Wednesday, June 16, 2010

Lakers knúði fram oddaleik:

























Það er erfitt að gíra upp anda til að skrifa um leik eins og sjöttu viðureign Lakers og Celtics í kvöld.
Hlaut að koma að því að við fengjum að sjá blástur í þessari seríu og úr því hann þurfti að koma, var
fínt að klára hann af í þessum leik.

Þessi leikur var jafn fram í miðjan fyrsta leikhluta ef okkur misminnir ekki og eftir það breyttist hann í
hálfgerða steypu.

Öruggur 89-67 sigur Lakers var aldrei í hættu og þó sigur heimamanna hafi alls ekki
komið á óvart, var lítill klassi yfir því hvernig Boston drullaði á sig í þessum leik.

Boston sleikti metabækurnar víða í þessum leik. Nægir að nefna að stigaskorið var það næstlægsta í sögu lokaúrslitanna og þá fór liðið aðeins tíu sinnum á vítalínuna.

Staðfest tölfræði yfir sniðskotin sem Boston klúðraði í leiknum er ekki komin í hús, en hún var á allan hátt skelfileg.

Heimamenn mættu í þennan leik og Boston kastaði inn handklæðinu snemma og gat ekki nýtt sér tækfærin sem það fékk til að laga stöðuna.

Það hjálpaði ekki að Kendrick Perkins meiddist á hné, yfirgaf völlinn og er ólíklegur í næsta leik.

Heimaeldamennskan fór vel í varamenn Lakers, sem skoruðu 24 stig áður en kollegar þeirra á Boston-bekknum svöruðu.

Þessi leikur var rusl og ekkert við því að gera. Strikum hann út.

Allir búnir að gleyma honum núna og farnir að hugsa um leik sjö á fimmtudagskvöldið. Það var hann sem flestir vildu fá hvort sem var og við erum þegar búin að eyða allt of miklu púðri í að tala um sjötta leikinn.

Það gerist hreint ekki á hverjum degi að lokaúrslit NBA fari alla leið í oddaleik. Raunar hefur það aðeins gerst þrisvar frá því 2-3-2 keppnisfyrirkomulagið var tekið upp árið 1985.

Í þessum þremur tilvikum hefur heimaliðið alltaf unnið sjöunda leikinn. LA Lakers ´88, Houston ´94 og San Antonio ´05.

Alls hefur úrslitaeinvígið 16 sinnum farið í sjö leiki og þar af hefur útiliðið sigrað fjórum sinnum.

Hvað er hægt að segja um þennan sjöunda leik?

Það er auðvitað freistandi að velja meistarana. Þeir eru á heimavelli og búnir að finna sig eftir hikstið í Boston.

En málið er bara að nú er Boston aftur komið í stöðuna sem kallar fram það besta í undirhundunum sem þeir eru. Þeir eru með bakið uppi við vegg, eru á útivelli og allir tippa á móti þeim.

Þannig vilja þeir hafa það og það er ekki hægt að stilla þessum síðasta leik tímabilsins betur upp.

Við höfum áður tíundað það hér hve mikið er í húfi fyrir bæði lið.

Bókin um Kobe Bryant verður ekki eins áhugaverð ef liðið hans þarf að sætta sig við að tapa aftur fyrir Boston í lokaúrslitum. Reyndar alls ekki eins áhugaverð. Og þá þarf hann að svara ansi mörgum leiðinda spurningum og hlusta á fólk minna hann á hvernig hann gat aldrei klárað Boston.

Sérstaklega þykir okkur þó hryllilegt að hugsa til þess að ef Boston tapar þessum leik, fellur ótrúlegt hlaup liðsins í oddaleik lokaúrslitanna 2010 fljótlega í gleymsku.

Ef liðið vinnur, verður þessa spretts hinsvegar minnst í skrautskrift í öllum sögubókum.

Vá, hvað er stutt á milli núna.

Þessi oddaleikur verður kjarneðlisfræðileg epík.