Monday, June 7, 2010

Celtics jafnaði metin gegn Lakers í nótt:


























Hann var dálítið furðulegur, annar leikur Lakers og Celtics í nótt. Við erum enn að reyna að skilja af hverju heimamenn töpuðu leik sem þeir virtust eiga að taka, en þegar upp er var staðið vann Boston 94-103 sigur á útivelli og jafnaði metin í seríunni í 1-1.

Hvernig fór Boston að því að vinna leik þar sem Kevin Garnett var fjarverandi, Paul Pierce hitti ekkert, Lakers fékk 41 víti gegn 26 hjá Boston og stóru mennirnir hjá Lakers léku sér í kring um körfuna eins og risar á barnaheimili?

Jú, það hjálpaði að Ray Allen (32 stig) var sjóðbullandi og setti met í lokaúrslitum með átta þristum. Sjö þeirra í fyrri hálfleik - í átta tilraunum. Jesus Shuttlesworth gekk á vatni í kvöld. Þetta var rugl!

Og að Rajon Rondo (19/12/10) tók leikinn í sínar hendur og skilaði fyrstu finals-þrennu Boston frá því Larry Bird gerði það árið 1986.

Boston tapar ekki mörgum leikjum sem Rondo spilar á þessu leveli og er 8-1 í úrslitakeppninni þegar hann er með 10 stoðsendingar eða meira. Ekki skemmir fyrir þegar hann er frákastahæsti maður vallarins og nær að fara beint í hraðaupphlaupið. Gaurinn er geimvera.

Boston spilaði af meiri hörku en í fyrsta leiknum, og þar var nóg pláss fyrir framfarir, en ef við værum stuðningsmenn Lakers værum við kastandi húsgögnum af svekkelsi yfir þessu tapi.

Annan leikinn í röð voru lykilmenn beggja liða flautaðir í villuvandræði út af tittlingaskít. Allt of hörð lína tekin í dómgæslu í þessum úrslitum.

Það er óafsakanlegt að menn eins og Ron Artest séu að dæla upp 1 af 10 skotleikjum þegar Gasol og Bynum eru að skjóta 70% í teignum þar sem Boston á engin svör við þeim og komast á vítalínuna að vild.

Æ, við erum bara að röfla eitthvað. Stundum meikar körfubolti bara ekki sens fyrir okkur.

Svona eins og þessi úrslitasería meikar greinilega engan sens fyrir Kevin Garnett og Lamar Odom. Það verða andlitsmyndir af þeim á mjólkurfernum í fyrramálið.

Það sem upp úr stendur er að Boston tapaði baráttunni um fráköstin í fyrsta leik en vann hana í leik tvö. Boston náði ekkert að hlaupa í leik eitt en Rondo slapp laus í leik tvö af því hann Boston frákastaði betur.

Staðan í úrslitaeinvíginu er nú jöfn 1-1 eftir tvo leiki í fyrsta sinn síðan 2004 og því útlit fyrir hrikalega seríu. Það er hel-jákvætt.

Lakers-menn panikka ekkert þó þeir hafi þarna tapað fyrsta leiknum sínum á heimavelli í úrslitakeppninni. Þeir eru eitraðir á útivöllum líka og klárir í næstu þrjá leiki í Baunabæ.

Sigur Boston í kvöld var flottur og nauðsynlegur fyrir einvígið. Gleðin er rétt að byrja.

Eini gallinn er sá að það er ekki spilað nema þrisvar í mánuði í þessum helvítis úrslitum - eða þannig lítur það út fyrir okkur. Og fjölskyldumeðlimir eru farnir að finna fyrir þessu eirðarleysi okkar. HM þarf að fara að byrja til að stytta biðina milli leikja... eða eitthvað. Norður-Kórea vs Slóvenía? Vei.

P.s. - Við minntumst ekki einu orði á Kobe Bryant í þessari færslu. Tókstu eftir því? Spes, ha?