Monday, June 14, 2010
Boston er einu stóru skrefi frá titlinum:
Í fyrsta skipti í þessari úrslitakeppni standa meistarar LA Lakers nú frammi fyrir þeirri staðreynd að verða sendir í sumarfrí ef þeir tapa næsta leik. Þetta varð ljóst eftir að liðið tapaði fimmta leiknum gegn Boston Celtics 92-86 í garðinum í nótt. Boston er nú í fyrsta skipti komið yfir í seríunni og fær nú tvö tækifæri til að klára dæmið í Los Angeles, á þriðjudags- og/eða fimmtudagskvöld.
Einkunnir leikmanna
Allir leikirnir í þessu einvígi hafa á einn eða annan hátt verið dálítið furðulegir. Þessi var engin undantekning. Það er vissulega skrítið að Lakers-liðið hafi verið í bullandi séns á að vinna leik þar sem liðið var lengst af með helmingi lakari skotnýtingu en andstæðingurinn.
Kobe Bryant (38 stig) hafði hægt um sig í fyrri hálfleik en sprakk út í þeim síðari. Skoraði 19 stig í þriðja leikhluta, skoraði á kafla úr sjö skotum í röð og gerði sitt til að bera lið sitt á bakinu. Við höfum oft dissað Kobe fyrir að reyna of mikið, en það er erfitt að blammera hann þegar félagar hans eru úti að aka í sóknarleiknum líkt og í nótt.
Boston hitti loksins á góðan skotleik á heimavelli og fékk flott framlag frá öllum sínu helstu stjörnum í sóknarleiknum. Paul Pierce (27 stig) var loksins almennilega grimmur í heilan leik og Kevin Garnett (18/10) átti fínan leik og Rondo (18/5/8) átti nokkur stórbrotin atriði þó hann hafi líka verið nokkuð mistækur.
Þegar við segjum að Kobe Bryant hafi ekki fengið mikla hjálp frá félögum sínum í leiknum, erum við ekki að grínast. Hann skoraði 38 stig - restin af Lakers-liðinu 48. Mikið mun verða talað um hvort skotsýning hans í þriðja leikhlutanum hafi skemmt fyrir Lakers-liðinu eða ekki, en við ætlum að taka upp hanskann fyrir Kobe að þessu sinni.
Kobe má og verður að skjóta svona þegar hann er að hitta vel og þegar enginn annar í liðinu er að gera neitt í sóknarleiknum. Það er ekki við Kobe að sakast. Hann er ekki þjálfari liðsins. Og þjálfari liðsins á að vita hvað hann er að gera - ef við tökum mark á skartgripasafninu hans.
Við eigum erfitt með að viðurkenna það, en Lakers-liðið saknar Andrew Bynum mikið. Hann reynir að skakklappast eitthvað á þessu meidda hné sínu, en hann hefur ekki verið í essinu sínu í undanförnum leikjum og það er engin tilviljun að þessir leikir eru að tapast.
Boston er að pönkast á framlínu Lakers og harka stóru strákanna hjá Celtics er að snúa einvíginu þeim í hag. Boston er að hrinda Gasol út úr sínum leik og gera honum erfitt fyrir í þríhyrningnum með pönki. Boston er að vinna teiginn á sama hátt og Lakers var að vinna hann í fyrri umferðum úrslitakeppninnar. Með lengd og hörku. Liðið sem vinnur frákastabaráttuna er 5-0 í þessum lokaúrslitum og það eru engin geimvísindi að baki þeirri tölfræði.
Við höfum á tilfinningunni að það virki Boston í hag því lengra sem líður á þessa seríu. Varnartæknar Boston eru sífellt að finna betri leiðir til að sjúga lífið úr Lakers-sókninni. Boston vinnur ekki einvígi sín með því að útspila andstæðinginn á gæðunum eins og Lakers. Boston vinnur á því að ráðast samviskulaust á allt sem þú gerir vel og taka það frá þér þangað til þig langar ekki að spila lengur og vilt bara fara heim.
Talandi um að fara heim. Nú eru Lakers-menn einmitt að fara heim. Til Hollywood. Og þar líður þeim miklu betur. En því er ekki að neita að það hafa orðið straumhvörf í þessu einvígi.
1.) Lakers vann fyrsta leikinn og þar fór meðbyrinn heldur á þeirra band, þó ekki væri nema út af hryllilegri 47-0 tölfræði Phil Jackson og mikilvægi þess að byrja einvígi vel.
