Friday, June 25, 2010

Nýliðavalið 2010


Nýliðavalið í NBA árið 2010 fór fram í New York í gær.

Skemmst er frá því að segja að þetta var hrútleiðinlegur viðburður eins og síðustu ár.

Það gæti haft eitthvað með það að gera að það er liðin tíð að við sjáum nokkra nýliða koma inn í deildina úr draftinu og virkilega láta til sín taka líkt og tíðkaðist fyrir 15-20 árum.

Ekki nóg með að leikmennirnir séu slakari en áður, heldur hefur sífjölmiðlun gert það að verkum að ekkert kemur á óvart á þessu kvöldi.

Allir vita allt sem þarf að vita um leikmennina sem eru að koma inn. Fólk heima í stofu veit orðið jafn mikið um þá og fjölmiðlamenn.

Internet og 24/7 sjónvarp eiga sinn þátt í þessu.

Strákarnir á Sports Illustrated eru mjög jákvæðir þegar þeir gefa liðunum í deildinni einkunnir fyrir frammistöðu þeirra í nýliðavalinu í gær.

Fólk var almennt á því að hér hefði verið á ferðinni einn best klæddi nýliðahópur sem sést hefur og því er óhætt að segja að flathúfu-trendið hafi ekki verið að gera sérstaka hluti eins og sést hér á myndinni.