hafi ekki gengið heill til skógar - okkur er bara drullusama. Þetta eru aular sem höfðu enga ástríðu fyrir að fara áfram í úrslitakeppninni og fyrstur í blammeringaröðinni er Deron Williams, leikstjórnandi.

Williams var besti leikstjórnandi deildarinnar á kafla (þegar Chris Paul var meiddur) en hefur ekki gert neitt annað en drulla á sig síðan honum var skipt til Nets.

Þessi maður verður að fara fyrir þessu karakterslausa liði, en getur það ekki af því hann er alltaf meiddur eða í fýlu. Joe Johnson er kominn af léttasta skeiði og samningur hans, Kris Humphries og Gerald Wallace munu sliga þetta lið um ókomin ár.

Prokhorov og félagar urðu að gera eitthvað eftir þessa háðlegu útreið og datt ekki annað í hug en að reka þjálfarann. Klassík. Við skulum sjá hvort einhverjum öðrum tekst að vekja þessa aulabárða til lífsins. Gangi þeim vel og verði þeim að góðu.

Chicago, hinsvegar...

Chicago Bulls er allt það sem Brooklyn er ekki - og fyrir það á liðið alla okkar virðingu. Við höfum alltaf haft miklar mætur á t.d. Tom Thibodeau og mönnum eins og Joakim Noah, en aldrei meiri en nú.

Thibs þjálfari náði einhvern veginn í ósköpunum að draga þetta lið í gegn um deildakeppnina á punghárunum þrátt fyrir mikil meiðsli, en þetta meiðslavesen byrjaði ekki fyrir alvöru fyrr en í úrslitakeppnina var komið.

Það má deila um það hversu gaman er að horfa á Chicago spila sóknarleik - sérstaklega þegar sterabarnið Nate Robinson er nú að bera hann uppi - en varnarleikur liðsins, dugnaður og fórnfýsi er hreint augnakonfekt. Og það er með hreinum ólíkindum að þetta lið skuli vera komið áfram í aðra umferð í úrslitakeppninni (og sé komið í 1-0 á móti Miami þegar þetta er skrifað! Meira um það síðar).

Það er án nokkurs vafa lið Chicago Bulls sem fær Thule eftir fyrstu umferðina í Austrinu, en drullukökuna fær Brooklyn.

Pistill um Vesturdeildina kemur fljótlega