Friday, June 4, 2010

Auðvelt hjá Lakers í fyrsta leik


























Fyrsti leikur Lakers og Celtics í úrslitunum í nótt var dálítið furðulegur. Lakers fékk að spila nánast á krúskontról allan leikinn og vann auðveldan sigur 102-89. Boston-liðið sem við sáum var ekki sama lið og við sáum sjúga lífið úr Cleveland og Orlando.

Nú höldum við hvorki með Lakers né Celtics, en okkur þótti dapurt að sjá hvað dómararnir flautuðu mikið í þessum leik. Vissulega var það erfitt fyrir Celtics að ná takti í leik þar sem Ray Allen fékk aldrei að koma við sögu vegna villuvandræða. Og hann var ekki eini leikmaðurinn sem féll í þann pytt.

Það er auðvelt að kenna dómurum um allt sem miður fer og við erum að hugsa um að gera það að þessu sinni. Kenna þeim um þá staðreynd að þessi leikur var bara alls ekki skemmtilegur. Lakers spilaði vel, lamdi frá sér og frákastaði Boston í drasl. Það er saga leiksins.

Pau Gasol út-frákastaði Boston liðið nánast upp á sitt einsdæmi og Boston skoraði ekki eitt stig eftir sóknarfrákast (gegn c.a. 16 hjá Lakers ef við munum rétt).

Bandarískir fjölmiðlar hafa gert sér óhemju mat úr "Pau Gasol er soft"-hugtakinu allar götur síðan hann (fínpússaður kraftframherji) varð að láta í minni pokann gegn stóru mönnunum hjá Boston í lokaúrslitum árið 2008. Þeim þótti þessi leikur Gasol í kvöld því snúast fyrst og fremst um að Spánverjinn væri loksins búinn að hrista það af sér. Kannski búnir að gleyma að hann lét Dwight Howard hafa fyrir hlutunum í úrslitunum í fyrra og hann var ekki að láta Kevin Garnett líta sérstaklega vel út í kvöld. Hræðilega reyndar.

Við gætum blaðrað eitthvað meira um hvað gerðist í þessum leik, en þetta er ekkert flókið. Boston mætti bara ekki í þennan leik. Réði ekkert við Lakers. Tók boltann úr netinu allan leikinn, náði ekki að hlaupa, frákastaði illa og vörnin var bitlaus. Fullt af vandamálum, nánar tiltekið. Grænir verða að mæta öskrandi í leik tvö.

Þú veist að Phil Jackson er 47-0 sem þjálfari þegar liðið hans vinnur fyrsta leik í seríu. Búið að minna á það. Lofum að gera það ekki aftur.

Kobe var áfram í drápshamnum sínum. Svo sannarlega. Gaurinn var svo einbeittur að hann blikkaði ekki á bekknum þrátt fyrir mömmubrandara Chris Rock úr sætinu við hliðina og smellti svo einum þrist í lokin þegar úrslitin voru löngu ráðin - til að undirstrika tvo hluti.

A) Komast í 30 stigin. Í 11. skipti í síðustu 12 leikjum og upp í annað sæti all time yfir flesta 30 stiga leiki í úrslitakeppni á eftir þú-veist-hverjum.

B) Til að traðka á andlitinu á Boston og segja; "Ég hætti ekki að hoppa á ykkur fyrr en ég vinn fimmta titilinn minn."  Þú verður að elska samviskulaust drápseðlið í Mamba.

Líka rosalega þægilegt fyrir hann að fá Ray Ray í villuvandræði og geta hvílt sig í vörninni á móti Tony Allen. Munaður sem óvíst er að verði til staðar það sem eftir lifir af einvíginu. Annar punktur í þessu var líka frammistaða Ron Artest gegn Pierce og plúsarnir sem hann kom með í sókninni.

Þetta var bara gult kvöld út í eitt.