Við gáfum okkur blessunarlega langan umhugsunarfrest áður en við hjóluðum í þennan stutta pistil. Ef við hefðum skrifað það sem við vorum að hugsa í gærkvöldi, hefði það líklega endað með ósköpum. Það þýðir samt ekki að við séum í góðu skapi. Ó, nei.
Og það er Íþróttafélagi Reykjavíkur að kenna.
Við höfum ekki lagt það í vana okkar að gagnrýna liðin í úrvalsdeildinni hér heima mikið, enda hefur það verið yfirlýst stefna okkar að vera jákvæð og uppbyggileg þegar kemur að heimabrugginu. Það er allt miklu auðveldara og vinalegra þannig og það er ekki okkar stíll að vera með mjög mikil leiðindi nema kannski út í New York Knicks og svona. Smá stríðni bara.
ÍR-ingar hafa nú orðið til að breyta þessu og það er ekki möguleiki að við getum haldið kjafti yfir því.
Liðum sem spila eins og ÍR hefur verið að gera undanfarið eru stundum líkt við aðalpersónurnar í sögunni sígildu um Undarlegt mál doktors Jekyll og herra Hyde eftir Robert Louis Stevenson. Það er kannski ekki svo galin líking þegar við skoðum úrslitin hjá liðinu í deildinni Domino´s það sem af er. Smellt´á´etta ´elvídi:
Tímabilið byrjar á heimatapi fyrir Tindastól, sem var með þjálfara á þeim tíma og því hægt að fyrirgefa Breiðhyltingum það. Þremur dögum síðar gerir það góða ferð á Selfoss og vinnur FSu eins og öll hin liðin í deildinni, en þá má segja að sirkusinn hafi komið í bæinn.
Við vorum vorum í Hellinum þann 22. október sl. þar sem Kanalausir Grindvíkingar hafa líklega lagt grunninn að stórslysinu sem var í vændum. Án þess að vera að bera í bætifláka fyrir ÍR-inga voru Grindvíkingar reyndar í óvenju miklu stuði í leiknum og virtust hitta úr öllu sem þeir grýttu á körfuna.
Þeir unnu leikinn 94-79 og hann var ekki eins "jafn" og tölurnar segja til um. Þetta var einn af þessum dögum hjá þeim gulu og við hugsuðum með okkur að þetta væri sömuleiðis einn af þessum dögum hjá ÍR líka. Bara á hinum endanum í litrófinu. Sjitt heppens, bara. Ha?
Jú, kannski var þetta bara einn af þessum dögum hjá ÍR. Það vorum við alveg viss um þegar við sáum liðið spila annan heimaleik viku eftir Grindavíkurútreiðina, sem við kölluðum Blóðbað í Breiðholtinu í barnaskap okkar. Við höfum greinilega ekki hundsvit á blóðsúthellingalíkingamáli.
Næst komu vel frambærilegir Stjörnumenn í heimsókn í gettóið* og skemmst er frá því að segja að ÍR náði að stela sigrinum 96-93 í hnífjöfnum leik.
Heimamenn spiluðu engan gæðabolta í þá um kvöldið en gerðu jú gott og vel í að klára bölvaðan leikinn og ná sér í mikilvæga punkta. Við skulum bara segja alveg eins og er að Stjörnumenn hafi átt sinn þátt í niðurstöðunni, enda var hinn almennt dagfarsprúði þjálfari Garðabæjarliðsins gjörsamlega á suðupunkti og hundóánægður með leik sinna manna.
Nú hefði einhver ætlað að svona flottur sigur ætti eftir að gefa ÍR-liðinu byr undir báða vængi og blása því baráttuanda í brjóst fyrir næstu tvo leiki gegn Þórsurum og Haukum...
Hvernig eigum við að orða þetta... u, nei.
ÍR lét Þórsara rótbursta sig í Ljósabekknum í Þorlákshöfn 107-64 í síðustu viku. ÍR-ingar voru Kanalausir í leiknum meðan heimamenn voru með erlendan leikmann sem er fagmaður í blóma, en það réttlætir ekki fjörutíu stiga tap. Ekki einu sinni nálægt því.
ÍR skaut 32% í leiknum, en heimamenn sem útfráköstuðu þá líka, skutu 52% með Davíð Konung í fararbroddi (17 stig).
Það er bara tvennt í stöðunni eftir svona útreið - aðeins tvær leiðir færar eiginlega. Annað hvort bíta menn í skjaldarrendur og pappíra sig, leggja sig meira fram, berjast meira og mæta einbeittari til leiks, staðráðnir í að hefna.
Hinn kosturinn er að safna sér saman í miðjuhringinn á heimavellinum fyrir framan tryggustu stuðningsmenn sína og drulla kekkjóttum og blóðugum niðurgangi í brækurnar. ÍR-ingar ákváðu að velja þennan kost, svona alveg án gríns. Þeir ákváðu að tapa með fimmtíu og þriggja stiga mun fyrir Haukum á heimavelli, 109-57!
