Thursday, June 24, 2010
Eitt ár í viðbót, Phil
Eins og flestir vita er Phil Jackson, þjálfari LA Lakers, að íhuga að setjast í helgan stein.
Einn af vinum hans, ritböðullinn Charley Rosen á Fox, skorar til dæmis á Jackson að hætta í pistli sínum í dag, ekki síst af heilsufarsástæðum.
Blessuð heilsan er auðvitað eitt það mikilvægasta í lífinu, það getum við vottað, þó við höfum ekki verið fædd inn í þennan heim þegar Phil Jackson vann sinn fyrsta meistaratitil á ferlinum sem leikmaður Knicks.
Enginn gæti bölvað Jackson fyrir að hætta núna ef hann tekur þá ákvörðun, en hann má bara ekki hætta núna.
Eitt tímabil í viðbót - köllum það svo gott.
Ekki hætta þegar þú ert að þjálfa besta liðið í NBA og átt möguleika á að ná fjórðu þrennunni á ferlinum - nokkuð sem enginn þjálfari mun leika eftir meðan við lifum - eða nokkru sinni kannski, ef út í það er farið.
Ekki meðan þú getur enn öskrað á dómara, tamið útblásin ofursjálf geðsjúkra íþróttamanna og skrölt milli langferðabíla og flugvéla. Meðan þú ert enn með blóðlausar hægðir, bullandi zen og ástríðu fyrir leiknum.
Eitt tímabil í viðbót - og svo á Benidorm og/eða Hrafnistu.
Tólf er miklu fallegri tala en ellefu.
Og NBA deildin er skemmtilegri með Phil Jackson innanborðs.