Sunday, April 6, 2014

Komið að Ká Dé?


Flestir eru nú þegar búnir að velja. Svo virðist sem öll vötn renni til Oklahoma núna. Ef Oklahoma á eitthvað sameiginlegt með Dýrafirði, þannig. Það kæmi okkur gríðarlega á óvart ef Kevin Durant yrði ekki kjörinn verðmætasti leikmaður ársins í NBA árið 2014. LeBron James er alveg eins vel að þessu kominn, en það er langt síðan að fjölmiðlamenn ákváðu að þetta ætti eftir að verða árið hans Kevin Durant. Og það er bara stakur sómi af því.

LeBron James verður nákvæmlega aldrei leiður á því að vinna MVP-styttur og nú er svo komið að með hverri styttunni sem hann fer með heim, kemst hann ofar í últra-elítu NBA deildarinnar. Durant er hinsvegar orðinn dauðleiður á því að lenda alltaf í öðru sæti og spilamennska hans í vetur hefur farið ansi langt með að tryggja honum það.

LeBron James er besti körfuboltamaður í heiminum, um það þýðir ekkert að deila. En þið vitið að hann hefur öðrum og mikilvægari hnöppum að hneppa núna en að vinna MVP-verðlaun. Til dæmis að hvíla sig og halda heilsu til að hafa orku og heilsu í að reyna að komast í lokaúrslitin fjórða árið í röð. Það tekst ekki nema bestu liðum allra tíma.

Á föndrinu þarna fyrir ofan sérðu til gamans samanburð á skotkortunum þeirra félaga í vetur. Taktu sérstaklega eftir ökónómíkinni hjá Kevin Durant, sem virðist ekki eiga veikan punkt á gólfinu þegar hann er á annað borð kominn yfir miðju.