Ofangreint er sannarlega ekki fáguð skriffinska um körfuboltaleik, en það var heldur nákvæmlega ekkert fágað við frammistöðu ÍR í leiknum og það eina sem okkur dettur í hug til að lýsa huglausri og handónýtri frammistöðu heimamanna er... hægðir.
Við fáum engan Púlitzer fyrir svona Stormskers-lýsingar, en hvurn andskotann eigum við að segja annað um þetta bull? Eigum við að vitna í Hómer eða Hemingway - hekla okkur út úr vandanum, kannski!?!
Við spurðum menn sem vita meira (lesist: eitthvað) um Domino´s deildina en við út í þennan leik og báðum hreinlega um (skot)leyfi til að hrauna yfir ÍR. Það eru jú nokkrir ungir strákar í liðinu og kannski hjálpar það þeim ekkert að verða betri í körfubolta ef eitthvað pakk sem veit ekkert hvað það er að tala um segir þeim að þeir séu vonlausir.
Málið er bara að ÍR-liðið er ekkert kjúklingalið með krakka í öllum stöðum. Það var bullandi reynsla þarna inn á milli og þarna eiga fjandakornið að vera nokkrir leikmenn sem eiga í versta falli að geta komið í veg fyrir að vera niðurlægðir í efstu deild á Íslandi.
Liðinu var reyndar spáð falli, svo það kemur ekkert á óvart að það sé að tapa leikjum, en komm-fokkíng-on sko!
Hvernig í fjandanum geta menn bara kyngt því að láta Hauka, sem eru alls ekki með neitt ofurlið þó þeir séu á réttri leið, koma í heimsókn og láta þá gjörsamlega slátra sér. Og kveikja í kofanum á eftir. Í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport! Fólk borgaði fyrir að fá að horfa á þennan leik!!!
Okkur er alveg sama hvernig erlenda leikmanninum líður, hvort eru meiðsli í hópnum, hvort menn hafa náð að stilla saman strengi eða ekki, hvort liðið er ungt eða ekki.
Þú bara tapar ekki tveimur körfuboltaleikjum í röð með nærri HUNDRAÐ stigum. Tapar ekki með yfir fimmtíu stiga mun á heimavelli fyrir liði sem var nánast með sama stigafjölda í töflunni fyrir leikinn.
Þetta var ein versta frammistaða sem við höfum nokkru sinni séð - meira að segja ef við tökum lið eins og New York Knicks og Aston Villa með í reikninginn.
ÍR-goðsögnin Eiríkur Önundarson hringsnýst í gröfinni núna**, ekkert er vissara. Gengur aftur í Hellinn í nótt og slítur treyjuna sína niður af veggnum, kveikir í henni með Þriggja stjörnu eldspýtum og Zippo-bensíni. Reynir að æla ekki á gólfið í leiðinni.
Við hefðum skilið ef Höttur hefði tapað með fimmtíu fyrir KR. Höttur er með það afleitt lið og KR er með það sterkt lið, eða svona nokkurn veginn. Þið fattið.
Bjarni Magnússon þjálfari ÍR gat ekkert sagt eftir leikinn. Hvað átti aumingja maðurinn svo sem að segja eftir svona útreið, þar sem liðinu hans hefði eflaust vegnað betur ef hann hefði sjálfur fengið að reima á sig skó og fara inn á? Vaskur Vísismaður Stefán Árni Pálsson náði þessu upp úr honum:
„Þetta er versti leikur hjá liði undir minni stjórn. Þetta var bara ömurleg frammistaða frá okkur öllum og bara skammarleg. Svona stuttu eftir leik þá þarf maður ekkert að taka eitthvað tryllingskast inn í klefa, strákarnir vita alveg upp á sig sökina.“
Körfunni punktur is sagði hann að "leikmenn og þjálfarar ættu að skammast sín fyrir frammistöðuna."
Skítlaust, Bjarni.
En við erum einfaldlega ekki tilbúin að kyngja þessum úrslitum í Breiðholtinu í gær. Þú tapar ekki með þessum hætti ef þú hefur einhvern áhuga á því sem þú ert að gera - og eitthvað lágmarks stolt. Lið tapa alveg illa. Við sjáum körfuboltalið tapa með 20+ stiga mun á hverjum degi og 30+ stigum annan hvern dag.
Ekki fimmtíu.
Við höfum ekki skrifað svona áður svo við munum - innlendan ristil - en frammistaða ÍR-inga kallar bara á þetta. Það sem brennur á okkur eftir þennan skrípaleik í gær er fyrst og fremst að fá svar við einni spurningu.
