Þetta er ekki alveg að ganga nógu smurt hjá Oklahoma. Satt best að segja, er liðið bara í bullandi vandræðum. Ef ekki hefði verið fyrir epíska frammistöðu varamannsins Reggie Jackson í nótt, væri Oklahoma nú komið 3-1 undir á móti þessu ólseiga liði Memphis.
Við höfum heyrt fjölmiðlamenn halda því fram að þetta Memphis lið sé sterkasta 7. sætis lið allra tíma. Það er kannski full djúpt í árina tekið, en það er ljóst að Memphis er miklu sterkara en hefðbundin 7. sætis lið. Þið sjáið það til dæmis með því að bera Grizzlies saman við Charlotte Bobcats. Einmitt.
Það er auðvitað grábölvað fyrir lið eins og Oklahoma að þræla sér út allan veturinn til að ná í góða stöðu inn í úrslitakeppnina, en fá svo í rauninni eins sterkan andstæðing og fyrir er að finna í Vesturdeildinni strax í fyrstu umferð!
Ef við gæfum okkur að Oklahoma næði nú að leggja Memphis og færi áfram, yrði mótherjinn í næstu umferð Clippers eða Warriors.
Okkur er alveg sama hvað þú segir, það að mæta öðru þessara liða í næstu umferð yrði eins og að spila æfingaleik fyrir Oklahoma eftir að hafa verið í klónum á Memphis.
Það er dásamlegt að vera Miami þessa dagana. Liðið fær mótherja í fyrstu umferðinni sem hefur enga reynslu í úrslitakeppni og er með sinn besta mann á annar löppinni - eins og austrið hafi ekki verið nógu lélegt fyrir.
Ef Indiana heldur áfram að skíta á parketið í staðinn fyrir að spila körfubolta, er ljóst að það verður spegilsléttur sjór í úrslitaeinvígið fyrir meistara Miami. Ekkert lið hefur fengið eins létta leið í úrslit síðan Lakers-liðið var að krúsa í gegn um lélega Vesturdeildina á níunda áratugnum.
Meistaraefnin í Vesturdeildinni eru svo hreint ekki að láta finna fyrir sér. San Antonio er í bullandi vandræðum gegn Dallas og þarf nauðsynlega á sigri að halda í Dallas í næsta leik ef ekki á illa fyrir þeim að fara. Óháð því hvernig þetta einvígi fer, er bara sú staðreynd að Dallas sé búið að vinna tvo af fyrstu þremur leikjunum alveg með ólíkindum.
Það má eiginlega segja sömu sögu af hinum meistaraefnunum í vestrinu, Oklahoma City. Það munaði punghári að liðið lenti undir 3-1 í nótt - og þar með í holu sem sjaldgæft er að lið nái að grafa sig upp úr. Ef Oklahoma tapar í fyrstu umferð, verður Scott Brooks svo rekinn að hann verður sennilega laminn líka.
Þeir Kevin Durant og Russell Westbrook hafa mestmegnis spilað eins og vitleysingar í rimmunni. Durant er að skjóta innan við 40% og aðeins 26% í þristum, meðan Westbrook er enn verri með aðeins 35% og heil 19% í þristum.
Sumpart má segja að Oklahomaliðið hafi verið óþekkjanlegt í einvíginu. Það er samt ekki nema að litlum hluta Oklahoma að kenna - kannski 10-20% - en restin er
Oklahoma og Memphis eru með öllu ólík körfuboltalið, en félögin tvö eru þó í mjög svipaðri stöðu. Þau eru á liltlum markaði og með eigendur sem eru of nískir til að byggja upp meistaralið. Oklahoma og Memphis eru bæði gríðarlega sterk lið, sem fyrir vikið vantar ekki nema 1-3 góða bita til að verða allt frá því að vera alvöru meistaraefni yfir í að landa titlinum.
Hugsaðu þér ef Oklahoma City væri með almennilegan miðherja og eina góða skyttu á bekknum. Hugsaðu þér ef Memphis væri með tvær almennilegar skyttur í viðbót og einn væng sem gæti búið sér til skot sjálfur. Þá yrðu þessi lið ekki hrædd við Miami, það getum við lofað ykkur.
Hvað sem gerist í þessu einvígi og hversu illa sem Oklahoma hefur litið út í fyrstu fjórum leikjunum, erum við nú samt á því að Thunder hafi meira áfram að gera - sé lið sem sé líklegra til að komast lengra en Memphis. Ekki mikið lengra. Aðeins lengra.
Í ljósi þess hve illa Spurs og Thunder fara af stað í úrslitakeppninni, gætum við alveg eins sagt að sé frekar meistarabragur á LA Clippers - nú eða jafnvel Portland. Ætli við verðum ekki að taka þessi lið með í reikninginn.
Clippersliðið ætti ekki að verða í stórvandræðum með að klára Golden State, þar sem Oaklandliðið er auðvitað illa vængbrotið án Andrew Bogut. Það hefur líka sýnt sig, þar sem Blake Griffin og DeAndre Jordan hafa farið illa með Warriors í teignum.
Það verður líka óhemju áhugavert að sjá hvernig sigurvegaranum í Houston-Portland seríunni á eftir að vegna í framhaldinu. Þar eru tvö hörkulið á ferðinni.
Að lokum var svo ein pæling. Eða staðhæfing.
Ef Andrew Bogut væri heill, fullyrðum við að öll liðin í úrslitakeppni Vesturdeildarinnar gætu unnið öll liðin í úrslitakeppni Austurdeildarinnar ef Miami er undanskilið. Og ekki bara unnið, heldur unnið nokkuð auðveldlega.
Gefum okkur það að Dallas, Houston, Golden State og Memphis myndu tapa í fyrstu umferðinni í vestrinu. Ætti einhvert lið annað en Miami úr austrinu stjarnfræðilega möguleika á móti einhverju þessara liða, ef þau væru heil heilsu (Bogut)?
Við segjum nei, ekki síst af því Dallas er komið yfir á móti San Antonio.
Fjandakornið, nei.