Thursday, November 5, 2015

Goðsögn í vanda


Lesendur NBA Ísland í gegn um árin vita að ritstjórnin á í nokkuð flóknu sambandi við skotbakvörðinn og goðsögnina Kobe Bryant hjá Los Angeles Lakers. Við berum virðingu fyrir Kobe út af því sem hann hefur afrekað á löngum og glæstum ferli sínum, en síðari ár höfum við átt það til að stríða honum dálítið vegna hugarfars hans og leikstíls.

Það var allt í lagi að gera stundum grín að Kobe Bryant, því hann hefur alltaf staðið undir því og meira til. Hann var kannski á of háum launum og skaut kannski aðeins of mikið en það var allt í lagi, því Lakersliðið undanfarin ár er svo lélegt að það skiptir engu máli hvort Kobe tekur 3 eða 30 skot. Því ekki að halda bara áfram að bomba og reyna að slá met áður en skórnir fara á hilluna?

En svo byrjuðu bölvuð meiðslin að setja strik í reikninginn og eins og þið vitið hafa þau allt nema eyðilagt fyrir honum tvö keppnistímabil í röð. Þegar öll þessi meiðsli eru svo lögð ofan á skrokk sem búið að níðast á í tuttugu ár, er útkoman einhver elsti 37 ára gamli íþróttamaður veraldar.

Það var byrjað að bera á því áður en öll þessi meiðsli komu til. Kobe var byrjaður að dala verulega sem leikmaður, því skrokkurinn á honum var hættur að gera það sem honum var sagt.

Þetta kemur fyrir okkur öll á endanum og flest okkar sætta sig við það og aka eftir aðstæðum.

Ekki Kobe Bryant - varla hefur þú reiknað með því.

Við munum eftir viðtali sem Amad Rashad tók við Bryant fyrir nokkru þar sem hann sýndi áður óþekkta auðmýkt og viðurkenndi að meiðslavesenið hefði fengið á hann.

Var þetta ávísun á að þessi samviskulausi skorari væri farinn að þroskast og ætlaði að taka hugarfar sitt og leikstíl til endurskoðunar?

Ekki svo mikið.

Varast ber að stökkva á of miklar alhæfingar á 82 leikja keppnistímabili þegar búið að spila 5% af því, en nú er ljóst að allir eru farnir að hafa áhyggjur af Kobe Bryant. Bæði við og þið - og meira að segja hann sjálfur. Bryant kallaði sjálfan sig 200. besta leikmann deildarinnar í viðtali á dögunum, þar sem hann fór ófögrum orðum um sjálfan sig - sagðist frekast sjúga.


Það bætir svo ekki úr skák að Lakers skuli vera með eitt lélegasta lið í sögu félagsins um þessar mundir. Það er án sigurs í fjórum leikjum og er með lélegustu vörnina í NBA (fær á sig 113 stig á hverjar 100 sóknir andstæðinga sinna) og það ekki í fyrsta skipti. Og varnarleikurinn er meira að segja áberandi verri þegar Kobe Bryant er inni á vellinum (nærri 117 stig per 100 sóknir), sem er ákveðið afrek.

Við máttum bara til með að skrifa nokkur orð um þetta sérstaka vandamál sem komið er upp í gula hluta Los Angeles í dag, af því við höfum aldrei séð neitt þessu líkt áður. Ein af goðsögnum leiksins - einn besti skotbakvörður í sögu körfuboltans - stendur skyndilega frammi fyrir þeirri staðreynd að hann er ekki skugginn af sjálfum sér. Sjáðu t.d. þessa átakanlegu loftbolta:


Svartsýnustu menn spáðu því að öll þessi meiðsli gætu átt eftir að gera út af við Kobe og raunar þurfti enga svartsýni til. Skrokkur á þessum aldri með allt þetta slit, hefur einfaldlega ekki efni á að meiðast jafn illa og raun bar vitni hjá Kobe Bryant og höggið núna er enn þyngra af því hann er búinn að vera svo lengi frá. Svo poppar hann allt í einu inn í liðið á ný og í ljós kemur að það er allt í einum rjúkandi mínus.

En þarna er ekki öll sagan sögð. Þetta væri kannski ekki svo grábölvað ef Kobe Bryant hefði andlega burði til að takast á við allt mótlætið og setti alla sína orku og einbeitingu í aðlögunarferlið.

Málið er bara að það er ekki stíllinn hans Kobe Bryant. Kobe hefur aldrei farið eftir annari pólitík en sinni eigin - aldrei dansað eftir lögum annara. Hann er búinn að vera maðurinn í fimmtán ár og er búinn að gleyma því hvernig rulluspilarar hjálpa liðum sínum að vinna. Það eina sem kemst að hjá Kobe er að drepa, klára leiki, hleypa alfa-menninu lausu - Svörtu Mömbunni.