2.) Boston stal vindinum óneitanlega með sigri í leik tvö, en allir vissu að liðið tæki heimaleikina ekki 3-0 og því var sigurinn í leik tvö meira lífsnauðsynlegur en einhver risa bónus.
3.) Lakers tók allan meðbyr í einvíginu aftur til sín með góðum sigri í leik þrjú í Boston. Heimavöllurinn var aftur orðinn þeirra og pressan var aftur öll á Boston að klára leiki 4 og 5 heima - ellegar væri staðan nánast vonlaus.
4.) Boston vinnur skyldusigur með bakið uppi að vegg. Dramatíkin á bak við frammistöðu varamanna Boston hleypti nýju lífi í einvígið. Heimamenn eru á lífi, en enn var mörgum spurningum ósvarað.
5.) Boston klárar heimavertíðina með nauðsynlegum sigri og svarar öllum spurningunum sem lágu á borðinu utan einni. Meðbyrinn sem Boston fann lyktina af eftir leik tvö er nú orðinn raunverulegur. Í fyrsta skipti í einvíginu er hægt að segja með vissu að meðbyrinn sé með Boston.
Nú erum við komin aftur til Hollywood og þá liggja fyrir nokkrar áhugaverðar pælingar sem gaman verður að sjá svarað.
Það áhugaverðasta við leik sex er að sjá hvernig Lakers-liðið svarar nú þegar það er loksins komið með bakið upp að vegg.
Liðið hefur bara tapað einum heimaleik í úrslitakeppninni og hefur til þessa svarað lélegum útileikjum með frábærum heimaleikjum í kjölfarið.
Það er reyndar ólíklegra að svo verði í þessu einvígi, einfaldlega út af varnarleik, reynslu og seiglu Boston umfram aðra mótherja Lakers til þessa. Boston leggst ekki í gólfið og gefst upp í Staples eins og reynslu- og getuminni mótherjar Lakers gerðu í fyrri umferðum.
Eitthvað segir okkur að Lakers muni spila betur sem lið í leik sex. Varamenn Lakers spila miklu betur þar en á útivöllum og atriði sem gengu liðinu í mót í Boston gætu átt eftir að falla með því heima. Og geta Lamar Odom og Ron Artest (og listinn heldur áfram) virkilega haldið áfram að spila svona illa?
Rökhugsun leiðir okkur út á þá braut að tippa á að Lakers muni knýja fram ógleymanlegan oddaleik á þjóðhátíðardag Íslendinga þann 17. júní.
Og mikið fjandi væri það sögulegt og skemmtilegt.
Já, trúlega spila meistararnir betur á þriðjudagskvöldið.
En skoðum málið aðeins út frá sjónarhóli Boston.
Hugsið ykkur að Boston er aðeins einum sigri frá því að vinna meistaratitilinn. Það er mjög auðvelt að hugsa til þess að liðinu dugir að vinna einn af tveimur á útivelli - þar sem liðið hefur spilað betur en heima í allan vetur. Pressan er öll á Lakers í sjötta leiknum.
Það er kannski dónalegt á þessum tímapunkti að hugsa lengra en í leik sex, en af því við erum ekki að spila, getum við leyft okkur þann munað.
Hefur þú hugleitt hvað það myndi þýða fyrir liðin ef Boston vinnur titilinn í ár?
*Það myndi þýða að Boston væri óumdeilanlega besta lið heims á árabilinu 2008-10
*Það myndi þýða að það yrði alltaf * aftan við titil Lakers árið 2009 (*Garnett meiddur)
*Það myndi þýða að Kobe Bryant hefði aldrei getað klárað Boston Celtics í lokaúrslitum, nokkuð sem veikir stöðu hans gríðarlega í annálum Lakers og almennum sögubókum.
*Það myndi þýða að leið Boston að titlinum 2010 yrði skrifuð rækilega í sögubækur sem einhver óvæntasta en glæsilegasta framganga nokkurs liðs eftir það sem á undan er gengið.
Liðið myndi slá út fjóra all-nba gaura og liðin í þremur efstu sætunum í deildinni á leið sinni að titlinum.
Nú veistu af hverju Kobe Bryant var froðufellandi eftir tapið í kvöld. Það er ekkert lítið í húfi í þessu einvígi.
Kobe langar ekki að segja "æ, já það var af því Andrew Bynum var alltaf meiddur" þegar fólk spyr hann út í Celtics-töpin í framtíðinni.
Hér er allt undir gott fólk.