Friday, June 11, 2010

Enn er jafnt hjá Lakers og Celtics:





























Hún lítur ekki vel út, tölfræðiskýrslan hjá byrjunarliðsmönnum Boston eftir fjórða leikinn gegn Lakers
í nótt. Hún gerir það kannski ekki heldur hjá Lakers, en það sem skildi að í 96-89 sigri Boston var
framlag varamanna liðsins. Sjáðu einkunnir leikmanna hér.

Við vissum mætavel að bekkur Boston væri miklu sterkari og það kom berlega í ljós í þessum leik. Fram eftir öllu leit út fyrir að meistararnir ætluðu að refsa Boston fyrir að setja óstaðfest heimsmet í klúðruðum sniðskotum og opnum skotum.

En þá kom til kasta varamanna Boston, þeirra Tony Allen í varnarleiknum gegn Kobe Bryant og svo sóknarframlags Glen "Big Baby" Davis og Nate Robinson. Davis og Robinson skoruðu 30 stig á milli sín og kveiktu svo um munaði í áhorfendum í Garðinum, sem voru byrjaðir að naga neglurnar af kvíða löngu fyrir leikinn.

Þeir sem sáu leikinn í nótt eiga aldrei eftir að gleyma sjónarspilinu þegar þeir frændur fögnuðu eins og óðir væru og Davis slefaði eins og stungið naut. Góðar líkur á að þetta verði kallað "Slefleikurinn" í annálum Baunbæinga framvegis - ekki síst ef Boston nær nú að vinna titilinn. Þá var frammistaða þeirra á blaðamannafundinum eftir leikinn ekki síður goðsagnakennd, þar sem Robinson líkti sér og Davis við Shrek og Asna.

Það er erfitt að skamma Phil Jackson fyrir þá ákvörðun að spila full lengi á byrjunarliðsmönnum sínum í leiknum - hann hefur úr engu að moða á bekknum fyrir utan Lamar Odom - en Kobe og félagar höfðu bara ekki púst í að klára leikinn eftir að hafa orðið fyrir þessari orku-árás frá varamönnum Boston.

Enn og aftur tökum við fram að hvorugt þessara liða skipar sérstakan sess í hjörtum okkar og því var þessi sigur Boston okkur að sjálfssögðu mikið fagnaðarefni.

Við viljum fá þessa seríu alla leið eins og allir hlutlausir körfuboltaaðdáendur. Meira svona.