Wednesday, April 23, 2014

Flott hjá þér, Jóakim


Aldrei þessu vant erum við næstum því fullkomlega sátt við valið á Varnarmanni ársins í NBA deildinni. Eins og við höfum tuðað um annað slagið, er Joakim Noah í miklu uppáhaldi hjá okkur. Hann er ekki bara fjölhæfur og magnaður varnarmaður, heldur litríkur og skemmtilegur persónuleiki í þokkabót.

Meðan eini helsti keppinautur hans, Roy Hibbert hjá Indiana, er öflugastur í því að verjast við körfuna, er Noah bókstaflega að hamast um allan völlinn. Enginn af stóru mönnunum í NBA deildinni kemst nálægt Noah þegar kemur að því að verjast úti á velli, en þar er ekki óalgengt að sjá hann pakka bakvörðum saman þegar hann lendir í því að skipta á manni. Hann veður út í vegginn og veltuna alveg upp undir þriggja stiga línu, en er svo öskufljótur að detta til baka og sópa frá hringnum og taka ruðninga. Þá er leikskilningur hans, einbeiting, dugnaður, útsjónasemi og almenn varnareðlisávísun eins og best verður á kosið.

Noah er upphafið og endirinn á einni öflugustu vörn deildarinnar hjá varnarprófessornum öskrandi Tom Thibodeau, þjálfara Chicago Bulls, sem þið sjáið á myndinni hérna fyrir ofan.

Thibodeau er þessi sem er að reyna að brosa, en er meira á svipinn eins og einhver hafi stungið fatahengi upp í analinn á honum.

Það er gott að vita að fjölmiðlamenn í Bandaríkjunum séu okkur sammála um hver hafi staðið sig best í varnarleiknum í vetur.

Þeir Noah, Hibbert og DeAndre Jordan voru í nokkrum sérflokki og eins og venja er, voru stóru mennirnir áberandi í efstu sætunum meðan prýðilegir varnarjaxlar eins og Andre Iguodala verða að sætta sig við að slefa inn á topp fimm. Þú sérð fimmtán efstu mennina í kjörinu á töflunni hérna fyrir neðan.

Það sem við höfum þó helst við kjörið í ár að athuga er að þeir Patrick "Ekki halda niðri í þér andanum meðan þú bíður eftir því að við fyrirgefum þér fyrir að fokka upp hnénu á Russ" Beverley hjá Houston og Tony Allen hjá Memphis fá nákvæmlega enga ást fyrir sitt framlag í varnarleiknum í vetur, sem er glórulaust.


Þessar yfirsjónir má þó eflaust rekja til þess að þeir félagar spiluðu ekki nema 55 og 56 leiki og koma þá síður til greina eins og menn eins og Marc Gasol hjá Grizzlies.  Menn fá auðvitað ekki prik í keppninni um Varnarmann ársins í úrslitakeppninni, en þeir sem hafa fylgst með þeim Allen og Beverley í fyrstu leikjum þeirra, hafa orðið vitni að því hversu rosalega sterkir varnarmenn þeir eru.

Beverley tók Damian Lillard hjá Portland nánast úr umferð lengst af í fyrsta leik Houston og Portland. Fyrir vikið riðlaðist leikur Blazers mikið, þó Lillard hafi hlegið síðastur eftir að Beverley var farinn út af með sex villur.

Sömu sögu er að segja af Tony Allen hjá Grizzlies.

Hann hefur öðrum fremur fengið það ómögulega verkefni að reyna að trufla Kevin Durant hjá Oklahoma, en hefur staðið sig ótrúlega vel. Hann er ekki bara búinn að líma sig við mjöðmina á Durant, heldur er gaurinn úti um allan völl og skiptist á að ná mikilvægum sóknarfráköstum og stela boltum af andstæðingnum.

Að lokum hefðum við svo látið þá Paul George og LeBron James skipta um sæti á listanum. George er búinn að vera nefinu betri en James í vetur, en ekki öfugt. Hér fyrir neðan sérðu svo allt of margar nokkrar skemmtilegar myndir af Noah við leik og störf í gegn um árin.