Gallinn er bara að lemstraðir fertugir karlar eru engar andskotans Mömbur, sama hve heitt þeir þrá það. Banvæn Svarta Mamban er horfin og í staðinn er kominn drukkinn órangútan með vélbyssu, sem er alveg jafn líklegur til að skjóta sjálfan sig í tætlur og einhvern annan.

Eins og þið sjáið er því komin upp afar áhugaverð staða í máli Kobe Bryant. Hvað í ósköpunum er til ráða fyrir hann? 

Á hann að halda áfram að skjóta samviskulaust þangað til einhver hleypur inn á völlinn og sprautar piparúða í andlitið á honum? 

Kýs hann að reyna að leggja á borð fyrir félaga sína í staðinn, þvert á grunneðli sitt? 

Eða þarf hann að gera sér upp meiðsli og stinga hreinlega af til að forðast að gera sig að algjöru fífli og setja dökkan og neyðarlegan blett á stórkostlegan ferilinn? 

Þetta eru háalvarlegar vangaveltur, sem Kobe þarf að gefa gaum strax í dag.

Fyrir nokkrum vikum veltu fjölmiðlar því fyrir sér hvort þetta yrði síðasta árið hans Kobe Bryant í NBA deildinni eða hvort hann tæki jafnvel eitt í viðbót. 

Áberandi fleiri tippuðu á að hann myndi ekki hætta fyrr en í fyrsta lagi 2017 ef hann héldi heilsu á annað borð, því hann yrði kannski ekki búinn að ná sér alveg að fullu fyrr en á næstu leiktíð.

Nú virðast þessar hugmyndir draumórar einir og Kobe karlinn er í fyrsta sinn á ferlinum kominn í sviðsljósið af því hann er svo lélegur í körfubolta! Það hefði einhver mátt reyna að spá fyrir um þetta fyrir fimm árum síðan. Að Kobe Bryant yrði eins og gamall og fárveikur hundur sem kemst ekki frá skítnum úr sjálfum sér,  en eigendurnir hafa ekki í sér að skjóta.

Hugsið ykkur... þetta er með ólíkindum. Við vitum ekki hvernig við eigum að haga okkur, því þetta er eitthvað svo neyðarlegt dæmi. Við fáum tak í meðvirknina okkar. Að horfa upp á Kobe í svona sjálfheldu er eins og að drulla á sig á deiti með Beyoncé.

Við erum kannski að tala um bláendann á ferlinum hans Bryants og þessir erfiðleikar hans núna ættu ekki að setja mjög stóran blett á hann, en ef svo fer sem horfir, gæti arfaslök spilamennska hans á lokasprettinum orðið til þess að mönnum þætti jafnvel ástæða til að geta hennar í hvert sinn sem minnst yrði á feril hans í framtíðinni.

"Kobe, já, hann var rosalega góður. Fimmfaldur meistari og Mest Verðmætasti Pilturinn og allt það, en manstu hvernig síðustu árin hans voru í NBA? Þegar hann var launahæsti leikmaður deildarinnar ár eftir ár þó hann gæti ekki neitt og væri alltaf meiddur?" Hmmm.

Þeir fjölmörgu sem hata Kobe Bryant - og þeir eru margir, allt frá stuðningsmönnum Celtics til stuðningsmanna Lakers (og þeir eru líka margir) - munu eflaust gleðjast mikið yfir óförum kappans um þessar mundir. Við erum ekki í þessum hóp, enda elskum við deildina alla og erum því orðin dálítið áhyggjufull yfir þessari stóru flugu sem dottin er ofan í NBA-súpuna.


Margir sem við höfum hitt að máli vegna þessa eru harðir á því að staðan sem komin er upp hjá Bryant sé ekkert annað en karma - að hann sé að uppskera eins og hann sáði með viðhorfum sínum og leikstíl.

Hvað sem því líður er það okkur fullljóst að Kobe Bryant stendur nú frammi fyrir stærstu áskorun sinni á ferlinum, að ná að ljúka honum á sómasamlegan hátt. Eitthvað sem ekki hefði átt að vefjast fyrir einum besta leikmanni sögunnar í sinni stöðu.

Það verður óhemju forvitnilegt að fylgjast með því hvernig þetta endar allt saman. Eins og tvöfaldur þáttur af Glæstum vonum í opinni dagskrá.

Alveg er körfubolti magnað fyrirbæri.