Thursday, November 12, 2015

Vörutalning: Austurdeild


Nú ríkir mikil eftirvænting á íslenskum heimilum og það kemur jólahátíðinni ekkert við. Nei, nú er fólki orðið mál að fá vörutalningu frá NBA Ísland til að hjálpa sér að skilja hvað er í gangi í deildinni. Við erum vön að gera þetta nokkrum sinnum á tímabili

Vörutalningin að þessu sinni verður  með styttra sniði enda hefur aðeins eitt lið í deildinni spilað tíu leiki þegar þetta er ritað, flest átta eða níu. Það liggur í augum uppi að það er ekki tímabært að kafa mjög djúpt ofan liðin sem við tökum fyrir svona snemma á leiktíðinni, en í staðinn höfum við fengið nokkrar óvæntar uppákomur og nokkra rosalega leiki.

Venju samkvæmt skulum við byrja á að dýfa tánum aðeins í Austurdeildardrullupollinn áður en við hoppum nakin út í Vesturdeildarlaugina. Við verðum nú samt að viðurkenna að Austurdeildin fer þokkalega af stað og er enn sem komið er bara með tvö lið sem gera sig að fíflum í hverjum leik, Brooklyn og Philadelphia.

Öllum hinum liðunum í austrinu hefur tekist að vinna amk 3-4 leiki og meira að segja friggin´ New York er næstum því með 50% vinningshlutfall. Næstum því.

Eins og við sögðum er ekki hægt að lesa mjög mikið út úr þessu meðan úrtakið okkar er enn svona lítið, en þó er áhugavert að sjá óvænta hluti í töflunni. Þannig eru Detroit (5-3), Indiana (5-4) og Charlotte (4-4) búin að planta sér inn á topp átta meðan klúbbar eins og Washington (3-4), Boston (3-4) og Milwaukee (4-5) eru utan við sæti í úrslitakeppninni.

Það er stutt á milli þegar liðin eru ekki búin að spila nema tíu leiki, en helsta trendið sem við sjáum í þessu er að Detroit, Charlotte og Indiana eru að byrja betur en við reiknuðum með. Við verðum samt að hafa hugfast að austrið er jú að spila mest við austrið og þannig hrannast sigrarnir upp.

Samt verðum við að henda einu kúdósi á Detroit, sem virðist loksins vera að finna sig í leikstjórn Stans van Göndís. Drummond er náttúrulega búinn að vera ofsalegur. 


Annað lið sem við ætlum að gefa sját-át eru kjúklingarnir í Orlando. Þeir eru búnir að tapa 5 af 9 leikjum sínum og flest þessi töp eru skólabókardæmi um reynsluleysi. Þeir eru allir að læra þetta. Við erum nokkuð hrifin af leikstíl Orlando-liðsins sem var einni handsprengju frá Russell Westbrook frá því að leggja Oklahoma á dögunum.

Eigum við að segja að það komi á óvart að Cleveland sé 7-1 út af öllum meiðslunum? Þið ráðið því, en það stefnir óneitanlega í huggulegan vetur hjá Cavaliers.
Það rýkur úr herbúðum Chicago Bulls, þó eldurinn sjáist ekki.

Þvílík gargandi hamingja að við skulum vera búin að endurheimta Paul George nokkurn veginn eftir fótbrotið ógeðslega. Við söknuðum hans mikið meðan hann var frá keppni, enda var hann og er einn besti tvíhliðaleikmaður deildarinnar.

Stuðningsmenn Knicks hafa nú loksins ástæðu til að fara fram úr rúminu á morgnana þar sem nýliðinn knái Kristaps Porziņģis er að reynast duglegur, skemmtilegur og spennandi. 

Hann treður yfir einhvern reglulega með því að hoppa á bakið á honum og þruma niður sóknarfráköstum. 

Það kæmi okkur satt best að segja ekkert á óvart þó sala á geðlyfjum ætti eftir að dragast saman í New York með tilkomu Porziņģis. Svona hengir fólk miklar væntingar á hann. 

Þessi strákur á eftir að læra mjög margt og hans bíður gríðarleg vinna við að byggja upp meiri físík. Hann þarf að taka dálítið vel á hnébeygjunni karlinn.

Já, við vorum ekki lengi að telja Austurdeildina, en í næsta pistli skellum við okkur vestur á bóginn og förum að pæla í alvöru liðum.