Hefur ÍR raunverulegan áhuga á því að halda áfram að spila í úrvalsdeild karla í körfubolta? Síðustu tveir leikir segja okkur að svo sé ekki. Bara alls ekki. Leiktíðin er ekki búin og það er langt í vorið og allt það, en þetta er bara rugl.
Leikmenn liðsins þurfa allir að líta í eigin barm og hugsa dæmið alveg upp á nýtt og það sem meira er, þarf þjálfarinn alvarlega að spyrja sig hvað hann sé að gera með þetta lið. Hvernig ætlarðu að mæta í vinnuna þegar þú tapar tveimur leikjum á einni viku með hundrað stiga mun? Hvað ætlarðu að segja við strákana á næstu æfingu, ef þú þarft yfir höfuð að mæta á hana?
Þetta eru hörð orð og auðvitað kemur það okkur ekki rassgat við hvað körfuknattleiksdeild Íþróttafélags Reykjavíkur gerir í sínum málum, fyrir svo utan það að öllum ÍR-ingum nær og fjær er líka skítsama um hvað okkur finnst um stöðu mála. En finnst ykkur þetta bara allt í lagi? Finnst ykkur stuðningsmenn og konur liðsins eiga þetta skilið?
Erum við að bregðast of hart við? Fjandakornið, nei! Við værum BRJÁLUÐ ef við værum stuðningsmenn ÍR skulum við segja ykkur og við hefðum öskrað og baulað á liðið allan síðari hálfleikinn ef svo væri.
Sjáið þið bara: Við erum alveg hundpirruð yfir þessu þó við höldum ekki með ÍR frekar en Ómar Ragnarsson eða Idi Amin. Þetta var ekki góð auglýsing fyrir Domino´s deildina okkar.
Annað sem er alveg á hreinu, er að við hefðum verið löngu komin í sturtuna og út úr húsinu áður en leikurinn kláraðist ef við hefðum verið einn af leikmönnum ÍR í gær.
Hvernig keppnismenn eru það sem láta valta svona yfir sig án þess að svara fyrir sig? Láta einhverja gutta koma á heimavöllinn sinn og taka sig í sýnikennslu í viðstöðulausum troðslum til að skemmta áhorfendum Stöðvar 2.
Þú lætur ekki fara svona með þig. Í versta falli sendirðu einn mótherjana í gólfið með áberandi hætti til að gefa út yfirlýsingu um að þú ætlir ekki að láta drulla yfir þig, þó þú sért kannski að tapa leiknum. Við erum ekki að hvetja til ofbeldis hérna, bara segja mönnum láta aðeins vita af sér, óld skúl.
En, nei.
Þetta er í fyrsta og vonandi síðasta skipti sem við skrifum ristil um lélega frammistöðu félags í Úrvalsdeildinni af því við erum alls ekki hrifin af illindum, deilum og leiðindum. Við þekkjum handfylli af ÍR-ingum, eðalfólki, sem á ekki skilið að horfa upp á svona lagað. Við vitum að það finnur til og við finnum til með því og að sjálfssögðu vonum við að liðið drullist til að fara að spila almennilega - þó það nú væri!
Næsti leikur ÍR er útileikur við Njarðvík. Hann vinnst væntanlega, en svo kemur skellur á móti Hetti á heimavelli í umferðinni þar á eftir. Svona ef við leyfum okkur að spá aðeins.
Ef Breiðhyltingar ætla að bregaðst reiðir við þessum pilstli rifnum út úr ristli, þar sem frammistöðu þeirra síðustu viku er lýst með svo gróteskum (en að okkar mati sanngjörnum) hætti, verður bara að hafa það. Þeir ættu samt kannski frekar að eyða púðri í að reyna að finna hjartað í þessu liði sínu svo það húrri ekki lóðrétt úr delidinni í vor.
Og til að koma í veg fyrir að þeir verði sjálfum sér og deildinni til skammar eins og þeir gerðu í beinni útsendingu í sjónvarpi í gærkvöldi.
-----------------------------------------------------------------------------------------------------
* - Þeir sem hafa búið í gettóinu, eins og við, hafa fullan rétt á að tala um Breiðholtið sem gettóið. Það veður ekki hver sem er um á skítugum skónum með G-orðið - fólk verður að vinna sér inn fyrir því. Ákveðið kred, þið vitið.
** - Auðvitað er Eiríkur sprelllifandi og við hestaheilsu eftir því sem við best vitum, en hér erum við að fá lánaðan talsmáta frá Charles Barkley, sem segir gjarnan að lifandi menn séu að snúa sér í gröfinni yfir því sem illa fer hjá félögum sem þeir tengjast í NBA deildinni.
Hann gæti þannig sagt að Alex English hringsnúist í gröfinni ef leikmenn Denver eru að spila eins og fífl, en Barkley gerir sér reyndar oft leik úr því að finna minna þekkta leikmenn til að stilla inn í setningarnar: "Minnesota er að spila hræðilega! Randy Breuer hringsnýst í gröfinni!"